Saturday, January 28, 2006

Rossopomodoro

Fyrstu kynni gera oft út um frekara samband og því ber að vanda sig þegar maður hittir ókunnuga eða ef maður er ókunnugur sjálfur. Þegar við komum inn á Rossopomodoro við Laugaveg renndum við blint í sjóinn, vissum bara að hér var ítalskt veitingahús og að þetta var í húsinu sem brann. Einstaklega vel hefur tekist til með lagfæringu á rýminu og salurinn er bjartur og aðlaðandi. Snaggaralegur töffari (með mynd af bílnum í vasanum?) fylgdi okkur innst í salinn og benti svo á stað, þremur borðum frá; “er þetta ekki fínt”, beið ekki á meðan við settumst og bauð okkur ekki fordrykk. Sá yrti ekki á okkur aftur þetta kvöld. Við færðum okkur skömmu síðar því þó staðurinn væri tómur var óþægilegur erill þarna innst, af starfsfólki sem greinilega var búið með vaktina sína og var að taka á móti vinum og ættingum. Þegar stelpan kom svo loks til að sinna okkur voru liðnar um tuttugu mínutur frá því við komum inn og fordrykkurinn því ekki lengur á dagskrá, best að vinda sér beint í matinn. Hún vissi lítið sem ekkert um réttina á seðlinum og forrétturinn, sem var að hennar sögn djúpsteiktir ostar, reyndist vera djúpsteikt pizzadeig af ýmsum sortum. Reyndar fann ég svo mozzarellastangir þarna innanum en þær voru alveg eins og þessar sem maður kaupir í Nóatúni og hitar sjálfur. Tómatmaukið sem klínt var ofaná deigbollurnar var lítið krydduð púrra og megnaði ekki að gera úr þessu sæmilegan forrétt. Kokkurinn á frívaktinni stóð reyndar upp frá gestum sínum til að færa okkur Parmesan ost og til að útskýra fyrir okkur hvað það var sem við vorum að borða. Eins og vitneskjan um að bollurnar væru týpískar fyrir suður Ítalíu myndu gera þær betri í okkar munni. Hann kom reyndar aftur skömmu síðar til að taka leifarnar af borðinu því ekki voru þjónarnir að sinna okkur. Pizza Vesuvio, “eldfjall sem bragð er að”, og pasta með úrvali sjávarrétta skyldu vera aðalrétturinn. Það fyrrnefnda er hveitipönnukökusamloka með salami og osti, eingöngu, tómatarnir fjarverandi, og hið síðarnefnda er hrúga af einskonar breiðu tagliatelli með nokkrum sjávarskordýrum, tómatana fann ég ekki heldur þar. Báðir réttirnir voru bragðlausir og einstaklega óspennandi, en voru valdir í samráði við stelpuna sem lýsandi fyrir eldhúsið á staðnum. Ekki ristir það djúpt. Vinur minn sem dvaldi langdvölum á Ítalíu, m.a. í Napólí, kannast ekki við þessa matargerð sem suður-Ítalska. Vínseðilinn er sannarlega Ítalskur og Cabernet Sauvignon/Negroamaro blandan sem varð fyrir valinu er sérlega gott vín. Kaffi og “meðví” í innri sal hefði hugsanlega dottið inn ef staffið, og sá sólbekkjabrúni, hefði ekki líka verið búið að hreiðra um sig þar. Fengum að vita á leiðinni út hann væri eigandinn og fannst okkur það með ólíkindum. Umhverfi Rossopomodoro er huggulegt, maturinn ekki góður, eiginlega hvorki “fugl né fiskur” og ef þjónustan væri yfirhöfuð til staðar myndi hún hafa fengið umsögn hér.
Ég gef staðnum eina stjörnu.


Þessi rýni birtist í Mannlífi febrúar ´06

0 Comments:

Post a Comment

<< Home