Thursday, June 01, 2006

Kebab húsið Lækjargötu

Besta kebab sem ég hef fengið um ævina borðaði ég í Köben, á lítilli hliðargötu við Strikið, skammt frá sívalí turninum. Allir kebabar í mínu lífi hér eftir þurfa að þola samanburð við þann Danska. Á horni Austurstrætis og Lækjargötu er Kebab Húsið og þar er seldur kebab sem því miður stenst ekki prófið. Kjötið er bragðlaust og sósan er lapþunnt gutl. Engu líkara en að gleymst hafi að krydda og bragðbæta. Svo er allt vandlega falið í allt of miklu rifnu káli svo úr verður einhverskonar stökkbreitt subway samloka í pítubrauði. Hér þarf að gera miklu betur ...

Ef bara maturinn hefði verið slæmur hefði ég látið þar við sitja en staðurinn er svo sóðalegur og sjúskaður að á það verður að minnast. Hraðbanki skagar langt inn í rýmið og maður verður að skáskjóta sér fram með honum til að komast inn. Bak við hann safnast allskonar rusl og þó plaköt, svartur ruslapoki og notaðar umbúðir hafi verið fjarlægt á meðan við vorum að borða, blasti við að ekki hefur verið skúrað í horninu í mjög langan tíma. Ámálaður plastmúrsteinn hefur verið límdur á veggina í veikburða tilraun til að fegra herbergið en það hefur misheppnast skelfilega, alls ekki í takt við þetta fallega gamla hús á þessum frábæra stað í borginni. Afgreiðsuparið sem var á vakt hafði lítinn áhuga á gestunum, matnum eða nokkru öðru en því að vera að spjalla og hlægja dátt að fyndni hvors annars. Eins og mér þykir kebab fínn skyndibiti efast ég um að ég borði nokkurntíma aftur í hinu þreytulega, sjúskaða og bragðdaufa Kebab Húsi ...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home