Blönduskálinn
Blönduskálinn er farinn. Um langt árabil var blómlegur rekstur í skálanum og bæði bensín og viðurgjörningur á boðstólum. Eftir að Húnfjörð-fjölskyldan hætti með skálann hafa margir og misjafnir reynt fyrir sér þar. Engum þeirra tókst að hefja skálann til vegs og virðingar á ný og hann náði aldrei fyrra sessi sem einn af skyldustoppustöðunum á leiðinni R-vík/Akureyri. Heldur þóttu það slæm bítti að sitja uppi með bensínstöðina hinumegin árinnar því þar er aðeins opið á almennum verslunartíma og ekki frameftir um helgar. Þjónustuhlutverk svona stoppustöðva við þjóðveginn er óumdeilt. Ekki bara með tilliti til eldsneytis og matar heldur og þess öryggis sem það veitir ferðalöngum að vita af einhverju athvarfi á leiðinni, ef eitthvað skyldi bera útaf. Skemmst er að minnast þegar undirritaður missti stjórn á bílnum og þeyttist útaf þjóðvegi númer eitt á leið norður svo að lá við stórslysi. Enginn slasaðist sem betur fer en þegar fjölskyldan kom, þreytt og í sjokki eftir óhappið, á Blönduós var þar enga þjónustu að fá. Esso-stöðin lokuð, staffið farið heim að hvíla sig og Blönduskálinn hættur starfsemi. Ef ekki hefði komið til kunnugleiki á staðnum hefðum við verið í vondum málum. Nei, dreifbýlingar verða að finna hjá sjálfum sér hvöt til að halda lífi í sínum eigin byggðalögum og hætta þessu byggðarstefnu væli. Ef þjónustan er ekki betri en hún er í dag á Blönduósi, með þessa einu bensínstöð sem oftar en ekki er lokuð, þá skil ég vel að allir sem eru á ferðinni á nr. 1 hraði sér í gegnum þetta syfjulega byggðarlag og stoppi hvorki fyrir bensín né nokkuð annað. Enda búið að rífa Blönduskálann til grunna. Það er af sem áður var.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home