Wednesday, February 01, 2006

Læknamiðstöðin, þó langt sé síðan

Heilbrigðis “þjónustan”,
Lítil reynslusaga

Ég þurfti að leita til læknamiðstöðvarinnar á Smáratorgi um síðustu helgi. Eftir reynslu mína af því batteríi get ég ekki mælt með því við nokkurn mann. Sonur minn, 10 mánaða gamall, fékk einhverja slæmsku í auga og ég vildi ekki taka neina áhættu og bíða til mánudags. Því hringdi ég í 1770 og fékk, eftir smá bið, að tala við hjúkrunarfræðing. Sú sagði mér að koma með drenginn og ég vildi vita hvor löng bið væri fyrirsjáanleg því þolinmæði barna er takmörkuð. Hálf klukkustund var svarið og ég dreif mig á staðinn. Þar biðu 4 og einn enn var að láta skrá sig þegar við mættum. Eftir skráningu, var okkur sagt að bíða, við yrðum kallaðir upp. Tveir eða þrír bættust í hópinn áður en einhver hreifing varð á. Þegar við höfðum beðið í 45 mínútur og drengurinn var farinn að ókyrrast mjög, sá ég að þeir sem voru á undan okkur voru allir farnir inn en líka sú sem hafði mætt um 10 mínútum á eftir okkur. Ég spurði því hvort ekki færi að koma að okkur og benti fullorðinni konu í afgreiðslunni á að stubburinn væri ekki nema 10 mánaða og svona löng bið væri honum ofviða. Hún sýndi engin svipbrigði eða viðbrögð en sagði lágt að við værum næstir. Ég ákvað því að standa með hann í fanginu, næst glerinu til að hún gleymdi okkur ekki strax aftur og sæi kannski sjálf ástandið á barninu.
Eitthvað gerist ...
Um 15 mínútum síðar hvíslaði símadaman nafn drengsins út um rifu á afgreiðsluglerinu og ég þóttist góður að hafa greint orðaskil. Þá fórum við inn um dyr inn á einhvern milligang og viti menn, þar sátu og biðu allir þeir sem höfðu beðið á undan okkur frammi á biðstofunni (og reyndar líka sú sem kom á eftir okkur). Mér fannst ég vera staddur í einhverskonar Monty Python skets eða Spaugstofu atriði þar sem sjúklingunum er vísað úr einum biðsal yfir í þann næsta og svo koll af kolli en fá aldrei að hitta neinn lækni. Það þyrmdi yfir mig og ég snöggreiddist. Hvers konar skrípaleikur er þetta eiginlega? Er kannski enginn læknir á vakt og bara stólað á það að menn gefist upp á biðinni? Það gerðum við feðgar allavega og ég strunsaði aftur fram um hinar rammgerðu og fjarlæstu millidyr til að fá endurgreitt. Jú jú það var ekkert mál að fá endurgreitt; ég yrði bara að skila henni bleika afritinu. Drengurinn í gólfið og allt uppúr vösunum því afritið skildi ég finna til að fullnægja í einu og öllu þörfum og kröfum hinnar stórkostlegu læknamiðstöðvar.
Athugasemd gerð símleiðis ...
Á leiðinni heim sauð á mér því lunginn úr sunnudagseftirmiðdegi okkar feðga var farinn í súginn og drengurinn orðinn verri í auganu. Ég ákvað því að hringja og fá aftur samband við hjúkrunarfræðinginn sem hafði ráðlagt okkur svo vel í upphafi. Eftir skyldubiðina fékk ég samband og hóf mál mitt á að segja að við hefðum farið að ráðum hennar og komið á stöðina. Hennar viðbrögð voru þá að svara með talsverðu þjósti “til hvers ertu þá að hringja í mig????”. Ég sagðist vera að hringja til að kvarta undan móttökunum og hinu algera tillits-og skilningsleysi sem við feðgar máttum þola á biðstofunum. Ég myndi nú fara heim með drenginn og bíða mánudags til að freista þess að hitta alvöru lækni á alvöru læknamiðstöð, þar sem þjónusta er enn hluti af heilbrigðisgeiranum.
Aðgengi að læknum ...
Framvegis mun ég ekki leggja heilsu mína eða barnanna minna í hendurnar á símadömum og afgreiðslufólki á læknamiðstöðvum, og ráðlegg öðrum það sama. Látið ekki segja ykkur að þetta eða hitt sé í lagi eða þoli bið. Við erum sjálf ábyrg fyrir velferð þeirra sem á okkur treysta og okkar eigin. Það er ekki nóg að gefa stíl og bíða og sjá til. Læknar verða að vera aðgengilegir fólkinu í landinu og þessari endalausu þrautargöngu í gegnum allskonar afgreiðslufólk, biðstofur, hjúkrunarfræðinga og aðra milliliði verður að linna. Þess má geta í lokin að við hittum lækni kl.9:40 á mánudagsmorgun og það tók hann innan við 5 mínútur að skoða drenginn og skrifa lyfseðil fyrir augndropum; drengurinn var orðinn góður fyrir kvöldið.


Pistill þessi birtist fyrst í janúar ´04

0 Comments:

Post a Comment

<< Home