Tuesday, June 06, 2006

Skrumskælingin

Er ekki mál að linni? Hvers vegna spyr enginn spurningarinnar sem brennur á vörum allra lýðræðislega sinnaðra borgara; er ekki komið að því, í alvöru, að ríkisstjórn sem rúin er trausti landsmanna segi af sér, rjúfi þing og efni til kosninga? Þessar leifar af stjórn, sem við sitjum uppi með, hafa runnið sitt skeið og það sjá allir nema ráðherrarnir sem límdir eru við stólana sína. Vald getur af sér spillingu og algert vald getur af sér algera spillingu. Einstaklingar sem hafa ekki gert annað áratugum saman en stjórna hljóta að vera orðnir viðskila við tilgang og markmið embættanna sem þeir sölsa undir sig ár eftir ár. Ekki hafa þeir umboð þjóðarinnar til þess arna svo mikið er víst. Það er gróf skrumskæling lýðræðisins að flokksnefna sem hefur glatað nánast öllu fylgi skuli hafa farið með valdamesta embætti þjóðarinnar og það er hinum fráfarandi formanni til ævilangrar minnkunnar og háðungar að hann skyldi selja sjálfan sig, sannfæringu sína og flokksbræður alla í þann hórdóm sem seta þeirra í ríkisstjórn Davíðs Oddsonar reyndist vera þegar upp var staðið. Það er að segja ef þessir þrælar hafa þá manndóm í sér til að standa upp. Hitt er líklegra að spillingin hafi gegnsýrt hjörtu þeirra og huga og þeir muni meta meir setu í valdastóli, vitandi sem er að þeir sitji þar umboðslausir en við völd að nafninu til. Valdið kemur til þeirra að ofan og þar erum við, ríkisborgarar þessa lands. Mér er til efs að fólkið í landinu, kjósendurnir, muni sætta sig við valdagræðgi þessara manna stundinni lengur. Foringjarnir, sem plottuðu samsærið og frömdu svikin, eru báðir flúnir af hólmi og eftir ráfa, í reiðileysi og rugli, smápeð sem enginn kaus til verkanna. Hvaðan kemur þeim hrokinn til að segja við okkur að þau ætli víst að sitja áfram, það er einfaldlega ekki þeirra ákvörðun. Ríkistjórn með enga forystu og ekkert fylgi á að segja sig frá völdum og láta okkur eftir að velja nýja og það eins fljótt og heimilt er lögum samkvæmt. Fordæmi eru fyrir byltingu hjá þjóðum sem hafa upplifað valdarán eins og það sem við erum þolendur í nú.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þér kvartið yfir mér að ég skrifi ekki neitt vitrænt, heldur haldi bara dagbók. Ég spyr yður, hvenær koma næstu vitrænu orð frá yður? Ég get eigi beðið.

6/27/2006 9:06 PM  

Post a Comment

<< Home