Sunday, August 27, 2006

Kindaspurningin

Af hverju hafa dýraverndarsamtök ekki haft neina skoðun á kindaspurningunni svokölluðu í bílprófi allra landsmanna? Rakst á skemmtilega kjallaragrein í Frbl. í morgun, hugleiðingu um kindur við og á number one. Bréfritari hefur víst aðeins einu sinni fallið á prófi og það var sjálft bílprófið. Spurningin sem stóð í viðkomandi er um rétt viðbrögð ef kind er á veginum þar sem maður er á ferð. Rétt svar er; maður lætur vaða á skepnuna og keyrir hana niður !?! Þarna varð ég hvumsa. Hingað til hef ég haldið að einfaldasta meginreglan í allri umferðarmenningu væri; þú keyrir ekki á neitt það sem fyrir verður. Eins skýrt og það getur frekast orðið, enginn hlutur, bílar, menn, brúarstólpar, ekkert sem fyrir verður og engin dýr heldur. Ekki hesta, beljur, hunda, ketti, skjaldbökur eða héra. Og engar kindur. Auðvitað geta aðstæður verið þannig að árekstur er óumflýjanlegur og þá lendir bíllinn á kindinni en að ökumaður fari viljandi og af ásetningi að keyra niður eitt af sköpunarverkum almættisins er þvert á allt siðferði og alla almenna skynsemi. Maður fórnar kannski ekki lífi og eignum til að afstýra árekstri við kind, en maður keyrir heldur ekki á hana ef nokkur möguleiki er að komast hjá því. Fjöldi samtaka lætur sig varða umgengni og framkomu manna við málleysingja og ég skora á þá einstaklinga sem hagsmuna eiga að gæta að skera upp herör gegn þessari grimmilegu spurningu í bílprófinu. Það hlýtur að vera hægt að komast að samkomulagi um þetta eins og flest annað.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Iss, kindur eru hvort sem er bara úr osti....

8/27/2006 5:45 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sonur minn tók nýlega bílpróf og féll í fyrstu atrennu á bóklega hlutanum. Mér þótti það heldur aumt því þegar ég gekkst undir sama próf fyrir tuttugu og eitthvað árum þá þurftu menn helst að vera greindarskertir ef þeim átti ekki að takast að tileinka sér námsefnið með lágmarksfyrirhöfn. Það var því í lagi að þyngja þetta örlítið. Ég fór að rýna í núverandi próf og sá strax að það er lítill vandi að falla á því. Kindaspurningin er ekki ein um að vera undarleg. Prófið morar í kvikindislegum gildrum og loðnum spurningum sem að mínu mati skipta engu um hæfni manns til að aka bifreið. Er ekki búið að einkavæða apparatið sem sér um ökuprófin. Spurning hvort þeir eru að skapa sér tekjur með því að fá sem flesta til að taka prófið oftar en einu sinni. Prófið er í öllu falli illa samið og ósanngjarnt.

8/27/2006 9:32 PM  
Blogger Hildigunnur said...

humm, mér tókst nú einmitt að falla einu sinni á bóklega prófinu fyrir rúmum 20 árum. Þá var einmitt ein svona andstyggileg: Hvað þarftu að varast þegar þú keyrir í rigningu og bleytu?

eina gilda svarið:

Að forðast polla til að skvetta ekki á gangandi vegfarendur.

Í Bandaríkjunum geta dýravinir fengið límmiða á bílinn sinn: I brake for animals. Svona til að vara þá sem eftir koma við að viðkomandi gæti átt það til að bremsa snögglega. Þetta bendir til þess að sömu reglur gildi þar, myndi ég halda.

8/28/2006 6:47 PM  

Post a Comment

<< Home