Friday, March 02, 2007

M-ál-ið enn og aftur













Mér er slétt sama hvort nýjasta tækni geri álframleiðindum kleift að framleiða ál með "minni" mengun ef framleitt er hér á landi með rafmagni frekar en annarstaðar með kolum. Mér er líka nokk sama, á heildina litið, hvort bæjarfélagið mitt verður af þessari sporslu sem nemur víst ekki nema einu til tveimur prósentum af heildartekjunum yfir árið. Þessir 40 til 50 "birgjar" sem missa spón úr aski sínum ef Alcan skyldi loka eiga reyndar samúð mína svo langt sem hún nær en verða menn ekki að aðlagast breyttum tímum og finna sér lífsviðurværi sem ekki útheimtir þrælslund á við þessa. Það þurftu Suðurnesjamenn að gera eftir að herinn hysjaði upp um sig og fór.

Nei, öll þessi atriði vega ekki þungt á mínum skálum til móts við vægi þeirrar ábyrgðar sem á herðum okkar hvílir sem ábúenda á þessu landi og á þessari jörð.
Indíánahöfðingi, gamall og vitur, sagði fyrir margt löngu síðan, þegar umræðan snerist um eignarhald á landinu, að það að rífast um hver ætti landið væri álíka viturlegt eins og ef tvær flær væru að rífast um hvor þeirra ætti hundinn.

Við eigum ekki þetta land, ekki heldur þessa jörð eða nokkuð sem henni fylgir, andrúmsloft, höf, vötn, lönd eða annað. Okkur er einungis treyst fyrir þessu í stutta stund. Mjög stutta stund, hverju okkar. Og við erum að bregðast því trausti.

Afkoma örfárra verkamanna, lítils bæjarfélags eða þjóðar norður í ballarhafi á ekki að blinda okkur svo að við skilum plánetunni sem við búum á í slíku ófremdarástandi til niðja okkar að okkur verði aldrei fyrirgefið.

Til þess höfum við ekkert umboð og ekkert leyfi. Því eru komandi kosningar um stækkun eða ekki stækkun álversins í Straumsvík markleysa og óþarfar með öllu. Okkar umhverfisvitund og siðferðisþrek á að bjóða okkur að hafna þessari stóriðjutísku í eitt skipti fyrir öll án þess að til þurfi að koma pólitískir flokkadrættir, vinslit, og hatrammar deilur.

Verum samt ekki vanþakklát, virðum tíðarandann eins og hann var fyrir þremur áratugum síðan og viðurkennum þátt Ísal/Alcan í þróun og uppbyggingu bæjarins, hvort heldur sá þáttur er stór eða lítill. En nú er öldin önnur og Ísland tilheyrir ekki "þriðja" heiminum lengur.

Þökkum fyrir okkur og segjum þetta gott. Ef aðrar þjóðir kjósa að reisa álver í sínum bakgarði getum við alltént sagt; "maður breytir engum nema manninum í speglinum"...

11 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

Frábær pistill!

3/02/2007 8:22 AM  
Anonymous Anonymous said...

Nei, öll þessi atriði vega ekki þungt á mínum skálum til móts við vægi þeirrar ábyrgðar sem á herðum okkar hvílir sem ábúenda á þessu landi og á þessari jörð.


Ég skil vel að þú viljir ekki álverið og þá mengun sem því fylgir í eigin bakgarð.

Ef þú ert hinsvegar að röfla eitthvað um ábyrgð okkar á þessari jörð allri þá er einmitt betra fyrir heimsbyggðina að hafa álver á Íslandi þar sem rafmagnið er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum heldur en annarstaðar þar sem rafmagnið fengist með því að brenna kol.

Alcan hættir nefnilega ekki að framleiða ál þó svo að Hafnarfjörður skelli í lás.

3/08/2007 1:37 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Einmitt !!

Og þú, eins og svo margir aðrir, lítur á það sem sárabót að "við" séum þá að stuðla að minni mengun.

Ábyrgðin er engu að síður til staðar og hvort Alcan eða einhverjir aðrir álrisar menga annarstaðar ef þeir fá ekki að gera það hjá okkur eru aum rök.

Við eigum ekki að vera þátttakendur í mengunarsukkinu, hvorki hér né annarstaðar. Og við eigum ekki að láta bjóða okkur þau rök að ef við ekki líðum risanum að kúga okkur, fer hann bara eithvað annað og kúgar einhverja aðra.

Alþjóðlegir samningar um losun gróðurhúsalofttegunda voru ekki gerðir til að mengunarlitlar þjóðir hefðu frítt spil til að menga meira, það er gróf rangtúlkun. Við eigum þvert á móti að ganga fram fyrir skjöldu og leggja okkar lóð á vogarskál framtíðar jarðarinnar í heild sinni. Þá verðum við menn að meiri, en ekki á því að skríða eins og pöddur undir skítugum skósólanum á fjölþjóðaauðhringum á borð við Alcan.

3/08/2007 1:49 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég var bara að reyna að setja þetta í glóbal samhengi.

Það er ekki hægt að baka eggjaköku án þess að brjóta egg.

Heimsþörfin fyrir ál hefur verið að aukast á liðnum árum og heldur áfram að vaxa.
Hvað á heimsbyggðin að gera til að mæta þessari þörf? Bara að hætta að nota ál eða aðrar iðnaðarvörur?

Mér er nokkuð sama hvort það séu Kínverjar eða Ameríkanar sem dæla eiturefnum út í andrúmsloftið - það bitnar á mér sem Íslendingi hvort sem er.
Álver munu rísa hvort sem okkur líkar betur eða verr. Afhverju ekki að skella þeim niður þar sem áhrif þeirra á heimsbyggðina sem heild valda minnstum skaða?

Þetta er ekki ósvipað dæmi og þegar setja skal upp GSM mastur. Enginn vill fá slíkt mastur upp nálægt sínu heimili, vinnustað eða skóla. Hvað væru hinsvegar margir reiðubúnir að draga úr notkun farsímans??

Umhverfisvernd er bara í nösunum á Íslendingum. Hér fara menn allra sinna ferða á bíl hvort sem það er útí sjoppu eða til að skutla börnunum í skólann. Helst þarf bíllinn líka að vera á sem stærstum dekkjum (svo það sé hægt að blása út mengandi bensínfýlu uppá jökli líka??).
Fyrir utan marga leikskóla er búið að koma fyrir skiltum þar sem menn eru beðnir um að skilja bílana sína ekki eftir í gangi meðan þeir sækja börnin. WTF???!!!!

Umfhverfisvitund Íslendinga er næstum núll. Það er bara þegar um stór áþreifanleg verkefni eins og álver eða stíflur er að ræða að menn fyllast tilfinningahita um þessi málefni. Að öðrum kosti haga flestir sér eins og þeim sé alveg nákvæmlega sama.

3/09/2007 10:58 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Can´t argue with that !!

ég vildi reyndar, á sínum tíma, að menn hefðu holað ÍSAL niður einhverstaðar annarstaðar en í túnfætinum mínum.

ég er ekki á móti álverum eða iðnaði yfirleitt og geri mér grein fyrir kostnaðinum samfara framförum. Mér þykir bara heldur miklu fórnað fyrir hagsmuni afar fárra, í þessu stækkunarbrjálæði Alcan.

3/09/2007 1:59 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sammála Hildigunni - góður pistill.

3/09/2007 5:56 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hjörtur minn, aðeins út fyrir efnið, eins og minn er vandi: er það af ráðnum hug sem þú skrifar "álframleiðindum" í fyrstu línu?

Allavega er það í karakter..;o)

3/09/2007 7:40 PM  
Blogger Eggert said...

"...en verða menn ekki að aðlagast breyttum tímum og finna sér lífsviðurværi sem ekki útheimtir þrælslund á við þessa."

Sæll Hjörtur.

fyrri partur þessarar tilvitnunar er mjög góður, og ég verð eiginlega að vísa henni til föðurhúsanna. Ég meina, gæti ekki verið að umhverfissinnar þurfi bara að komast í takt við bretta tíma? Og það að við séum einhvers konar þrælar "fjölþjóðaauðhringa" er náttúrulega bara rugl. Ég veit ekki betur en Alcan greiði skatta, raforkuverð, laun o.s.frv. eftir gerðum samningum. Því eru aungvir þrælar í þessu sambandi.

annars vildi ég nú bara segja: "Wake up and smell the coffee"

góðar kveðjur

3/09/2007 7:43 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Já skatta segir þú, við skulum leggjast yfir tölur og upphæðir á næstu dögum og sjá, koma mun í ljós að tekjur Hafnarfjarðarbæjar hafa í gegnum tíðina verið talsvert minni en þær hefðu verið ef álrisinn hefði þurft að starfa í eðlilegu skattaumhverfi eins og önnur "Hafnfirsk" fyrirtæki. Og gleymum ekki verði hverrar kílóvattstundar af rafmagni. Selt á spottprís til auðhringanna á meðan sveppabændur á Flúðum borga morðfé fyrir rafmagn í gróðurhúsin sín.

Og "álframleiðindum" !!! You got me there !!!

3/09/2007 9:03 PM  
Anonymous Anonymous said...

Það er nú bara mjög oft þannig, um heim allann að stórfyrirtækjum eru boðin sérstök skattafríðindi fyrir að setjast að á viðkomandi stöðum. T.d. buðu yfirvöld í Saxlandi í Þýskalandi BMW bílaframleiðandanum gull og græna skóga ef hann setti niður verksmiðju þar.

Hugmyndin er sú, að þrátt fyrir að gefa fyrirtækjunum skattaafslátt skili það sér inní hagkerfið á annan hátt.

Hvað varðar raforkuverðið. Auðvitað fá stóru rafmagnskaupendurnir betra verð heldur en þeir smærri.
Hefurðu aldrei fengið magnafslátt??

3/10/2007 8:39 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

"Skattaafslátt" ! já öllu má nafn gefa.
Ég get ekki tekið undir þá samlíkingu sem gerð er með skattaívilnunum Evrópuþjóða, sem hannaðar eru til að laða að stórfyrirtæki með þúsundir starfsmanna, og þeirri heimóttalegu kotmennsku sem þáverandi ráðamenn íslensku þjóðarinnar gerðu sig seka um þegar þeir þorðu ekki að vera fastir fyrir í samningum við Svisslendingana sem ásældust ódýrt rafmagn og rekstrarumhverfi þriðja heimsins, þó á Íslandi væri.
Já og vel á minnst; eru allir búnir að gleyma panikkinu og harmakveininu í kellingunum niðr'á þingi þegar norski ál-risinn hætti við allt saman ? Hvar var þá reisnin og þjóðarstoltið ?

Nei - vændi er allstaðar hið sama, óháð því hver stundar það. Óháð því hver er að kaupa og hver er að selja. Og óháð því hvað er verið að selja. Það er líka hægt að hórast með heilu þjóðirnar ef græðgin býður manni svo.

Og ekki vega þungt rökin um "magnafslátt" frammi fyrir þeirri óvéfengjanlegu staðreynd að rafmagnið, sem auðlind, tilheyrir íslensku þjóðinni, landsmönnum öllum þ.m.t. garðyrkjubændum á Flúðum. Ekki skrímslinu Landsvirkjun til að fara með eins og því sýnist.
Þess vegna eiga ylhúsaræktendur ekki að borga morðfé fyrir rafmagn til að geta framleitt mat fyrir þjóðina á meðan Ál-Grímur fær það á spottprís.

Reyndar er ég þeirrar skoðunar (og kann hún að þykja komúnísk í meira lagi) að þegar stofnkostnaður við virkjun rafmagns og jarðvarma er kominn allur aftur í hús eigi gjald einstaklinga fyrir notkun á auðlind sem þeir eiga sjálfir að miðast við viðhald og rekstur veitunnar, ekki milljarðagróða stofnanna og fyrirtækja sem sýsla með þessar eignir.

3/12/2007 8:37 PM  

Post a Comment

<< Home