Tuesday, February 06, 2007

Apótekið







Ein af mínum fyrstu minningum úr æsku var þegar ég og afi fórum í bæinn. Ekki man ég erindið, árstímann eða önnur smáatriði en ég man götuhorn og á því horni stóð skrítinn karl og kallaði nefmæltur nöfn allra fréttablaða sem þá voru gefin út. Fékk seinna að vita að þessi náungi hét Óli blaðasali og hornið sem hann stóð á og galaði blaðaheitin var hornið á Austurstræti og Pósthússtræti. Og tröppurnar hans voru tröppurnar að Apótekinu. Mér hefur alltaf þótt svolítið vænt um þennan tiltekna stað í borginni.
Lengi eftir að þarna var opnaður veitingastaður var ég hálfragur við að kíkja á hann en auðvitað gerði ég það að lokum. Enda varð Apótekið fljótt umtalað og ekki dugar að hafa enga skoðun á því sem um er rætt. Ég var líka spenntur að sjá hvernig til hafði tekist með innréttingar og samspil þess gamla og nýja.
Salurinn hefur verið opnaður endilangt og færður nær upprunanum. Sjálfsagt ekki margir á lífi sem muna svo langt aftur en reynt hefur verið að hafa allan frágang sem líkastan því sem upphaflega var. Afgreiðsluborðið fremst í rýminu, þar sem áður voru afgreidd lyf, er nú bar og biðsalur viðskiptavina lyfsalans er setustofa. Þar sem í fyrndinni var opið út í garð, aftantil í stóra salnum, er nú eldhús. Glerveggur skilur á milli og því eru kokkarnir vel sýnilegir á meðan þeir elda. Sjálfur matsalurinn er dálítið á lengdina, borð fyrir fjóra eða fleiri við gluggaröðina og raðir af tveggjamanna borðum inneftir miðjunni. Innst er svo herbergi það sem minni hópar geta fengið að vera prívat. Allt er málað mildum, björtum litum og ljósakrónurnar loka heildarmyndinni afar smekklega. Staðurinn er fallegur og aðlaðandi, hlýlegur þó hann sé svona stór og opinn. Og virðingin fyrir fortíðinni er augljós þó nútíminn sé í aðalhlutverki.
Tilgangur heimsóknar á veitingahús er hjá mér, eins og sennilega hjá flestum, að fá eitthvað að borða. Eitthvað gott að borða og að láta stjana svolítið við mig á meðan snætt er. Hvort tveggja þarf að vera í sómasamlegu lagi til að heimsóknin heppnist vel og viðskiptavinurinn fari ánægður heim. Og komi þá vonandi aftur. Þegar ég bað stúlku sem þarna gekk um beina, um þurrku, til viðbótar þeirri einu sem okkur tveimur hafði verið ætluð, var svarið: “sorry, I don´t speak Icelandic”. Er það ásættanlegt á einu af dýrari veitingahúsum borgarinnar? En þjónn hússins leysti öll mál sem upp komu af fagmennsku og kurteisi. Hann er áhugamaður um vín og er fróður um þau sem í boði eru. Hann er veitingastaðnum til sóma. Aðrir sem þarna voru að þvælast um salinn eru það ekki. Fyrri heimsókn mín á Apótekið var með stórum hópi fólks og um helgi. Mikill handagangur var í öskjunni og ekki sanngjarnt að meta viðurgjörning í smáatriðum útfrá þeirri reynslu. Því ákvað ég að koma aftur og þá með minni látum. Maturinn í þessum tveimur heimsóknum kom mér í opna skjöldu. Enginn í tólf manna hópnum var alveg ánægður og þá smakkaði ég túnfisksteik sem var bragðlaus og þurr. Wasabypiparsósa náði ekki flugi og niðurstaðan var vonbrigði. Er þetta þó einn af réttunum sem yfirkokkurinn mælir sérstaklega með. Í seinni heimsókninni pöntuðum við jólamatseðilinn og stendur uppúr hvað allt sem borið var á borð var einstaklega óspennandi. Lítið virðist spáð í bragð og útlit og botninum var náð með grænu hummusi sem var svo illa útlítandi að við báðum þjóninn að fjarlægja það svo matarlystin færi ekki sömu leið. Af fjórum forréttum stóð enginn uppúr, sama flatneskjan og bragðleysið af öllu, en graskerssúpan var kannski sínu verst. Af aðalréttunum var svínasíðan langsíst og aðrir réttir ekki nema aðeins skárri. Þoskhnakki með reykýsusósu var slepjulegur og grillaði aspasinn sem fylgdi honum var trénaður. Maturinn var ekki bara óspennandi á að líta, hann var beinlínis vondur. Það eru mestu vonbrigðin við heimsóknirnar á Apótekið. Við smökkuðum ýmis vín með þessum jólamatseðli og sú upplifun, og fróðleikurinn sem fylgdi, var besti hluti kvöldsins.
Apótekið fær tvær stjörnur, eina fyrir fallegt og hlýlegt umhverfi sem tekur vel á móti manni og eina fyrir þjóninn góða sem gerði allt sem hann gat til að bjarga kvöldinu.




Heimasíða Apóteksins er:www.veitingar.is - ljósmynd fengin þaðan

0 Comments:

Post a Comment

<< Home