Friday, January 23, 2009

Dagur B Eggertsson


Nafn Dags B Eggertssonar hefur æ oftar borið á góma í samtölum síðustu daga.

Hvar sem litið er yfir blóðvellina eða brunarústirnar blasir við að þeir, sem töldu sig hafa töglin og hagldirnar í öllum málum þjóðarinnar, liggja annaðhvort örendir í valnum eða ráfa um rammvilltir og ósjálfbjarga.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir háir hetjulega baráttu við illvígan og íþyngjandi sjúkdóm.
Fáum hefur komið til hugar að álag síðustu vikna og mánuða kynni að geta haft óbætanleg skaðleg áhrif á meðferðina og batahorfur. Fyrst nú, hundrað dögum eftir hrun, íhuga menn einhvern í hennar stað. Hinn pasturslitli varaformaður flokksins þykir varla kostur né heldur þeir aðrir sem helst eru nefndir í umræðunni, af ýmsum ástæðum og mörgum.

Þetta ætti auðvitað ekki að vera spurning fyrst og fremst um hvort þessi eða hinn komi til greina sem arftaki Ingibjargar Sólrúnar heldur miklu fremur um þann Gídeonshnút sem fjarvera hennar og veikindi hafa hnýtt þjóðinni. Það verður að höggva á hnútinn bölvaða og enginn þeirra sem stóð við fótskör ráðherrans, jánkandi ákvörðunum í ríkisstjórninni sem brást, hefur heiður til verksins.

Í Degi B Eggertssyni virðist vera það forystugen sem í öllu kviku skilur milli þess sem leiðir og hinna sem fylgja á eftir. Svo spillir hvorki fyrir honum né okkur að hann hefur einlægt, jákvætt viðmót og þægilega nærveru. Þeir persónueiginleikar gætu gert gæfumuninn fyrir þjóðina á þeim þungbæru og erfiðu tímum sem framundan eru. Þjóðin er í sárum og Dagur B Eggertsson er læknir af heilum hug.

Útrétt hönd í samkennd hefur önnur áhrif en oflæti og óeining.

Við þurfum ármann í öndvegi, lausan við hrokann sem núverandi ráðherrar hafa iðullega sýnt almenningi. Forystumann sem ekki burðast með erfðasynd svikinna kosningaloforða og ber ekki niðurlægður, kinnroða þess sem selt hefur sál sína og sannfæringu fyrir þægilegan stól.

Dagur B Eggertsson er hugsanlega einmitt maðurinn sem gæti stappað stálinu í örmagna þjóðina og hrifið hana með sér í vorhreingerninguna óhjákvæmilegu.

Dagur B Eggertsson er hugsanlega einmitt maðurinn sem Ísland þarfnast núna.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home