Einar Ben
Einar Ben við Ingólfstorg er einn af boðlegri veitingastöðum borgarinnar. Staðsettur í einu elsta verslunarhúsi Reykjavíkur og minnir innkoman dálítið á annan góðan veitingastað, hinumegin við Austurvöll, þó stigi Einars sé ekki eins brattur og stigahúsið ekki eins þröngt. Salarkynni eru líki ögn rýmri og skreytingar ekki eins yfirdrifnar. Þó er hlýlegt um að litast og myndir á veggjum minna á lífshlaup þess merka athafnamanns og stórskálds sem Einar var. Fátt á matseðli tengist honum þó beint og líklega er nafninu og myndunum ætlað að minna á hann fremur en sjálfum matnum. Á forréttmatseðlinum er þó að finna kjötsúpu og fiskisúpu “að hætti Einars Ben”.
Samsettur 5 rétta seðill gefur góða mynd af því sem í boði er og hann er hægt að fá án víns eða, sem er mun meira spennandi, með 5 mismunandi vínum sem yfirþjónn velur.
Fyrsti rétturinn á borðið var laxatartar með rauðrófusósu, fínlegur og góður réttur. Strax á eftir fylgdi salat með kirsuberjatómat og gráðosti og með þessu smökkuðum við Sauvignon Blanc, Vicar´s Choice frá Nýja Sjálandi, afar vel passandi svona í byrjun. Frábærri klausturbleikju með Jerúsalem-ætiþystlamauki fylgdi glas af Lucien Albrect Pinot Gris frá Alsace í Frakklandi einstaklega milt og aðlaðandi, það stefndi í frekar góða veislu. Humarsúpa með skelfisk-soufle var léttpískuð og mjög bragðgóð. Henni var rennt niður með glasi af Austurrísku Chardonney, Kollwentz Tatchler 2004, víni sem verður örugglega pantað aftur síðar. Nautalund með smjörsteiktu smælki og portabellosveppum skyldi vera aðalréttur kvöldsins og eftir þessa frábæru uppbyggingu var eftirvæntingin mikil. En vonbrigðin líka þeim mun meiri. Kjötið var að vísu bragðgott en eitthvað hefur tímavörðurinn verið utan við sig því “rare” var “well-done” og “medium” var grá í gegn og seig undir tönn. Þar sem talsverður magn matar var þegar komið í belginn var ekki farið fram á aðra steik en það hefði án vafa verið gert alla jafna. Steiking er það stór hluti matreiðslu nautakjöts að algerlega óafsakanlegt er að það skuli ekki koma nákvæmlega þannig steikt á borðið og beðið var um. Eftir frekar vel heppnaðan dinner fram að því var kjötið ekki sá demantur í kórónuna sem það hefði geta verið og hefði átt að vera. Með steikinni var smakkað rauðvín frá Chile, fjögurra berja blanda, Shirah í meirihluta, Coyam 2004 frá Colchagua dalnum. Það var ekki að okkar smekk en kannski höfðu vonbrigðin með nautið áhrif á það álit.
Eftirrétturinn var borðaður á efstu hæðinni, í seturými sem þar er, og skyr créme-brulee með pistasíuís var í sömu sveiflu og forréttirnir höfðu verið, afar góður réttur. Að lokum smökkuðum við eftirréttavín, Sanxet Millenium 1997 frá Mobazillac í Frakklandi og verður að segjast eins og er að vínin sem valin voru með réttum kvöldsins lyftu máltíðinni á hærra plan. Þegar þjónninn er svona vel að sér er óhætt að láta hann um valið. Í fjórum heimsóknum á nokkurra mánaða tímabili hefur Einar Ben skilað sínu. Maturinn hefur verið góður, jafnvel mjög góður á stundum, og þjónustan hefur undantekningarlaust verið smekkleg og fagmannleg. Umhverfið er afslappandi, helst að drunur tillitslausra mótórhjólamanna úti fyrir nái að trufla stemmninguna, þeir virðast nefnilega halda að stéttarnar við torgið hafi verið lagðar fyrir þá sérstaklega. Efsta hæðin er hlýleg, þó þar sé vítt til veggja, og vel myndi fara að bjóða þar uppá píanista í lok kvölds eða í.þ.m. ljúfa tónlist af geisladiskum. Þögnin getur nefnilega orðið ansi yfirgnæfandi þegar margir þegja í kór. Einar Ben kemur kannski ekki fyrstur allra upp í hugann þegar fara á út að borða í Reykjavík en þessi huggulegi staður stendur fyllilega fyrir sínu í mat, þjónustu, umhverfi og verði. Ég gef fjórar stjörnur og ætla að muna eftir staðnum næst þegar ég er að vandræðast niðrí bæ.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home