Thursday, November 08, 2007

Allt í einu ?

Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að fram komi að veitingastaðirnir sem skrifað er um hér nýlegast á síðunni voru ekki allir heimsóttir í vikunni sem leið !!!

Veitingarýni undirritaðs er birt í tímaritinu Ísafold. Venjan er að birta greinarnar hér á síðunni þegar næsta tölublað fer í sölu með nýrri grein en þar sem blogsíðan hefur verið í góðri pásu frá því snemma í sumar hafa greinarnar safnast fyrir.

Birting greinanna hér var hugsuð til að auka mönnum leti, að þær væru aðgengilegar allar á einum stað. Sama hugsun liggur að baki greinasafninu sem linkað er á hér til hliðar.

Kv.
HH..

7 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Mig langar að varpa fram örfáum spurningum:

Hver er hvatning þín til að gagnrýna veitingahús?
Hefur þú einhverja mentun á annaðhvort sem framreiðslu eða matreiðslumaður?
Hvað er það sem veitngarýnar (eins og þið kallið ykkur) notið sem viðmið?
Er það frammistaða starfsfólks og umhverfi á þeim stöðum sem þið heiðrið með komu ykkar?
Eða spilar kanski ykkar geðþótti þar einhverja rullu?
Er eðlilegt að "veitingarýnar " geti heiðrað veitingastaði í aðeins eitt skipti og eftir það velt úr sínum yfirfulluviskubrunnum í blöð og tímarit algerlega einhliða.
Er ekkert einkennilegt þegar menn fara af stað í þessum erindagjörðum með neikvæðnina undirliggjandi og að manni sýnist reyna að leita uppi allar neikvæðar hliðar á málsverðinum og kringumstæðum.
Ég bíð spenntur eftir svari, og ég ætla rétt að vona að þú sért vel menntaður í geiranum svo eitthvað mark sé á þér takandi. Það væri nú ekki mikil not heyrnadaufum tónlistarrýnir eða hvað.

11/10/2007 10:04 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Ég legg ekki í vana minn að svara þeim sem ekki koma fram undir nafni. En ég geri á því undantekningu nú.

Í réttri röð:
1)Það sem hvetur mig til að gagnrýna veitingahús er sú reynsla sem ég verð fyrir á þeim, semsagt ég fer út að borða, upplifi staðinn og mynda mér skoðun á honum.
2)Eins og ég hef margoft sagt og komið hefur fram, bæði í skrifum mínum og viðtölum við mig í útvarpi og sjónvarpi þá hef ég ekki lokið prófi í matreiðslu eða framreiðslu. Skrif mín eru ekki fagleg úttekt á þessum tveimur þáttum heimsóknarinnar, slík skrif er að finna í t.d. Gestgjafanum. Þessi staðreynd er ljós flestum þeim sem hafa lesið greinar mínar síðustu tvö árin.
3)Ég get ekki sagt til um hvað "veitingarýnar", aðrir en ég, nota sem viðmið en sjálfur nota ég uppsafnaða reynslu mína af heimsóknum á veitingastaði í fjórum heimsálfum á 38 árum.(Svo held ég að "við" köllum okkur ekki veitingarýna heldur sé það heiti sem "okkur " hafi verið gefið í fjölmiðlum og af almenningi.)
4)Hvort einhverjum er heiður af heimsóknum mínum læt ég aðra um að meta en að sjálfsögðu hefur frammistaða starfsfólks veitingastaðarins og umhverfi hans áhrif á upplifunina. Er þér kannski slétt sama þótt skítugur og ókurteis ruddi afgreiði þig með mat í niðurníddum sal sem ekki hefur verið þrifinn í marga mánuði? Og krefji þig svo um greiðslu fyrir.
6)Geðþótti? Ég hef aldrei, ekki í eitt einasta sinn, skrifað í greinar mínar um annað en það sem átti sér stað í heimsókn minni á viðkomandi veitingastað. Hvort geðþótti hefur áhrif á skrif annara rýna veit ég ekki.
7)Enn læt ég aðra meta um heiðurinn en ég reyni að koma ekki sjaldnar en tvisvar á staði sem ég skrifa um, nema þeir séu svo hörmulega lélegir í fyrstu heimsókninni að frekari peningagjafir til þeirra séu ekki réttlætanlegar. Marga eldri staðina hef ég heimsótt margoft, í sumum tilfellum árum saman, áður en ég skrifaði um þá. Leikhúsgagnrýnendur fara ekki aftur og aftur á sýninguna sem þeir ætla að skrifa um, flestir skrifa um frumsýninguna, enda eru þeir að skrifa "einhliða" útfrá sinni upplifun af einu tilteknu kvöldi, með uppsafnaða reynslu sem grunn. Viskubrunnur minn er dýpri en svo að úr honum veltist þó ég hripi niður nokkrar línur til minningar um heimsókn á veitingastað. Þau skrif mín eru auðvitað "einhliða" að svo miklu leiti að ekki skrifa ég útfrá reynslu annara, slíkt væri lítið marktækt. Svona eins og að láta lýsa fyrir sér málverki og ætla svo að skrifa dóm um það, eða láta segja sér frá nýjustu plötu Mugisons og vaða svo útá ritvöllinn með plötugagnrýni í kjölfarið! Hinsvegar er konan mín alltaf með í för og hennar upplifun hefur auðvitað áhrif á mína skoðun. Maður sem fer einn "út að borða" er að líkindum kominn þangað í öðrum tilgangi en par.
8)Mér þykir alltaf einkennilegt þegar menn fara af stað með neikvæðnina undirliggjandi, sama í hvaða erindagjörðum menn kunna að vera. Slæmir veitingastaðir eru alveg einfærir um að klúðra málsverðum og kringumstæðum og þurfa ekki "neikvæðan" rýni til að hjálpa sér með það.
9)Enn verð ég að lýsa undrun minni á þeirri skoðun að enginn geti gagnrýnt svo mark sé á takandi nema vera "vel menntaður" í viðkomandi geira. Ég hef áður bent á, einmitt þegar tónlistargagnrýnissamlíkingin var notuð, að tveir vinsælustu djassgagnrýnendur og pistlahöfundar seinni ára, Vernharður Linnet og Jónatan Garðarson, eru ekki svo ég viti "vel menntaðir" í tónlist. Enda myndu fáir endast til að lesa skrif þeirra ef þau væru fagleg og fræðileg úttekt á jafn huglægri upplifun og djasstónlist er. Dr.Gunni og Erpur Eyvindarson eru ekki heldur "vel menntaðir" í tónlist en skrif þeirra beggja njóta mikilla vinsælda og þykja ennfremur nokkuð marktæk. Uplifun af heimsókn á veitingahús, það sem erlendis er stundum kallað"the dining experience", hlýtur að skilja eftir reynslu og skoðun hjá hverjum þeim sem fer úr að borða. burtséð frá því hvort sá hinn sami er "vel menntaður" í "geiranum" eða ekki. Það hvort menn geta síðan mótað hugsanir sínar á blað og komið stemmningunni til skila í grein gerir kannski út um hvort menn teljast "marktækir" rýnar - miklu fremur en hvort menn eru "vel menntaðir" eða ekki.

Ég vona sannarlega að almenningur lesi greinar mínar ekki með þeim gleraugum fordóma að ekki sé neitt mark takandi á öðrum en þeim sem flagga prófskírteinum í hinu eða þessu.

11/11/2007 2:52 PM  
Anonymous Anonymous said...

Það er svosem ekki mikil ástæða til að fara að rökræða þetta eitthvað.
Erpur og Dr.Gunni hafa sýnt að þeir er mjög frambærilegir tónlistarmenn. En þú hefur ekki einusinni sýnt að þú getir soðið kartöflur, svo neinn viti til.
Því miður er það mína reynsla að bæði þú og fleiri þínir líkir (veitingarýnar) hafið marg oft sýnt að það er mjög lítið mark á ykkur takandi, þegar menn eru farnir að skálda upp í eyður og gefa sér að hlutirnir séu unnir svona eða hinsegin, eða hvort starfsfólk sé menntað eða ekki menntað.
Að gera lokunartíma staða að aðalefni greinar sem menn vilja láta taka alvarlega, er einfaldlega skammarlegt fyrir höfundinn.
Því miður eru þín skrif svo tilviljunarkend, að það er auðsjáanlegt að þar að baki er ekkert nema innistæðulaus tjékki.

kveðja Jói

11/12/2007 8:49 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Heyrðu þú þarna - Jói

"Það er svosem ekki mikil ástæða til að fara að rökræða þetta eitthvað."

Hvernig vogar þú þér að slengja því framan í fólk að ekki sé ástæða til að rökræða eitthvað sem þú sjálfur hefur farið fram á, með ansi ruddalegum og sleggjudæmandi hætti, að verði svarað?

Þínir fordómar og þröngsýni duldust engum þegar þú skrifar í kröfugerð þinni:"..ég ætla rétt að vona að þú sért vel menntaður í geiranum svo eitthvað mark sé á þér takandi..."

Þrátt fyrir það tók ég mér tíma til að svara þér eins skilmerkilega og mér var unnt. En þá drullar þú uppá bak og, eins og reyndar er algengt með menn sem verða rökþrota og geta ekki viðurkennt það, og svarar með þessari lágkúru sem birtist hér að ofan.

Hvað heldur þú eiginlega að þú sért?

Ert þú með próf í tónlist sem gerir þig færan um að dæma hvort Erpur og Dr. Gunni séu frambærilegir tónlistarmenn. Þú segir að þeir hafi "sýnt" það.
Ég, með mína háskólagráðu í tónlist og próf frá þremur virtum skólum í tveimur heimsálfum fyrir utan 30 ára starfsreynslu og hafandi leikið í fjölda hljómsveita og komið fram með fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar, verið fulltrúi Íslands á erlendri grund og í hópí tónlistarmanna sem fyrstir allra fengu að fara í tónleikaferðalag um Sovétríkin heitnu, samið og leikið tónlist í fjölda heimildarmynda, leikinna mynda og grínþátta fyrir utan allra þeirra hljómplatna sem ég hef komið að sem tónlistarmaður, upptakari eða upptökustjóri og verandi nú, um þessar mundir, hljómsveitarstjóri í vinsælustu sýningu ársins í Borgarleikhúsinu......

ÉG HEF, ÞRÁTT FYRIR ALLA ÞESSA REYNSLU OG MENNTUN, ALDREI Á ÆVINNI "SÉÐ" TÓNLIST!!!

Þú segir að ég hafi "ekki einu sinni sýnt að ég geti soðið kartöflur svo neinn viti"!!!
Ég hef margoft "sýnt" að ég get soðið kartöflur, þó þú hafir e.t.v. verið með hausinn upp í rassgatinu á þér akkúrat rétt á meðan og þessvegna misst af því.
Og hvaða helvítis rugl er þetta í þér að "þín reynsla" sé að ég og fleiri mínir líkir séu að "skálda upp í eyður" í skrifum okkar? Hvers ert þú að vísa til og hvaða "reynsla" er það sem þú býrð yfir og miklast svo mjög af. Er ekki grunninntak allra þinna hugsana að "reynsla " sé lítilsverð og geri menn lítt marktæka á meðan "Menntun" skipi þeim hærra öllum öðrum?
Þú kemur endanlega upp um þig með næstu setningu á eftir þegar þú vogar þér að ásaka mig um handvömm í heimildaöflun og skáldskap í skrifum. Þú skalt standa við þessi stóru orð og benda á í hvaða grein ég geri opnunartíma að aðalefni með þeim hætti að skammarlegt sé fyrir mig. Ef þú ert að vísa til ókurteisinnar sem ég varð fyrir á Rauðará skaltu lesa þá grein yfir aftur og sjá að opnunartíminn var aðeins eitt af fjölmörgum atriðum sem gjaldfelldu þann stað. Ef þú átt hinsvegar, með þessum lágkúrulegu ásökunum þínum, við einhvern annan greinahöfund en mig skaltu hrauna yfir viðkomandi á heimasíðu hans en ekki hér á minni.
Þú afhjúpar heimsku þína svo algjörlega í lok þessa ómerkilega svars þíns þegar þú berð á mig að skrif mín séu tilviljunarkennd og að baki þeim sé "auðsjáanlega ekkert nema innistæðulaus tjékki". Hvaða "menntun" gerir þig færan um að dæma hvort skrif mín séu tilviljunarkennd og ef þau reyndust vera það, hvað við það gefi til kynna að að baki þeim sé "augljóslega...ekkert annað en innistæðulaus tjékki" !!!

Hafur þú nokkurntíma lesið nokkurn skapaðan hlut sem ég hef skrifað?

Ert þú yfirhöfuð læs?

Þú ert allavega svo ómerkilegur pappír að ég dauðsé eftir að hafa brotið mína eigin reglu um svör til handa bjánum sem ekki koma fram undir nafni. Ég ákvað að svara þér í fyrra sinnið af því mér sýndist þarna vera á ferðinni tækifæri til að lýsa ljósi upplýsinga inn í myrkur fávisku, en þú hefur algerlega sannfært mig, með þessu síðara svari þínu, að það voru mistök af minni hálfu. Kjánum, eins og þér, er ekki viðbjargandi og má mig einu gilda hvort þú tekur nokkurtíma nokkurt mark á nokkrum hlut sem "ég og fleiri mínir líkir" skrifa um veitingastaði, mat, þjónustu eða opnunartíma.

Þú mátt mína vegna éta það sem úti frýs, fá það borið í þig illa tilhaft af ókurteisum, ómenntuðum og skítugum þjóni inná ósnyrtilegum veitingastað sem rukkar þig um þrefalt meira gjald en sanngjarnt er og lokar svo staðnum á andlitið á þér áður en máltíðinni lýkur.

Og svo getur þú skriðið aftur oní holuna sem þú átt heima í og hlustað á Dr. Gunna, Erp og slíka "frambærilega" tónlistarmenn þangað til heilagrauturinn í þér lekur út um eyrun á þér.

En láttu mig í friði hér eftir.

11/12/2007 3:09 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þakka flott og málefnaleg svör. Hvar væri Ísland án þín.

11/12/2007 10:28 PM  
Anonymous Anonymous said...

Djöfulsins lágkúra hjá mönnum að geta ekki komið fram undir nafni. En hvað um það.

Hvaða árátta er það í fólki að vera alltaf að halda því fram að menn þurfi að vera langskólagengnir í fagi til að vita eitthvað um það? Þó ég kunni ekki á hljóðfæri og rétt haldi lagi veit ég alveg hvaða tónlist mér líkar og hver ekki, og er fullfær um að skrifa dóma og umsagnir þar um.

Þó að Hjörtur sé ekki kokkur veit hann alveg hvernig matur á ekki að smakkast, og hvers konar þjónusta er ólíðandi. Það kemur málinu líka ekkert við hvort Hjörtur kunni að sjóða kartöflur eða ekki (sem hann kann án vafa lystavel) enda er það ekki hans starf að framreiða kartöflur, heldur að borða þær.

Að lokum, þá kann ég líka afskaplega vel að meta það að pistlar Hjartar eru á mannamáli, og hann talar líka tæpitungulaust. Hann segir hlutina bara eins og þeir eru og tekur ekki á fólki með neinum silkihönskum. Ég tek mikið mark á þeim og mér væri í rauninni sama þó það væri opinber staðreynd að hann kynni ekki einu sinni að sjóða egg, enda hefur það ekkert með hæfileika hans til smökkunar að gera.

Haltu áfram að gera góða hluti Hjörtur, hlakka til að lesa dóma framtíðarinnar.

11/15/2007 8:41 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Ég þakka hlý orð í minn garð.

Ég mun hér eftir sem hingað til skrifa um mína upplifun og segja ávallt satt og rétt frá.

Tæpitunga fer mér afar illa.

Kv.
HH..

11/15/2007 9:51 PM  

Post a Comment

<< Home