Thursday, March 20, 2008

Tónlistarverðlaunin ?




Nýafstaðin verðlaunahátíð íslenskra tónlistarmanna var hin glæsilegasta í alla staði. Þótt ekki hafi verið þétt setinn bekkurinn í Borgarleikhúsinu er ég viss um að einhver hópur fólks fylgdist með útsendingunni frá afhendingu stytt(n)anna góðu. Áberandi var hve illa flestum kynnunum gekk að stauta sig fram úr textanum sem þeim var ætlaður og var undantekning ef þeim tókst að mæla mál sitt fram hnökralaust. Klaufalegt og kauðslegt að í jafn mikilvægt hlutverk á hátíð sem þessari skuli ekki veljast fólk sem kann og talar Íslensku sæmilega óbrenglaða. Þar var aðalkynnir kvöldsins engin undantekning og mætti hann gjarnan reyna að finna aftur það fumleysi og þá einlægni sem skóp honum vinsældir á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Flumbrugangurinn nú er ekki til þess fallinn að auka hróður hans mikið. Hvað átti það til dæmis að þýða að segja við verðlaunahafa, um leið og honum var afhend viðurkenning fyrir fádæma góða plötusölu, að hann (kynnirinn) "nennti ekki" að standa í því "megaveseni" að sjá á eftir viðkomandi listamanni niður í sal til þess eins að kalla hann aftur upp á svið skömmu síðar. Í stað þess að athyglin beyndist að verðlaununum var hún öll á fussumsveijinu í kynninum.
Jakob Frímann og Eiríkur Fjalar hafa þó alltaf munninn fyrir neðan nefið og kunna að orða hlutina svo vel fari.. "þetta letur er svo smátt að maður þarf að vera dvergur til að lesa það"...
Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að "jaðar"tónlist er farin að vera fulláberandi í öllum flokkum, jafnt sínum eigin sem öðrum. Fyrir ári síðan keyrði gjörsamlega um þverbak í vitleysunni þegar "lag ársins" var einhver tilraun með Ghostdigital, lag sem fáir höfðu heyrt og enginn kannaðist við. Þó tókst aðstandendum þess lags, sjálfsagt með fulltingi útgáfunnar sinnar, að fá þennan bút valinn sem lag ársins. Minnti dálítið á þegar Sveppi lét félagana hringja inn atkvæði og velja sig sem sjónvarpsmann ársins öllum algerlega í opna skjöldu.
Enn skrítnara að þessu sinni var val á plötuumslagi ársins. Þar dúkkaði upp, enn og aftur, hinn vestfirski Mugison nú með látlaust og snyrtilegt leðurlíki sem á er prentað nafn plötunnar. Ekkert út á það að setja svosem en ég minnist þess ekki að Todmobile hafi fengið sérstaka viðurkenningu fyrir umslag sitt þegar þau gáfu út sína sjöttu plötu "Ópus 6" eftir tíu ára hlé á útgáfu. Þó eru þessu tvö umslög meira en lítið lík, þau eru næstum nákvæmlega eins... ef frá er talið morgunblaðsletrið....
En hverjum er svosem ekki sama... Björk og Megast mættu allavega ekki á staðinn...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home