Thursday, March 29, 2007

Af bökkum Þjórsár

Enn eitt áróðursbréfið hugsaði ég þegar ég reif umslag merkt "Kæri Hafnfirðingur".

En þvílíkur léttir! Bréfið rita bændur í sveitum austur, af bökkum Þjórsár, og er einlægt og tilfinningaþrungið ákall til bæjarbúa að láta hugann reika útfyrir bæjarmörkin þegar kosið verður á laugardaginn.

Ég hef sjaldan lesið skrif sem hafa snert mig eins og þetta bréf.

Loksins er m-ál-ið komið í stærra samhengi og ábyrgð lögð á herðar þeim sem hingað til hafa haldið sig vera að ráðstafa eingöngu sinni framtíð og fyrirtækjanna sem þeir vinna hjá. "Þetta er vinnan mín" var einn spunafrasinn sem slett var í okkur en nú hafa bændur á bökkum þjórsár bætt um betur og segja "þetta er líf okkar" og jafnvel "þetta er landið okkar" og stundarbrjálæði stóriðjugróðablindu hefur ekki verið veitt umboð til að svívirða það eins og mun verða ef af stækkun verður.

Hafnfirðingar hafa í hendi sér að breyta rétt á laugardaginn og geta þá með stolti sagt að náttúran, landið og framtíð niðja okkar hafi fengið að njóta vafans.


Lokaorð bréfsins eru; "Sælir eru hógværir því þeir munu landið erfa" !


Þeir sem rita nöfn sín undir þetta fallega bréf eru menn að meiri. Ég er þeim þakklátur og mun hugsa austur jafnt og í minn eigin túnfót þegar ég, á laugardaginn, mæti á kjörstað og segi hátt og skýrt; "NEI" við stækkun álbræðslunnar í Straumsvík!

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Jæja, kæri pennavinur, stóri dagurinn!

Fyrir nokkrum árum fluttum við fjölskyldan til Hafnarfjarðar, keyptum íbúð við Miðvanginn og leið þar vel, þrátt fyrir dópdílerinn í íbúðinni á móti.

Tveimur árum seinna fluttum við norður og seldum íbúðina.

Í dag vildi ég óska þess að ég hefði enn lögheimili í Hafnarfirðinum, svo ég gæti farið á kjörstað og sagt NEI við ekkisens auðvaldshringinn.

Ég vona bara svo heitt og innilega að Hafnfirðingar sýni styrk sinn og leyfi ekki ófreskjunni að koma fram vilja sínum, óneitanlega minnir undangenginn mökunardans Alcoa á aðferðir kynferðisglæpamanna til þess að vinna saklaus börn á sitt band með lygum og fagurgala. Og sælgæti í poka...

Hugur minn er hjá ykkur í dag.

3/31/2007 10:28 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Takk fyrir þetta.

Mikilvægt er að horfa ekki framhjá þeirri staðreynd að þessi yfirgangur gróðapunganna í álgeiranum snertir okkur öll, landsmenn alla og íbúa jarðarinnar. Það verður ekki spurt um hundraðkallinn í rassvasanum á rafvirkjanum eða píparanum sem kaus stækkun þegar jöklarnir hafa bráðnað og regnskógarnir eru horfnir. Þá munu menn vilja þá Lilju kveðið hafa að hafa mótmælt stækkun álbræðslunnar og kosið lífið frekar.

Lifðu heill.

3/31/2007 10:51 AM  

Post a Comment

<< Home