Tuesday, July 10, 2007

Zero Tolerance

Fátt ömurlegra en þegar menn lítilla sanda ryðja uppúr sér besservisserbulli um hluti sem þeir hafa lítið eða ekkert vit á og enga greind til að skilja.
Einhver Jón Kaldal, hlaupadrengur hjá Þorsteini Pálsyni, tjáir sig um Blöndóslögguna í leiðara Fréttablaðsins, aðferðir þeirra og árangur, og ber saman við zero tolerance stefnu Giuliani's fyrrum borgarstjóra New York. Heyr á endemi, hvílíkt og annað eins bull og málefnafátækt. Að ætla að fegra fasistaaðferðir sveitavargsins á Blöndósi með því að bera saman við örvæntingafulla tilraun borgarstjóra í margmilljónaborg til að stemma stigu við morðum og fíkniefnavanda og segja að þar sé saman að jafna sýnileika, ef ekki hreinlega áþreifanleika löggæslunnar og árangur Blöndóslöggunnar í hraðakstursmálum í héraðinu sé því að þakka að sýslumaðurinn þar sé með alla sína menn úti á vegunum við eftirlit. Ja hérna hr. Kaldal. Hefur þú aldrei komið uppfyrir Ártúnsbrekkuna á Fíatinum þínum ?
Bókstafstrúarofstopi Blöndóslöggunnar í umferðarmálum er ekki bara áhyggjuefni þeim sem "lent hafa í henni" heldur öllum mönnum sem virða grunnreglur lýðræðis-og réttarríkisins. Allir menn skulu jafnir fyrir lögum og teljast saklausir nema sekt verði sönnuð. Ennfremur eiga allir rétt á sanngjarnri og hlutlausri málsmeðferð. Allstaðar á Íslandi nema á Blönduósi nota bene. Þar gilda geðþóttaákvarðanir einstakra löggæslumanna og hending ræður hvort skapið er í lagi þann daginn eða ekki.
Fjölgun í liði lögregluþjóna og nálægð þeirra við borgarbúa á röltinu í höfuðborginni á ekkert sameiginlegt með ofstækismönnunum fyrir norðan annað en búninginn og starfsheitið. Zero tolerance aðferð Giuliani´s var ekki beint gegn einhverri einni tiltekinni tegund glæpa heldur glæpum yfirhöfuð. Á miklum villigötum ert þú hr. Kaldal ef þú heldur að vegafasisimi Blöndóslöggunnar hafi fækkað glæpum í héraðinu. Það eina sem þessi ofstopi hefur gert í gegnum tíðina er að þurrka burt þá litlu virðingu sem lögregla á svæðinu hafði fyrir og reyndar líka að opna glæpamönnum dyr að allskyns öðru athæfi, glæpsamlegu, sem betur hefði ekki verið. Óvíða er jafn mikið um fíkniefnavandamál, heimilisofbeldi, ofbeldi manna í millum, sifjaspell, mannorðsmorð, dýraníð og ýmsa smærri glæpi en einmitt í umdæmi hinnar dásömuðu Blöndóslöggu, enda eru þeir uppteknir við ökumannaveiðar. Jafnvel barnsrán hefur verið látið óátalið af þessum "embættismönnum". En enginn, nema fuglinn fljúgandi, skal komast í gegn hjá þeim nema á þeim hraða sem þeir ákveða. Já taktu eftir því hr. Kaldal, að hugtakið "umferðarhraði" sem þekkt er um allan hinn siðmenntaða heim, er umferðarfanatíkerunum á Blönduósi algerlega óþekkt.
Ég óska þér þess helst, Jón Kaldal, að þú þurfir einhverntíma á aðstoð lögreglunnar í Húnavatnssýslum að halda og munir upplifa sjálfur hve bagalegt það getur verið þegar þjónar almennings eru "busy" að sinna ofstæki sínu á vegum úti og ekki fáanlegir til að sinna "raunverulegum" glæpum og vandamálum. Og hættu svo endilega að bulla um hluti sem þú veist ekkert um.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þetta var hreint út sagt magnaður og kraftmikill pistill. Skemmtileg lesning. Meira svona. Kveðja, Svanur

7/16/2007 4:31 PM  

Post a Comment

<< Home