Saturday, January 28, 2006

Argentína Steikhús

Það var með nokkrum kvíða að ég ákvað að Argentína Steikhús yrði fyrsta veitingahúsið sem ég gagnrýni í þessum nýja dálki sem nú er hleypt af stokkunum. Ég verð að rifja upp í stuttu máli hryllinginn sem var í gangi í síðustu heimsókn minni á þennan stað og óhjákvæmilega bera hann saman við þessa heimsókn. Þá var ég varaður við í anddyrinu, að von væri á stórum hópum fólks en hefði mig grunað hvað í vændum var hefði ég snarlega hætt við. Dauðadrukkið fólk með háreysti og tillitsleysi er ekki forskriftin að rómantísku kvöldi út að borða. Svo varð ég að þola það að fyrri þjónninn móðgaðist þegar ég bað hann að láta ekki líða fullan hálftíma á milli þessa sem hann sinnti mér og sást hann ekki meir það kvöld. Sá síðari sagði tæpitungulaust “ég má ekki vera að þessu, ég verð að drífa mig” þegar ég vildi panta vín. Þannig gekk þetta fyrir sig, ég bíðandi eftir að einhver sæi ástæðu til að sinna mér og svo við hjónin kallandi á hvert annað yfir borðið að reyna að heyra okkar eigið samtal fyrir fylliríissöngli og hrópum í árshátíðarhópunum sem voru greinilega ekki komnir á staðinn til að njóta matar og þjónustu.
Ég var því við öllu búinn. Og ekki byrjaði það vel, við stóðum dágóða stund í anddyrinu áður en nokkur kom til að taka á móti okkur. Salurinn var stappaður og augnablik þyrmdi yfir mig, var þetta þá alltaf svona hér á Argentínu, stórir hópar fólks afgreiddir á færibandi eins og í meðalmötuneyti í frystihúsi út á landi og skjótfenginn gróði tekinn framyfir orðstí eins virtasta veitingahúss borgarinnar. Ótti minn var ástæðulaus því í salnum voru útlendingar sem, ólíkt Íslendingum, geta farið margir saman út að borða án þess að það sé endilega ávísun á hörmungar. Vissulega heyrðist í þessu fólki en það voru ánægjuraddir og gleðin skein úr andlitum. Ég andaði léttar. Þjónninn sem tók á móti okkur kunni sitt fag og það átti eftir að sýna sig þegar leið á kvöldið að þar var á ferðinni einhver albesti þjónn sem við höfum fengið. Hann var alltaf tiltækur en aldrei áberandi, tilbúinn að ráðleggja glaður í bragði en blandaði sér aldrei í samtöl, var augljóslega skólagenginn og hafði metnað, þvílíkur munur. Á undan forréttunum kom hann með nautakarpachio í boði hússins, svona smá apperative, smart. Þrír forréttir voru smakkaðir, allir góðir, humarsúpan flauelismjúk og risarækjur á spjóti stinnar og alls ekki ofeldaðar. Parmaskinka með mozzarellaosti var sérlega vel heppnuð á nýbökuðum brauðbotni. Tónnin lagður strax mjög ákveðið af meisturunum í eldhúsinu, þar sem hjarta veitingahússins slær. Með þessu var drukkið hvítvín frá Chile, Torres Santa Digna Sauvignon Blanc, milt og bragðgott. Að sjálfsögðu var nautasteik aðalrétturinn. Ólíkur smekkur ákvarðaði steikinguna, frá rare til medium og í nautinu eru kokkar Argentínu sannarlega á heimavelli, hárrétt og vönduð vinnubrögð. Lundin var borin fram með bakaðri kartöflu og á borðinu voru sósur hússins. Ég var langt komin með steikina þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki smakkað sósurnar. Kjötið var svo meirt og safaríkt að þær voru óþarfar. Og bragðið, maður lifandi, þvílíkt sælgæti. Með þessu var drukkið rauðvín frá Montes og það var með nokkru stolti sem þjónninn kynnti flöskuna. Þessi tiltekna Cabarnet/Carmanére blanda er sérstaklega átöppuð fyrir Argentína Steikhús. Gott vín sem passar vel við nautið.
Smá pása í koníakstofu og svo súkkulaðikaka. Hún var, eins og annað sem borið var á borð þetta kvöld, frábær. Bökuð að utan en með linu súkkulaðimauki í miðju, hvar var þessi kaka þegar maður átti afmælin hér forðum. Kaffi og meðví í lokin og niðurstaðan í heild; Argentína Steikhús hefur lengi verið eitt af virtustu veitingahúsum borgarinnar og ekki að ástæðulausu. Umhverfi og þjónusta með ágætum og maturinn algjört ævintýr. Vínlistinn áhugaverður og úrvalið af vindlum og koníaki til fyrirmyndar. Verðið er í hærri kantinum. Þess vegna gerir maður þá kröfu að hlutirnir séu alltaf í lagi, líka þegar hópar drukkinna Íslendinga ríða húsum og lemja hælum. En þetta kvöld var einstaklega vel heppnað og mun, þegar frá líður, geymast í minningunni löngu eftir að hið fyrra verður gleymt.

Þessi rýni birtist í Mannlífi nóvember ´05

0 Comments:

Post a Comment

<< Home