Wednesday, May 09, 2007

Litil frétt ?

Smáklausa í fríblaði vakti athygli mína. Bandaríski ál-risinn Alcoa, sem við þekkjum mætavel hér á Íslandi, ætlar í "fjandsamlega yfirtöku" á Kanadíska ál-fryrirtækinu Alcan sem m.a. rekur ál-verið í Straumsvík. Svo fylgja í klausunni sundurliðanir á verðmati og gengi og skoðanir "greinenda" á m-ál-inu. Alcoa og Alcan hafa átt í viðræðum í tvö ár en þær hafa engum árangri skilað. Því afréð Alcoa að fara út í yfirtökuna. Tilboðið kom Alcan víst alveg í opna skjöldu og munu þeir ekki tjá sig um það fyrr en það liggur formlega fyrir.

Svo mörg voru þau orð.

Það sem fær mig til að hugsa er ekki hvort einhverjir veruleikafyrrtir milljarða-mafíósar út í hinum stóra heima eru að bítast um kompaníin sín eins og smástrákar í sandkassa, það kemur mér ekkert við, heldur hitt að attaníossar og strengjabrúður þeirra hér á landi, sem hafa makkað í þeirra umboði undanfarna áratugi, skuli hafa skipað m-ál-um svo að þessi gjörningur mafíósanna geti hugsanlega haft stórkostleg áhrif á land mitt og þjóð.

í yfir 600 ár máttum við kyngja því að aðrir réðu okkar m-ál-um. Svo var stoltum og djörfum mönnum fyrir að þakka að við fengum ákvörðunarréttinn í eigin hendur og fullt sjálfstæði skömmu síðar. Nú blasir við að siðblindir og gróðasjúkir smámenn hafa með yfirgangi og frekju komið öllum eggjum okkar í eina risastóra ál-körfu. Það átti svo að slá ryki í augu okkar með því að ál-bræðslurnar væru ekki í allar í eigu sama aðila og því væri áhættunni dreyft!

En hvað þá ef einn og sami aðili sölsar undir sig þær ál-bræðslur sem þegar eru hér? Hvað ef einn og sami aðili á og rekur nær alla stóryðju á landinu? Hvar erum við stödd ef sá gróðapungur fer í fílu og hypjar sig burt einn góðan veðurdag?

Kannski var þessi litla frétt ekki svo lítil þegar grannt er skoðað.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home