Monday, November 05, 2007

DOMO







Domo er kurteisisávarp á japönsku. Gjarnan bætt framanvið “arigato” ef menn vilja sýna þakklæti sitt en getur líka staðið eitt og sér sem stutt kveðja, “takk” eða jafnvel “verði þér að góðu”. Það er vel við hæfi að nefna veitingastað þessu nafni, sérstaklega þennan sem um ræðir því matseldin þar á bæ ber keim af austurlöndum fjær og þá einkum Japan. Nútímalegt, smekklegt umhverfi og vandaðar innréttingar er það fyrsta sem maður tekur eftir þegar inn er komið enda varla við öðru að búast þegar þeir félagar Kormákur og Skjöldur eiga í hlut. Upp nokkrar tröppur og maður stendur í miðjum sal. Þar er strax tekið á móti manni og vísað til borðs. Salurinn er þrískiptur, fremra rýmið er sitthvoru megin við uppganginn og inn með veggnum til vinstri, í miðrými er langborð á háum fótum og innst er gluggalaus salur með tveggja og fjögurra manna borðum. Vel heppnað skipulag og þjónarnir hafa góða yfirsýn. Við vorum sett á lítið borð við vegginn og ég kveið því dálítið að við myndum verða fyrir ónæði af umgangi því þarna eru dyr sem um er gengið til að komast niður á barinn í kjallaranum. Barinn sá er einnig tónleikastaður á hraðri uppleið í músikmenningu borgarinnar. Þó að nokkrir gestir hafi farið um þessar dyr á meðan á máltíð okkar stóð var eins með það og annan umgang á staðnum þetta kvöld, við fundum lítið fyrir því. Þessar tvær rekstrareiningar virðast geta þrifist hvor með annarri án þess að rekast á eða valda truflun. Það var engu líkara en rökkvaður matsalurinn dempaði allt og róaði niður, einhverskonar Feng Shui í gangi.
Matseðillinn er fjölbreyttur og við ákváðum að treysta eldhúsinu fyrir uppröðuninni, Domo Surprise, úrval af öllu því besta sem í boði er. Sushi í nokkrum útgáfum og sashimi, borið fram á klakabeði í stórri skipslaga járnskál, var upphaf ævintýrsins. Bitarnir voru hver öðrum betri og kokkarnir láta ímyndunaraflið ráða för, tilkomumikil byrjun. Með þessu drukkum við glas af hvítvíni hússins, Masi Soave, sem fór vel með þessum fersku fiskréttum. Aðalréttir á þessum samsetta seðli eru alltaf kjöt og fiskur, besta hráefni þess dags. Við fengum að smakka grillaða nautalund með shiitake-sveppum og yakitori-piparsósu og “blakkaðan” þorskhnakka í hvítlaukssojasósu, hvort tveggja afar sérstæðir og bragðgóðir réttir. Að auki fengum við að prófa stökksteikta andabringu með volgri andalifur, mangó-og púrtvínsplómusósu. Ég hef ekki verið ýkja hrifinn af foie gras til þessa, þótt það vera fremur óspennandi og bragðlaus kæfa, en þessi framsetning breytti því áliti mínu. Rétturinn spilaði á allan bragðtónstigann, frá mildu andarsteikarbragði til sætunnar í mangóinu, örlítillar súru í plómunni með viðkomu í púrtvíni og kryddum. Afar vönduð matseld. Með þessum herlegheitum drukkum við rauðvín, Wolf Blass-yellow label, traust og gott. Í eftirrétt smökkuðum við Créme brullée sem lokaði máltíðinni smekklega á mildum og léttum nótum.
Allir réttirnir sem bornir voru á borð voru fallegir og freistandi á að líta. Þeir voru bragðgóðir, hver á sinn hátt og eins ólíkir hver öðrum og þeir voru margir. Eldhúsið er stóra tromp staðarins en fast á hæla þess koma þjónarnir í salnum. Þeir eru starfi sínu vel vaxnir og sá sem sinnti okkur hafði afar þægilega nærveru. Hann gaf góð ráð og greinargóð svör við öllu sem spurt var um og það var ekki síst hans vegna að kvöldið var frábært. Heimasíða Domo er www.domo.is. Þar er matseðilinn en fátt annað. Fyrir utan vínseðil, upplýsingar um matreiðslumeistarana, sögu hússins og opnunartíma veitingastaðarins mætti setja þarna inn tónleikadagskrá kjallarans og annað fréttnæmt sem staðinn varðar. Ég gef Domo fimm stjörnur, smekklegur og aðlaðandi veitingastaður með góða þjónustu og frábæran mat.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home