Thursday, February 01, 2007

Lögbann á tengibraut

Bryndís Schram og fleiri góðir Álafosskvosingar mótmæltu yfirgangi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og tókst að stöðva umhverfis-og skipulagsslys. Aðdáunarvert þykir mér þegar fólk tekur sig saman og gerir eitthvað í málunum í stað þess að röfla bara hvort við annað. Athygli vakti hroki og virðingarleysi bæjarstýrunnar en hún lét hafa eftir sér að hún hefði lengi vitað af "mótbárum" Varmársamtakanna. Hún lætur í veðri vaka að reynt hafi verið að taka mið af tillögum samtakanna og að framkvæmdin hafi, "fra A til Ö" verið í "lögformlegu ferli". Bæjarstjórnin hafi "bara unnið sína vinnu" !!!

Hvaða firring er í gangi? Er þessari bæjarstýru ekki kunnugt um að hún sækir umboð sitt til bæjarbúa, þar þar með talið fólksins í Varmársamtökunum? Hennar er ekki að deila og drottna heldur taka fullt tillit til þess sem hennar yfirmenn, bæjarbúar sjálfir, segja. Að öðrum kosti verður henni skipt út að lýðræðislegum hætti fyrir einhvern sem betur er í tengslum við sitt fólk.

Og vel á minnst; hvaða dæmalausu rökþrot eru það að ætla að gera lítið úr mótmælunum með því að persónugera notkun fánans sem flaggað var í hálfa stöng? Bæjarstýran segir það ósmekklegt og óvirðingu við fánann, og minningu tveggja ára stúlku sem jarðsungin var á sama tíma og mótmælin fóru fram, að nota fánann á þennan hátt. Það "sýni í hvaða tengslum samtökin eru við bæinn og bæjarbúa, sem greinilega eru ekki mikil"!

Og þetta úr munni manneskju sem fótum treður skoðanir fólks og hleypir stórvirkum vinnuvélum í þeirra nánasta umhverfi til að leggja þar 10.000 bíla tengibraut. Og hefur hunsað algerlega öll rök í málinu og ítrekuð mótmæli þeirra sem framkvæmdin bitnar hvað harðast á.

Má ég þá heldur biðja um bæjarstjórann minn, sem ALLTAF hlustar á raddir sinna bæjarbúa...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home