Great wall of China.
Kínamatur er vinsæll um heim allan og svo er einnig hér á landi. Asískir veitingastaðir í höfuðborginni eiga sér sumir áratuga langa sögu og hinar og þessar stefnur í matargerð hafa dottið í og úr tísku meðan Kínamaturinn hefur haldið sínu. Það þótti því sumum að verið væri að bera í bakkafullan lækinn þegar það spurðist að til stæði að opna kínverskan veitingastað í því fornfræga húsi sem um árabil var veitingastaðurinn Naustið. Inngangur hins nýja veitingastaðar sver sig mjög í ætt við Kínastaði víðs vegar í vesturheimi, þungar útskornar hurðar, skrautleg der yfir anddyri og kassi fyrir utan þar sem matseðillinn hangir til yfirlestrar áður en ákvörðun um inngöngu er tekin. Þegar inn er komið mætir manni stór og bjartur salur með uppdekkuðum borðum, Asískum styttum og vösum og tauþurrkum. Í tveimur heimsóknum, í hádegi og um kvöld var móttakan nákvæmlega eins upp á punkt og prik, greinilega vandlega skrifað handrit sem fylgja skyldi í smæstu smáatriðum, ekkert rúm hér fyrir frávik og tilhliðranir. “Do you have a reservation?”, sagt hranalega og með illskiljanlegum hreim. Rýnir stóð satt að segja á gati því hingað til hefur verið hægt að kíkja í heimsókn í hádeginu og jafnvel á kvöldin á flesta Asíustaði í borginni án þess að “reserva” borð með fyrirvara. Og hver er þá tilgangurinn með menukassanum utandyra? Eiga þeir sem hann lesa, og langar inn, að hringja á undan sér og panta borð? Þessi hvassa og ópersónulega móttaka stuðaði pínulítið, sérstaklega í endurtekningunni nokkrum dögum síðar. En það átti eftir að hvessa töluvert áður en máltíðinni lauk.
Ekkert tungumál virðist gjaldgengt á þessum nýja, fína stað nema móðurmál þjónanna sjálfra. Enska var reynd til þrautar og einnig Franska og Þýska og að lokum Íslenska en árangurinn var ekki meiri en svo að nær allt sem pantað var skilaði sér ýmist í rangri röð, alls ekki eða það kom bara eitthvað allt annað. Þjónarnir, með fullorðinn mann í farabroddi sem greinilega réði ríkjum, hringsnerust um salinn eins og landafjandar, stressið og ringulnreiðin algerlega að bera þá alla ofurliði. Og ekki síður gestina. Það kann að vera að á “Great Wall of China” veitingastöðum út um heim, en svo heitir þessi keðja veitingastaða víst, sé hraðinn í afgreiðslu fyrir öllu og afslöppun gesta og notalegheit skipti litlu eða engu máli. Hraðinn var reyndar ekki sá sami niðri í eldhúsi því talsverð stund leið á milli rétta, lengri en gengdi góðu hófi. Svo var stórundarlegt innskot frá yfirþjóninum að koma alltaf öðru hverju á hlaupum að borðinu til að spyrja “All is OK yess!?!” og rjúka svo burt með það sama án þess að hlusta eftir svari. Sannarlega var ekki allt “OK” og vel hefði mátt laga eitthvað af því ef gestirnir við borðið hefðu fengið að tjá sig. En svo má efast um að það hefði skipt nokkru máli því það virtist sama hvað sagt var, öllu var mætt með sama hlýja, breiða brosinu og einhverju “yess, yessi!”.
Hvaða sirkusatriði á þetta eiginlega að vera? Getur verið að aðstandendur þessa veitingastaðar hafi ekki kynnt sér standardinn í íslenska veitingageiranum áður en vaðið var út í þessa hyldjúpu laug. Íslenskir veitingahúsagestir eru góðu vanir og það þýðir ekkert að bjóða uppá svona fíflalæti og ætlast svo til að maður borgi uppsprengt verð fyrir herlegheitin, því ódýr er þessi staður sannarlega ekki. Kannski voru þau öll að vanda sig svakalega mikið en það fór alveg öfugt í mig og mína og því miður treysti ég mér bara alls ekki aftur í þennan skrítna tungumálagátuleik. Sem er synd því maturinn, það af honum sem skilaði sér á borðið, var góður, jafnvel betri en annar Kínamatur sem í boði er í borginni. En út af hinum stöðunum hrökklast ég ekki sveittur og móður með dúndrandi hjartslátt eftir öll hlaupin í þjónunum. Og þar skilja menn það sem ég segi.
1 Comments:
Ég heimsótti þennan ágæta stað ásamt fríðu föruneyti í haust og þar lentum við í nákvæmlega sama vandamáli með tungumálin, jafnvel þó svo að þrír úr hópnum væru rúmlega mellufærir í kínversku. Við reyndum sem sagt öll möguleg tungumál til að panta te eftir máltíðina en aldrei kom neitt te á borð og að lokum gáfumst við upp og fórum heim. Maturinn var svo sem ágætur, en fyrir þetta verð átti ég von á svo miklu betri mat. Má ég þá heldur biðja um heimsendingu af Indókína fyrir mun hófsamara verð, og miklu notalegri þjónustulund.
Post a Comment
<< Home