Gay Pride
Til hamingju með daginn hommar og lesbíur, aðstandendur samkynhneigðra og allir þér sem erfiða og þunga eru hlaðnir. Borgin skrýðist skrúða í öllum regnbogans litum og allir brosa út að eyrum. Meir að segja Siggi Stormur brá út af venju og spáði rangt fyrir um veðrið. (Reyndar talaði hann um væntanlega hitabylgju fyrir verslunarmannhelgina en hún fór eitthvert annað svo vissulega var komið fordæmi). Tónlist hljómar allstaðar og stemmningin minnir á kjötkveðjuhátíð í Ríó. Eða hvað? Er virkilega svona flókið mál að ganga niður Laugaveg og suður Lækjargötu nokkurnvegin í takt? Af hverju er skrúðgangan ekki samhangandi heldur meira svona einn og einn vörubíll í einu með löngu millibili? Minnti um margt á illa útfærða flugeldasýningu björgunarsveitar í afskekktu dreifbýli, þið vitið, svona stakar bombur og óþörf bið á milli. En svo var aftur gaman þegar næsti bíll ("float") silaðist áfram og strákar í stelpufötum glenntu sig og skóku. Reyndar mættu skipuleggjendur gefa hljóðmönnum skýrari fyrirmæli þannig að gangan og sviðið séu hluti af sömu sýningu. Það er ekki fallega gert að puðra tónlist svo hátt í milljón vatta hljóðkerfinu að tónlistin á vögnunum á engan séns. Samspil búninga og dansspora fer algerlega forgörðum og margra vikna æfingar skila sér ekki til áhorfenda í kakófóníunni. Prufiði bara sjálf að setja eitt lag á fóninn og hækka um leið í öðru lagi í útvarpinu. Ekki flott. En þetta er sparðatíningur, aðfinnslur manns sem hefur lifað alltof lengi í fullkominni veröld. Eftir stendur að tugir þúsunda glöddust með samkynhneigðum í miðborginni og við sýnum enn og aftur að við erum fremst meðal þjóða í þessum efnum sem öðrum. Og Palli var frábær eins og alltaf.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home