Wednesday, March 28, 2007

Hvað er m-ál-ið ?

Rétt í þessu hringdi í mig kurteis maður og kynnti sig sem starfsmann álversins í Straumsvík. Ég heyrði að hann hringdi frá stað þar sem aðrir voru greinilega að hringja líka, margar raddir og allir að tala í síma. Hann sagðist vilja minna mig á kosningarnar á laugardaginn og spurði hvort ég ætlaði ekki að kjósa. Svo bauðst hann til að svara spurningum mínum ef eitthvað væri sem ég vildi vita um m-ál-ið.

Allt saman mjög snyrtilegt og pro...

Ég sé mest eftir því að hafa ekki látið eftir þessum ágæta manni að gera sig að fífli í minn síma en til þess hafði ég einfaldlega ekki tíma. Í staðinn benti ég honum á þessa síðu og bauð honum að lesa það sem hér er ritað m.a. um Álgrím og hans aðferðir. Kannski snýst þessum "starfsmanni" hugur eftir lesturinn þó ég efi það.

En mér er spurn; eru laun verkamannanna í álbræðslunni virkilega svona lág að þeir eru tilneyddir að sitja langt fram á kvöld á yfirvinnulaunum við úthringingar, eins og kosningasmalar í prófkjöri, eða eru menn virkilega að fylgja sannfæringu sinni og þá endurgjaldslaust?

Og enn er mér spurn; getur verið að Sól í Straumi hafi skotið sig í fótinn og vakið sofandi þurs, heljarinnar mikinn þurs, sem nú er vaknaður og gramur mjög. Álgrímur var nefnilega ekkert að þenja sig og andstæðingar stækkunarinnar voru það margir að hann kaus að birta ekki niðurstöður skoðanakönnunar sem hann sjálfur lét gera. Og hann aðhafðist ekkert. En um leið og hann varð þess áskynja að hópur fólks var að rotta sig saman á móti honum reis hann uppá afturlappirnar og þandi kassann, eins og þursum er tamt að gera séu þeir vaktir af sínum væra milljarðagróða-blundi.

Og nú situr mauraherinn og hringir út samansoðinn lygaáróðurinn.

Mætti ég vinsamlegast biðja ykkur að láta mig og fjölskyldu mína í friði.

Það er nóg að við þurfum að anda að okkur viðbjóðnum, sem álbræðslan ykkar spúir út í andrúmsloftið á hverjum einasta degi, svo við þurfum ekki að eiga von á grátkórnum "en þetta er vinnan mín" í okkar prívat heimasíma.

Ég segi nei takk!




P.S. Það stakk mig hve Forstýrunni varð svarafátt aðspurð um fjarveru raflína og strompa á glansmyndinni fallegu. Engu líkara en hún hafi ekki vitað af þrotlausum fundahöldum smápeða sem loks náðu samkomulagi, fjórum dögum fyrir kosningar, um að leggja þessar línur í jörð. Hún hefði alltént getað gert sér áróðursmat úr því í sjónvarpi allra landsmanna - oní allt bullið sem hún bauð uppá þar. En kannski er hún ekkert að velta fyrir sér smæstu verkþáttum væntanlegrar stækkunar, frekar en öðru.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home