Monday, June 05, 2006

Hereford Steikhouse Laugavegi

Ég fjalla helst ekki um þau veitingahús sem ekki verðskulda allavega eina stjörnu en mér var svo misboðið á dögunum að ég má til að segja frá því. Hereford Steikhús við Laugaveg gekk fram af mér og sumt var hreinlega svo grátlega lélegt að ég var viss um að við værum í falinni myndavél. Ekkert veitingahús sem ég hef snætt á tekur eins illa á móti gestum og þetta. Í fyrstu heimsókn minni gafst ég upp og fór án þess að mér væri sinnt en nú var okkur boðið á barinn því það þurfti að dekka upp fyrir okkur. Biðin þar, án drykkja, var fáránlega löng og þegar þjóninn loks kom var það til að spjalla við kunningja sína sem voru að yfirgefa húsið, ekki til að afgreiða okkur sem hann þó tók á móti réttum hálftíma fyrr. Á Hereford eru ekki teknar pantanir heldur fyllir hver gestur út einskonar krossapróf þar sem réttur viðkomandi er x-aður, hvernig hann skuli matreiddur, meðlæti og sósa. Sá sem hefur setið í bíl og gargað pöntun sína í járnkassa á drive-in þekkir tilfinninguna. Fyndið, ef maður er að fara út að borða til að þjóna sér sjálfur, en þá ætti verðlagningin líka að vera í samræmi við þjónustustigið. Svo er sannarlega ekki á Hereford. Við byrjuðum á nauta Tataki sem reyndist, þegar upp var staðið, vera skársti rétturinn þetta kvöld ásamt Hereford-salatinu sem kom með aðalréttunum. Einnig prufuðum við gæsalifrar múss með súkkulaðisósu og ég held að þar sé kominn versti forréttur sem ég hef smakkað. Hverjum datt þessi samtíningur af pískaðri bragðlausri kæfu og súkkulaði eiginlega í hug? Hver krossaseðill er merktur nafni viðkomandi gests en þrátt fyrir það tókst stelpunni að rugla öllum aðalréttadiskunum og það í tvígang. Kjötið var bragðlaust, mismikið steikt eftir diskum en nákvæmlega jafn óspennandi á þeim öllum. Salt og pipar hafði nær engin áhrif á þetta annars ágæta hráefni, hér var metnaðarleysi í eldhúsinu um að kenna. Bakaða kartaflan hefur verið bökuð í kæli því ekki bráðnaði smjörklípan oní hana eins og maður á að venjast og hýðið var líkast húðinni sem handritin voru skrifuð á. Pipar- og bernaise sósurnar sem fylgdu voru greinilega hitaðar upp í sama kæli og með sama árangri. Ekki gekk heldur vel að opna vínflöskuna dýru við borðið því stelpan hreinlega kunni það ekki og þegar það loks tókst hellti hún jafnmiklu á borðið og í glasið sem átti að smakka úr. Við þorðum ekki í desertakrossaprófið en ákváðum þess í stað að skoða betur flöskusafn sem vakið hafði athygli okkar meðan við biðum í upphafi kvölds. Og þetta safn ætti skilið stjörnuna sem veitingahúsið sjálft verðskuldar ekki. Þarna eru árgangar af Armagnaki og Whiskíi allt aftur til áranna fyrir heimstyrjöld og þjónninn, sem byrjaði kvöldið með hroka og stælum, kom nú sterkur inn í kynningu sinni á guðaveigunum. Þó var það eins og síðasti lélegi brandarinn á þessu kvöldi að akkúrat þegar við dreypum á fyrsta sopanum hlammar sér niður, við hliðina á okkur, hópur drukkinna manna sem þurfti að ræða af ástríðu kosti, galla og möguleika sinna uppáhaldsliða í fótbolta. Og þvílíkur hávaði, hróp og köll og hlátrasköll. Við yfirgáfum staðinn og ætlum aldrei að koma aftur, þetta veitingahús er ekki heimsóknarinnar virði. Þjónusta, ef hægt er að nota það orð, er ekki til staðar og það hlýtur að varða við einhver lög að láta algerlega óhæfa unglinga sinna þessum verkþætti og rukka fullt gjald fyrir. Hereford er rándýrt veitingahús og álagningin á borðvínunum er með ólíkindum. Umhverfi er snyrtilegt þó innkoman á staðinn sé algert klúður. Leikskólaleikurinn með krossaspjöldin er kauðskur og ekki til þess fallinn að skapa stemmningu í upphafi kvöldverðar þó það sé eflaust tilgangurinn. Forsvarsmenn alþjóðlegu veitingakeðjunnar Hereford Steakhouse ættu að skella sér í dinner á Laugaveginn og láta svo loka staðnum í beinu framhaldi.

Þessi rýni birtist í Mannlífi júní ´06

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Svo er kaffið vont ... eða var það í byrjun alla vega, ég hef ekki komið síðan, dæmi staði ansi mikið eftir kaffinu ... sem er punkturinn yfir i-ið hjá mér.

6/27/2006 9:08 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sæll Hjörtur,

Mér þykir hressandi að lesa gagnrýni þína. Þú ert blátt áfram og beinskeyttur og að mér sýnist fullkomlega heiðarlegur í frásögn þinni. Þess utan ertu fjandi góður penni sem er sjaldgæfur kostur nú á dögum, e.t.v. jafn sjaldgæfur og vönduð þjónusta á dýrum stöðum.

Bið að heilsa

7/27/2006 11:18 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þú mælir semsagt ekki með honum ?

8/28/2006 10:09 AM  

Post a Comment

<< Home