Thursday, March 02, 2006

Þar sem kúnninn hefur aldrei rétt fyrir sér.

Ein er sú sjoppa hér í Hafnarfirði sem alltaf telur viðskiptavini sína ljúga. Engin leið virðist vera að eiga eðlileg, sanngjörn viðskipti við Videóleiguna Snæland í Setbergi og útilokað með öllu að fá þá, sem þar stunda rekstur, til að bera nokkra ábyrgð á vöru eða þjónustu þeirri sem þeir selja dýru verði. Öllum aðfinnslum er mætt með hroka, stælum og í versta falli uppgerðar skilningsleysi. Á annan dag jóla kom það atvik upp sem reyndist fullnaðarkornið í minn mæli. Ég hafði tekið fjóra dvd diska á leigu rétt fyrir hádegi á aðfangadag og ætlaði að leifa börnunum á heimilinu að eiga afslappað “kósí” á jóladag yfir gjöfum, nammi og heimabíói sem þau fá alltof sjaldan að hafa fyrir sig. Tveir af fjórum diskum reyndust svo illa farnir, kámugir og rispaðir, að allar tilraunir til þrifa með hefðbundnum aðferðum voru tilgangslausar. Þá var gripið til viðgerðarkrems sem reynst hefur vel á rispur, bæði á músik-, tölvu- og mynddiskum, en allt kom fyrir ekki, þessar splunkunýju myndir voru algjörlega ónothæfar og jólabíóið fyrir bí. Þegar ég gerði, við skilin, athugasemd um þetta við vaktstjórann á leigunni brást hún hin versta við og í stað þess að biðja okkur forláts og bjóða bætur sagði hún bara að þetta yrði athugað. Ég kváði og spurðu hana hvort hún væri í alvöru að efast um sannindi orða minna og hvort hún héldi að ég væri með þessar aðfinnslur að ástæðulausu. Hún ítrekaði það sem hún hafði áður sagt og bætti við að leigan bæri ekki ábyrgð á því þó myndir væru skítugar eða rispaðar. Svo sá hún ástæðu til að nefna vel upphátt, svo allir viðskiptavinir heyrðu, “það eru nú eitthvað leiðinleg jólin hjá ykkur ef þau eru ónýt útaf nokkrum rispuðum mynddiskum”. Henni var þá góðfúslega bent á að þetta snérist ekki um jólahaldið á mínu heimili, skemmtanagildi athafna þar eða innhald að neinu öðru leiti heldur viðskiptahætti verslunar- og þjónustufyrirtækis sem neitar að bera ábyrgð á vörunni sem greitt er fyrir. Svo bætti ég við að nógu fljótt væru viðskiptavinir þessarar tilteknu leigu rukkaðir um aukadaga ef ekki væri skilað strax og að ég hefði greitt slíka sekt og verið rukkaður aftur um það sama í næstu heimsókn. Ég veit um fleiri sem hafa sömu reynslu af rukkunum í þessari sjoppu og það virðist vera lenska þarna að reyna alltaf trixið “svo er skuld hérna” í þeirri von að kúnninn taki það trúanlegt og borgi. Enginn veit hvað verður um þessar auka innborganir því tölvubókhald leigunnar virðist ekki koma þar við sögu. Síðast hafði ég vit á því að biðja bankann minn um yfirlit svo ég gæti sannreynt borgunina og það kom heim og saman. Greiðsla sem innt var af hendi annan dag mánaðarins var rukkuð aftur tveimur vikum síðar. Þegar það svo bættist nú við að ég skyldi vera rengdur um misheppnað jólabíó barnanna og þau fengju ekki að velja sér mynd í staðinn var mér nóg boðið. Vídeóleigueigendur þurfa að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að skömmu síðar verður öllum rekstrargrundvelli kippt undan þeirra starfsemi. Nú þegar er boðið uppá á einskonar “pay-tv” og verð á keyptum dvd mynddiskum hefur farið lækkandi svo ekki munar nú nema fáum hundruðum á leigu og kaupum. Aðeins þeir sem vanda sig munu lifa af þessa þróun. Ég hvet viðskiptavini vídeóleigunnar Snæland í Setbergi að vera vel vakandi yfir öllum greiðslum sem inntar eru af hendi þar. Að biðja ávallt um kvittun fyrir borguninni og að fara fram á að “skuldin” verði tafarlaust afmáð úr “tölvunni” því greinilega er ekki hægt að treysta orðum unglinganna sem þarna vinna. Affarasælast væri að við öll beindum viðskiptum okkar annað því það virðast vera einu skilaboðin sem óheiðarlegir sjoppurekendur skilja; ef kúnninn hættir að koma, kassinn hættir að fyllast af greiðslum fyrir ónothæfa mynddiska og vasar afgreiðslu-unglinganna af margrukkuðum skuldum sem ekki eru færðar í bókhald. Ég tala nú ekki um ef kúnninn fer í auknu mæli fram á það að sjoppan beri einhverja ábyrgð á því sem þar er selt eða leigt. Slík frekja fer greinilega mjög í taugarnar á aðstandendum þessa fyrirtækis því sannleikanum er hver sárreiðastur. Svo mætti lögreglan gefa því gaum að þarna hanga hópar ungmenna öllum stundum, langt framyfir lögboðinn útivistartíma, án athugasemda afgreiðslufólksins sem sjálft er unglingar og sjoppan því kjörið athafnasvæði fyrir óprúttna sölumenn dauðans. Sjoppur og vídeóleigur eiga ekki að vera einhverskonar málamyndafélagsmiðstöðvar og þar eiga ekki að vera stunduð ósiðleg, óheiðarleg eða ólögleg viðskipti.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home