Saturday, July 29, 2006

Þrastalundur, við þjóðveg 35

Frábært veður, sól og hiti og Þrastalundur framundan, rétt að stoppa og prófa. Enda sagði í Dagskránni á Selfossi, fimmtudaginn 12.janúar að í Hafsteinsstofu yrði opnaður, þann 4. febrúar, hágæða veitingastaður með fimmrétta matseðli. Í fréttinni stóð reyndar líka að alltaf yrði hægt að fá rétt dagsins.
Ég var svolítið hissa að sjá aðeins eitt borð setið í stórum, mjög smekklega innréttuðum, matsal og klukkan rétt hálf sjö á laugardegi. Og non-stop umferð úr og í sumarbústaði. Enginn réttur dagsins, hann er bara í hádeginu! jæja, hver var þá réttur dagsins í hádeginu? Nei, hann er bara í hádeginu á virkum dögum. Gott og vel, en er kokkur á vakt, hugsanlega sá sami og eldar hér rétt dagsins, í hádeginu, á virkum dögum? Já já hann er alltaf á vakt...(Vá, er hann ekkert orðinn þreyttur? ok, ég verð þá líklega að renna austur, í hádeginu, einhvern virkan dag, fljótlega, til að sjá hvað hann býður best þann daginn).
Matseðillinn er hefðbundinn samloku/hamborgara/kjúklingabringu/
salats/grillskála seðill og er trúlega sá sami og er í boði í sjoppunni sem mætir manni fyrst. Pöntuðum barnasamloku með skinku og osti og Púka-borgara fyrir börnin en Panini kjúklingasamloku og Þrastalundar-borgara fyrir okkur. Barna maturinn var boðlegur og kjúllalokan næstum líka þrátt fyrir fátæklegt salatið og skort á flestu sem svona samloku þarf að prýða til að hún virki. En burgerinn sem lá andvana fyrir framan mig á borðinu minnti mig á setningu sem Berti Jensen sagði einhverntíma og fræg er orðin; “hvaða æfingar eru þetta eiginlega ???”. Örþunn beljuhakksneiðin (vitað er að það er hægt að gera um 400 stóra hamborgara úr einni belju) var ofsteikt svo að hún var brennd á jöðrum og á henni ekkert nema ostsneið og einhver sinnepsjafningur á milli tveggja snjóhvítra brauðsneiða. (það eru til að mynda að meðaltali 178 sesamfræ á einu Bic-Mac hamborgarabrauði). Icebergsalat hafði verið skorið og lá það við hliðina á tilbúningnum og inní honum, í felum, undir hakkinu. Og hinumegin var hrúga af frönskum kartöflum, reyndar alveg ágætum, jú og smásletta af kokteilsósu í svona litlu plast íláti með loki eins og á skyndibitastöðunum, (minni á fréttina um hágæða veitingastaðinn). Og þessi réttur er stolt staðarins, í þvílíkum hávegum hafður að þaðan dregur hann nafn sitt, Þrastalundar-borgari!!!
Þessari tilraun var að sjálfsögðu skilað tilbaka og farið fram á að borgari sem er rétt um tvöfalt dýrari en Púkaborgarinn skilji sig frá honum með einhverju öðru en munnfylli af icebergsalati. Nýr burger steiktur, jafn þunnur, en ekki látinn brenna að þessu sinni. Salatið til hliðar nú með ferskum skornum tómötum og rauðlaukshringjum oná iceberginu. Ostsneið og jafningur þó á sínum stað en virkaði einhvernvegin allt saman dýrara á að líta sökum tómata og lauks.
Af hverju er borgarinn hér ekki matreiddur af meiri metnaði? Af hverju þarf að skila honum með kvörtunum til að fá eitthvað sem líkist hamborgara sem gæti hugsanlega gert tilkall í sæmdarheitið “borgari hússins"? (En stenst þó enganveginn þá áskorun). Það er ekki erfitt að matreiða góðan hamborgara, það er gert oft á dag, á hverjum degi, um heim allan. Mér er nær að halda að það þurfi ásetning og fyrirhöfn til að gera hann svona illa. Þrastalundar-borgarinn er ekki verður nafns síns og þennan borgara þarf að gera miklu betur til að standa undir heitinu og verðinu. Það hlýtur að vera (eða ætti í það minnsta að vera) tilgangur hvers matreiðslumanns að elda mat sem manni líður vel af, á meðan hann er snæddur og einhverja stund þar á eftir. Ég var kominn framhjá litlu kaffistofunni í Svínahrauni , langleiðina heim, en fann ennþá fúlt steikarolíu bragðið í kokinu. Maginn, sem hafði mótmælt kröftuglega alla Hellisheiðina, var búinn að játa sig sigraðan og ég fann á honum að hann myndi ekki sætta sig við aðra svona árás.
Á þessum stað, við þjóðveg 35, rétt við ármót tveggja nafntogaðra, sögufrægra fljóta, í jaðri einhvers fegursta skógarkjarrs á Íslandi á ekki að vera grillskáli af lélegustu sort. Og á ég þá við eldhúsið ekki húsnæðið, því það er aðlaðandi, búið fallegum þægilegum húsgögnum og með þá flottustu ljósaskerma sem sést hafa lengi. Nema menn hafi í alvöru ætlað að reka hér “flottasta” grilldjoint ever! Vondan mat á ekki að bjóða til sölu neinsstaðar. Prufiði hitt, Þrastalundarmenn, og ég er viss um að það verður setið á fleiri borðum en þessu eina, klukkan hálf sjö að kvöldi laugardags, helgina fyrir verslunarmannahelgi, í steikjandi sól og blíðu og stanslausri traffík.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

SALT auglýsti eftir þjónustustjóra um helgina! Þú berð mikla ábyrgð!! Flott hjá þér.

7/31/2006 12:45 AM  
Blogger Hnakkus said...

Haha..glæsilegt. Það hefur greinilega áhrif þegar eini gesturinn það kvöldið skrifar harðorða grein um þjónustuna hjá þeim.

Þú verður svo að taka þá út aftur eftir smá tíma og bera saman við fyrri reynslu.

7/31/2006 10:46 AM  

Post a Comment

<< Home