Saturday, November 03, 2007

Mun stærra mál....

Það alvarlegasta við atburði liðinna sólarhringa, og það sem ríkisborgarar þessa lands standa allt í einu frammi fyrir, er sú ógnvekjandi staðreynd að tveir menn, ráðherra með biksvarta afrekaskrá og fýr sem allt í einu var orðinn æðsti yfirmaður allra lögreglumála flestum að óvörum og í óþökk margra, skuli geta misbeitt valdi með þeim hætti sem þeir gerðu og enginn hreyfir mótmælum. Enginn rís upp og bendir á að þessir tveir menn ákváðu sín á milli að loka landinu fyrir tilteknu fólki af því einu að það tilheyrir félagi sem hefur á sér miður gott orð í heimalandinu. Og vegna þess að einstaklingar í nefndu félagi hafa gerst sekir um glæpi þá mætti "ætla" að þessir fyrrgreindu einstaklingar "myndu hugsanlega" fremja glæpi á Íslandi, væri þeim hleypt inn í landið. !!!!

Ísland er ekki lögregluríki, að minnsta kosti ekki talið vera það, en lögregluaðgerðum eins og þeim sem þjóðin hefur orðið vitni að undanfarið, svipar sannarlega um margt til þeirra sem kenndar eru við fasisma og þekktar eru í ríkjum þar sem lögregla og her hafa rænt völdum.

Ráðherrann vildi fjölga óhóflega í sinni vopnuðu sveit en andstæðingar hans á þingi komu í veg fyrir það. Menn gerðu góðlátlegt grín að fyrringu ráðherrans og áhuga hans á B-mynda seríunni "Die Hard" án þess kannski að kryfja til mergjar hvað lá raunverulega að baki. Nú hefur ráðherrann fellt grímuna og með dyggum stuðningi hins metnaðargjarna "ríkis"-lögreglustjóra, hefur hann fótum troðið í einum vetvangi þann mannréttinda og einstaklingsfrelsis grunn sem lýðveldið Ísland er byggt á.

Ekki svo að skilja að við þessu hafi ekki mátt búast úr þessum ranni eftir svívirðingarnar sem friðsamir mótmælendur mannréttindabrota, Falun Gong samtökin, máttu þola fyrir nokkrum misserum. En að loka landamærum ríkisins og lýsa yfir neyðarástandi vegna heimsóknar nokkurra vélhjólaeigenda hljóta að teljast með ólíkindum yfirdrifin viðbrögð.

Tuttugu manna sveit sérþjálfaðra lögreglumanna, vopnaðra, gerði árás á aðsetur véljólaklúbbs í höfuðborginni og tveir strákar voru handteknir. Þeim var sleppt skömmu síðar enda hafði hins vaska sveit varla erindi sem erfiði þó eitthvert "lítilræði fíkniefna" hafi fundist á staðnum og einhver "vopn". Skömmu síðar eru sjö tugir lögreglumanna mættir suður í Leifsstöð og ráðherrann búinn að tilkynna aðildarríkjum Schengen samkomulagsins um lokun landamæra Íslenska ríkisins. Eins og hendi væri veifað gátu tveir menn, annar kjörinn - hinn skipaður, hrifsað öll völd í landinu og enginn stóð í vegi fyrir þeim. Ef stjórnarskráin gefur einstaklingum í þeirra stöðu vald til aðgerða, slíkra sem þessara af litlu eða engu tilefni, þá á endurskoðun þess mæta plaggs að hafa algeran forgang á hinu háa Alþingi. Kafla VII, 65.gr. mætti þá e.t.v. staðfesta og gera hærra undir höfði en tvímenningarnir gera nú. Ef við höfum flotið sofandi að þeim feigðarósi að hægt sé að framkvæma valdarán í landinu í skjóli embætta og með móðursýkina eina til rökstuðnings verðum við að vakna af blundinum og koma böndum á ræningjana.

Eða viljum við að börnin okkar alist upp í ríki þar sem fólk er handtekið fyrir "hugsanlega" glæpi eða fyrir að tilheyra samtökum sem ekki hafa hlotið náð ráðherranns og ofurlögreglustjórans ???


Frekari fróðleikur úr ýmsum áttum:
Skorrdal
vigfuz
svanson
málefnin
"ríkis"löggan
"ríkis"löggan 2
"ríkis"löggan 3
Falun Gong
Falun Gong 2
Stjórnarskráin

0 Comments:

Post a Comment

<< Home