Sunday, July 16, 2006

Salt Restaurant

Ég hef mikið velt fyrir mér hvers vegna veitingastaðurinn Salt, á fyrstu hæð Radison SAS 1919, hefur ekki slegið í gegn. Staðsetningin í þessu fornfræga húsi er frábær, miðsvæðis svo maður kemst næstum ekki hjá því að detta inn um dyrnar, innréttingar smart og modern og gluggarnir magnaðir. Svo er mannskapurinn í eldhúsinu ekki af verri endanum. En hvað er að klikka? Ég sló til þó áliðið væri kvölds, stúlkan sagði glaðlega að eldhúsið lokaði ekki fyrr en kl.10 og við værum velkomin, en bara ef við ætluðum ekki í þríréttað!?! Okkur var vísað inná bar og þar stóðum við í reiðileysi í smástund því okkur var hvorki boðið sæti né fordrykkur. Öll borð virtust vera frátekin og þau voru það enn þegar við fórum heim um miðnættið. Ef til vill er þarna komin hluti af skýringunni, það á að taka frá svo mikið pláss fyrir “djettsettið” að staðurinn stendur hálftómur lungann úr kvöldinu og svo mætir það bara eftir hentugleikum. Matsalurinn er snyrtilegur og gatið á veggnum, þar sem sér inn í eldhúsið, er sniðugt og skapar stemmningu. Salurinn er tvískiptur, fremra rýmið er gengt gatinu góða og innra rýmið er meira prívat, hentar vel fyrir hópa, við vorum sett á pínulítið borð í gangveginum. Hin borðin hafa eflaust verið frátekin. Þjóninum sáum við bregða fyrir alloft þessa stund sem við vorum þarna, en hann hafði öðrum hnöppum að hneppa en sinna okkur. Stúlkan sem fékk það hlutverk var veitingastaðnum tæplega til sóma. Nógu var hún samt vingjarnleg en þegar hún fór að segja okkur að það væri nú ekki svo fátt á staðnum núna miðað við þá tvo gesti sem mættu helgina á undan þótti okkur hún vera komin á hálan ís. Svo beit hún höfuðið af skömminni þegar hún fór að tjá sig um veitingahúsarýni sem nýlega birtist í virtu tímariti, “sá tók okkur sko aldeilis í rassg... “ Við vorum rétt að byrja að borða og þetta var myndin sem hún kaus að planta í huga okkar í upphafi máltíðarinnar. Ekki beint til að auka lystina eða gera staðinn aðlaðandi í okkar augum. Þarna hygg ég að kominn sé helsta ástæða þess að Salt er ekki vinsælasti staðurinn í bænum, þjónustan er fyrir neðan allar hellur og á köflum svo að jaðrar við að vera fáránleg. Það kærir sig enginn um að fara á veitingastað, borga fullt verð fyrir og vera afgreiddur af viðvaning. Sérstaklega ekki ef lærður þjónn er á þönum um salinn allt kvöldið “busy doing nothing” að undirbúa morgundaginn og sjálfsagt fyrir einhverja merkilegri gesti. En að matnum sem er frábær. Við smökkuðum reyndar bara aðalrétt því kjáninn hafði bannað okkur að panta margréttað, af því klukkuna vantaði korter í tíu. Túnfisksteik var ein sú besta sem ég hef smakkað lengi, mun betri en á mörgu sjávarréttarhúsinu. Steikingin hárrétt og krydd og meðlæti smellpassaði saman. Steiktur saltfiskur var ævintýri og eins passaði meðlætið stórvel þar. Þessir tveir réttir hefðu verið næg ástæða fyrir annarri heimsókn en afar vond þjónusta eyðilagði þá hugmynd gjörsamlega. Það er dapurleg niðurstaða ef upplifun af veitingastað litast svo af því sem illa er gert að það sem virkilega er vandað fer forgörðum. Útilokað er fyrir mig að meta að fullu verðlag staðarins þar sem ég fékk ekki að panta nema þessa tvo aðalrétti en miðað við vonbrigðin af heimsókninni í heild þá var þetta dýru verði keypt. Eins og víða annarstaðar, er álagning á vín hér einnig í talsverðu óhófi. Miðlungi gott vín sem kostar 1.600 krónur í Ríkinu er selt á 5.620 krónur og skyldi engan undra að maður vilji fá lágmarks þjónustu fyrir rúmlega þrefalt verð.
Salt hefur nær allt til að bera til að slá rækilega í gegn, maturinn er góður, umhverfið aðlaðandi og afar smekklegt og staðsetningin einstök. Þjónustan er þeirra Akkilesarhæll og nú er tímabært að veitingahúsaeigendur hætti þessum asnaskap í mannaráðningum. Menntaðir þjónar eru kannski ögn dýrari á fóðrum en það hlýtur að skila sér, þegar upp er staðið, í hagnaði, sérstaklega ef viðskiptavinirnir eru hættir að sækja staðina vegna einhverra krakka sem ekkert kunna til verka. Ég gef staðnum tvær stjörnur fyrir matinn og umhverfið og er tilbúinn að bæta tveimur við þegar þeir hreinsa til í staffinu.

2 Comments:

Blogger Hnakkus said...

Gaman að lesa þetta hjá þér. Manni finnst hálf dapurt að fara út að borða hérna á Íslandi útaf verðinu. Var einmitt að koma frá París og þar er maður að fá þríréttaða máltíð fyrir tvo á nokkuð flottum stöðum með flösku af víni hússins á 7 til 8 þúsund kall. Svo er þjónustan almennt mun slakari hérna en gengur og gerist, sérstaklega fyrir verðið.

7/26/2006 4:56 PM  
Anonymous Anonymous said...

Nú er bara að skella sér aftur á Salt, Búið að heinsa til í staffinu :)

9/08/2006 12:57 AM  

Post a Comment

<< Home