Monday, July 16, 2007

Stóru húsin

Ef gerður er samanburður á hve margir stunda tónlistarnám í einhverri mynd og hve margir æfa reglubundið íþróttir á Íslandi í dag er með ólíkindum að við skulum hafa þurft að bíða áratugum saman eftir tónlistarhúsi. Íþróttahallir af stærri gerðinni spretta upp eins og gorkúlur út um allt land og það er ekkert krummaskuð svo aumt að þar sé ekki að finna risamusteri ætlað íþróttaiðkendum, með plássi fyrir áhorfendur og fréttamenn og alles. Ekki það að ég hafi svo mikið á móti íþróttum, stundaði frjálsar á mínum yngri árum samhliða tónlistinni og sé ekkert eftir því, nei miklu frekar fagna ég því mikla fjárstreymi sem hinar ýmsu íþróttagreinar njóta í dag og þykir mikið til þessara stóru húsa koma. En ég vildi gjarnan sjá tónlistinni gert eins hátt undir höfði. Sjáið fyrir ykkur fréttina;
"Í dag var tekin í notkun glæný risaíþróttahöll á Hvammstanga og stendur hún gengt hinu stórglæsilega tónlistarhúsi sem reist var í fyrra og hefur verið fullbókað síðan. Vænta menn mikils af þessu nýja 8000 manna húsi og víst er að það mun styrkja allt íþróttastarf í plássinu" !!! Nei, sennilega kemur þessi frétt aldrei í fjölmiðlum, það verður allavega lítið talað um tónlistarhúsið þó ég eigi allt eins von á að íþróttahöllin rísi einhverntíma í útnáranum. Enda eru dæmin fjölmörg um einmitt slíkar hallir sem risið hafa í plássum sem telja ekki nógu marga íbúa til að fylla þær. En ef minnst er á tónlistarhús er eins og allir fari í keng og byrji að tala útfrá peningum en ekki stolti og metnaði.
Ég leggst ekki svo lágt að bera saman það sem Eiður Smári og Björk hafa gert fyrir Ísland og íslenskt orðspor út í hinum stóra heimi en ég er viss um að það er hægt að færa rök fyrir því að stórt og gott tónlistarhús sé jafngóð fjárfesting og stórt og gott íþróttahús þegar upp er staðið.

Prófiði t.d. að setja orðið "tónlist" allsstaðar þar sem orðið "íþróttir" kemur fyrir í ræðunni góðu sem alltaf glymur þegar réttlæta á byggingu enn eins gímaldsins í einhverjum smábænum. Sparar heilmikið að geta notað sama fyrirlesturinn !

0 Comments:

Post a Comment

<< Home