Friday, December 28, 2007

Gleðilega hátíð - í "alvöru" !

Ég fór að kaupa jólatré nokkrum dögum fyrir jól og þar sem ég stóð inná gólfi hjá hjálparsveitinni áttaði ég mig á því að tvöþúsundkallinn sem ég var að fara að borga meira fyrir tréð hjá þeim myndi hugsanlega bjarga mannslífi.

Ég fann að ég hafði breytt rétt, að hlaupa ekki á eftir tilboðum hingað og þangað um bæinn heldur að versla ögn dýrara tré hjá aðilum sem munu ekki telja eftir sér að yfirgefa fjölskyldur sínar og halda út í óvissuna í brjáluðu veðri þegar og ef ég þarf á því að halda.

Blómaval er ágætt fyrirtæki en ég á ekki von á því að tyggjójaplandi, letilegi unglingurinn, sem afgreiddi mig síðast þegar ég átti erindi þangað, rjúki út á sloppnum næst þegar ég lendi í lífsháska.


Um leið og ég þakka öllum sem kíkt hafa á þessa síðu undanfarið ár vil ég biðja ykkur að hafa í huga og minnast þeirra sem ávallt eru boðnir og búnir að koma öðrum til hjálpar, oft leggjandi sjálfa sig í mikla hættu, og kaupa ALLS EKKI UNDIR NEINUM KRINGUMSTÆÐUM flugelda af öðrum en viðurkenndum björgunarsveitum.

Ekki búast við því að "sprengjumeistarinn" Örn Árnason taki sér frí frá Spaugstofunni og æði á fjöll til að bjarga fólki.

Og stýrið, í Guðs almáttugs bænum, hjá fólki sem villir á sér heimildir og reynir að blekkja almenning til að versla hjá sér, kallandi sína flugelda "alvöru-flugelda", eins og aðrir séu þá "plat". Allt of margir "áttavilltir" menn eru að rýra tekjumöguleika hjálparsveitanna með dollaramerki í augunum og biblíuna í hendi.

Eina "alvöru-platið" í flugeldaheiminum er þegar bókstafsblindaðir sértrúarsöfnuðir misnota lítiðsiglda og jafnvel fárveika einstaklinga sem skálkaskjól fyrir eigið brask.

Slíkra er ekki Guðsríki.


Ég óska ykkur öllum friðar og velgengni á komandi ári.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home