Saturday, March 22, 2008

Skreppur !

Skrapp norður í land, smá bíltúr í góða veðrinu, með stefnu á Blönduós. Mætti ekki einum einasta lögreglubíl á þjóðvegi 1 og sá engan á rúntinum í bænum þegar norður var komið. Stoppaði allt of stutt en náði þó að kíkja í Byggjó (sem er skylda því þar er alltaf eitthvað að finna sem mann vantar "nauðsynlega" að bæta í safnið) og í kaupfélagið, sem heitir reyndar Samkaup núna. Nýlegar breytingar þar innan dyra eru eflaust til bóta, nýir kælar og flottar hillur, en einhver notalegur sjarmi sem var yfir fata-og dótadeildinni gömlu hefur horfið við þessar endurbætur. En lífið heldur áfram.

Mættum einum löggubíl á leiðinni heim og sá stóðst ekki freystinguna að "skjóta" radarbylgju á okkur tvo sem þarna vorum samferða suður. Sluppum báðir því "auðvitað" vorum við á löglegum hraða.
(Sá greinilega á radarvaranum mínum góða, sem var keyptur í Byggjó í þar-síðustu heimsókn, nákvæmlega hvenær yfirvaldið kveikti á tækinu sínu og hvenær hann skaut svo á okkur... ha ha ha ... better luck next time, Copper".)

En ökumenn á þjóðvegi eitt, ég má til með að spyrja ykkur; er um að kenna einhverri "víkinga-arfleifð" þegar þið getið með engu móti hleypt öðrum ökumönnum framúr ykkur? Verðið þið að vera fremstir og númer eitt til að finnast þið vera aðal?

Þegar einhver er að reyna að fara framúr ykkur og þið báðir sjáið á sömu stundu að bíll nálgast úr hinni áttinni er hreint ekki göfugmannlegt að hægja ferðina og stilla sér þannig af að sá sem ætlaði framúr, en hætti við þegar hann sá umferð á móti, komist heldur ekki aftur inná akreinina fyrir aftan ykkur. Ekki nóg með að framkoma eins og sú sem hér er lýst sé rakinn dónaskapur og frekja heldur er svona hegðun ekkert minna en morðtilraun !!!

En sjálfsagt er borin von að ætla að kenna rúmlega þúsaldar gömlum hundi að sitja.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home