Monday, September 22, 2008

Björn Bjarnason - reiði ráðherrann undarlegi






Björn Bjarnason, Dóms- og kirkjumálaráðherra, er undarlega samsettur einstaklingur. Hann hefur "flotið" fyrirhafnarlaust upp metorðastigann og oftar en ekki verið munstraður í stór og áhrifamikil embætti. Hann var meðal fyrstu manna til að koma sér upp bloggsíðu sem hann notar óspart til að tjá sig um sín hjartans mál, oft á tæpitungulausri Íslensku. Þar má stundum lesa milli línanna hver fær að vera “memm” og hver er skilinn útundan þá vikuna. Ef einhver skítbuxinn fer í taugarnar á Birni Bjarnasyni er sá hinn sami umsvifalaust skotinn í kaf á bloggsíðunni og á sér varla viðreisnar von eftir það. Björn Bjarnason er líka mikill aðdáandi hasarmynda í B-flokki og ber "Die-hard" seríuna iðullega á góma þegar kvikmyndir eru ræddar. Í þeim myndum eru vondu kallarnir ekki teknir neinum vettlingatökum og margt væri sjálfsagt betra í heimi hér ef hægt væri að afgreiða glæpona klárt og kvitt eins og Bruce Willis gerir með svo miklum stæl; "Yippi-kaj-jay motherfucker!!!"

Í menntamálaráðuneytinu leiddist Birni Bjarnasyni óheyrilega mikið. Lítið við að vera þar innan um rykfallnar skólabækur og útkrassaðar krítartöflur. Allir jarmandi stöðugt um bág kjör og lág laun og mikið vinnuálag og þetta og hitt og hitt og þetta. Þvílík leiðindi. Enda var hann fljótur að losa sig við allar þessar vælandi peysufatakellingar. Þá er nú meira fútt í Dómsmálaráðuneytinu. Þar eru alvöru glæponar og vondir kallar daglegir gestir og kylfur og handjárn og piparúðarar og "GAS-GAS-GAS".....

"YIPPI-KAJ-JAY MOTHERFUCKER!!!"

Reyndar gleymist oft að ráðherra dómsmála er líka ráðherra kirkjumála. Tilhögun sem er stórundarleg í sjálfu sér, málefni allra vondu kallanna og málefni allra góðu kallanna hlið við hlið á borði eins og sama embættismannsins. Hlýtur að vera rosalega krefjandi og erfitt starf.
En Björn Bjarnason er ekki verkkvíðinn maður, ó nei, honum hentar fátt betur en action, action og aftur action. Eitthvað annað en helvítis lognmollan í kringum sívælandi kennarablækurnar forðum. Í dómsmálaráðuneytinu er sko gaman að vera. Þar blómstrar Björn Bjarnason með alla sína "Die-Hard" hugmyndafræði og "Robo-Cop" heimspeki. Spillt einbirni, sem hafa tamið sér tuddaskap og yfirgang í samskiptum við samferðamenn sína, þykja Birni Bjarnasyni hinir ákjósanlegustu klíkubræður og ekki verra ef þeir eru synir gamalla hagsmunapotara úr "Flokknum".
Svo er bara að fjölga duglega í "Víkingasveitinni" og passa voða vel að alls enginn og allra síst einhverjir millistrumpar, eins og lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, fái að vita hvar sveitin vaska er niðurkomin og hvað allir sérþjálfuðu hálf-hermennirnir eru að sísla frá degi til dags. Skítt með það þótt borg óttans rambi á barmi sjálfseyðingar og almenningur þori ekki vera á ferli nema um hábjartan daginn, Ráðherrann og “Ríkis”-lögreglustjórinn eru ekkert að lána sinn einkaher út um hvippinn og hvappinn. Óhugnarlega fín lína milli “Ríkis-lögreglu” og “Lögreglu-ríkis”...

Millistjórnendur geta verið óþægir ljáir í þúfum. Þeir eru í beinu sambandi við fólkið í umdæmunum og eiga það jafnvel til að haga sínum störfum þannig að jákvæð mynd skapist af lögreglunni. Það gengur auðvitað ekki. Best væri að losna við sem flesta af þessum strumpum, fækka umdæmum og embættum niður í svona svosem 4 eða 5 og taka af þeim öll fjárráð. Þá sést fljótt hverjir hlýða og hverjir ekki. Handtökur frægra hrekkjusvína eiga t.d. alltaf að fara fram með sjónvarpsmyndavélar viðstaddar. Þá sjá hinir glæponarnir hver það er sem ræður og þá þora þeir ekki annað en hlýða líka. Millistjórnandi sem ekki skilur þessar einföldu reglur verður bara að taka pokann sinn, skiptir engu hvernig hann hefur staðið sig og hvernig hann er þokkaður, löggæsla í glæpamannasamfélagi er ekki vinsældarkeppni. Ja, nema auðvitað á bloggsíðu ráðherrans. Þar mega menn helst ekki tapa vinsældum eða lenda uppá kant. Falli menn í þann fúla pitt eru eru þeir samstundis orðnir “Dead -men walking” í augum Björns Bjarnasonar.

Sjáið bara Jóhann R. Benediktson. Hann fékk að vera “memm” en fattaði ekki að þegar klíkuforingjar og tuddar ráða öllu í leiknum gilda ekki aðrar reglur en þær sem þeir ákveða hverju sinni. Sá sem ekki fer eftir þeirra reglum, kann ekki að hlýða og er með einhverjar sjálfstæðar skoðanir og meiningar, hann er rekinn. Það heitir að “auglýsa embættið” á máli klíkunnar. Einni hindrun færra að fást við.

Já, Björn Bjarnason, Dóms- og kirkjumálaráðherra, er undarlega samsettur einstaklingur.

Sem ríkisborgari þessa lands og kjósandi er ég móðgaður þegar kjörnir embættismenn voga sér að draga embætti sín niður á frekju- og hrekkjusvínaplan eins og Björn Bjarnason hefur gert iðullega og gerir enn. Seta hans í ráðherrastóli er orðin í besta falli lélegur aulabrandari en í versta falli hrein og klár atlaga að lýðræðinu.

Það er orðið aðkallandi í meira lagi að þjóðin losni án tafar við þennan mann úr embætti.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home