Monday, August 07, 2006

Blönduóslöggan; hugleiðing um kurteisi

Virðing er áunnin. Hana er ekki hægt að heimta og það gengur heldur ekki að krefjast hennar, þeir sem njóta virðingar gera það af því þeir verðskulda það. Sveitavargur með kaskeiti, í númeri of stórum búningi og ókurteis að auki, þarf ekki að reikna með því að fyrir honum sé borin nokkur virðing fyrr en hann hefur áunnið sér hana, þó svo að virðing fyrir löggæslumönnum sé, og eigi að vera, innprentuð í uppeldinu. Í einu héraði á landinu hafa laganna verðir þann háttinn á að leggja vegfarendur í einelti. Þeir sem þurfa, vegna legu “number one”, að fara um viðkomandi sýslu mega eiga von á að vera stöðvaðir af minnsta tilefni af mönnum sem hafa ákveðið að útfæra laganna bókstaf í minnstu smáatriðum og af slíkri heift að jafnvel firrtustu sértrúarsöfnuðir fölna í samanburði, og er þó ýmsu til jafnað. “Blöndóslöggan” líður engum að aka um sveitina á þeim hraða sem umferðin alla jafna rúllar á alls staðar annars staðar á landinu, nei, í þessu dreifbýli skal ekið á þeim hraða sem kontóristar í Reykjavík ákváðu fyrir margt löngu að væri hæfilegur og ekki eru heimiluð nein frávik. Meðalhófs kenningin um löggæslu hefur ekki enn verið rædd á þessari kaffistofu. 90 kílometrar á klukkustund skal það vera (80 fyrir Kombikamparana) og þeir sem voga sér að aka hraðar um einn einasta kílómeter á klukkustund eru gripnir hvar sem til þeirra næst og þeir meðhöndlaðir af hroka og fyrirlitningu eins og um ótínda glæpamenn sé að ræða. Og að sjálfsögðu eru afbrotamennirnir sektaðir. (Það hvarflaði að mér eitt augnablik að þeir væru með 107 töluna fasta í radargræjunni og séu oft hreinlega að ljúgja uppá menn þegar lítið er að gera í hraðaterrornum, en slíkt er náttúrulega bannað....er það ekki?) Það eitt og sér, að hafa virkt og vakandi eftirlit með umferðarhraða, er út af fyrir sig virðingarvert og er gert víða um landið, en þessir tilteknu aðilar hafa tekið þetta eftirlit á næsta “level”. Kollegar þeirra í sveitunum, sín hvoru megin, sinna þessu eftirlitshlutverki af ekki minni áhuga og elju. Sá stóri munur er á vinnubrögðunum að ef hlutaðeigandi fer svo framyfir siðleg (lesarinn athugi; siðleg, ekki lögboðin) mörk að ástæða þykir til að grípa inní, er það gert af fyllstu kurteisi. Stundum gerist það jafnvel að menn sleppa með áminningu ef sýnt þykir að aðstæður, umferðarþungi og annað það sem haft getur áhrif á getu manna til að stjórna ökutæki, er með þeim hætti að örlítið frávik frá lögboðna hámarkshraðanum skapar enga hættu, hvorki fyrir viðkomandi né aðra. Oft er nefnilega nóg að hnippa aðeins í menn, sem á góðviðrisdögum hafa gleymt sér augnablik og liðið áfram áhyggjulaust eftir okkar ástsæla hringvegi. Ekki er alltaf um að ræða ásetning og glannaskap. Valdníðsla og hroki rúmar ekki eðlileg mannleg samskipti, “þér ber skylda... bla bla bla” og allt það. Kurteisi og stutt samtal á rólegu nótunum skilur eftir sig ábyrgðartilfinningu og virðingu og er mun betra tæki til að halda niðri umferðarhraða en yfirgangur og fautaskapur. Lögreglan á Akureyri hefur tamið sér látlausa og kurteisa framkomu og þess eru dæmi að þeir hafi látið nægja að áminna menn sem þó voru komnir 5 til 10 yfir. Bókstafstrúarmennirnir á Blönduósi gangast hins vegar upp í því að stoppa alla sem voga sér yfir 90 og mætti halda að þeir hafi einhver launahvetjandi ákvæði í sínum samningum, slíkur er atgangurinn á stundum. Þeirra heimabyggð á í vök að verjast um þessar mundir og þó þeirra starfsstöð heyri ekki beint undir stjórn bæjarins skyldi maður ætla að þeir bæru tilfinningar til sinna heimahaga. Af framkomu þeirra við ferðamenn er þó ekki annað að sjá en að þeir vilji veg síns héraðs sem minnstan. Þeir sem “hafa lent í Blöndóslöggunni” (og líka flestir þeir sem hafa frétt tröllasögurnar af skæruhernaði valdbeitingarsinnanna) aka ekki um sveitina með hlýju og gleði í brjósti heldur beiskju og sárindi eftir síðustu samskipti (sinna eða annarra). Við erum nefnilega öll mannleg og það svíður undan að vera órétti beittur, jafnvel þó maður viti uppá sig skömmina að hafa ekið aðeins hraðar en má. Hinir ávinna sér með framkomu sinni og hugarfari, virðingu sem dugar enn, næst þegar maður á leið um. Þá hugsar maður um síðasta atvik og minnist með hlýhug þegar manni var virðing sýnd og maður minntur á sína eigin ábyrgð í umferðinni. Valdníðsla og gerræðislegir tilburðir eiga ekkert erindi inn í löggæslu á Íslandi. “Blöndóslöggan” þarf að þurrka af sér háðsglottið og fara að bera virðingu fyrir eigin starfi og þeirri miklu ábyrgð sem því fylgir. Þetta eiga þeir reyndar að vita hafi þeir lokið einhverju prófi til starfans. Allur þorri manna bregst illa við hroka og frekju og það er sammannlegt að vilja að manni sé sýnd kurteisi. Þeir sem það gera uppskera kurteisi og virðingu á móti og allir fara ósárir frá fundinum.

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Váááááá... svona langan pistil um blönduósslögguna nennir engin að skrifa nema handhafi myndalegrar hraðasektar. Hentu inn heimildaskrá og þú ert komin með BA ritgerð.

mbk,

simmi

8/09/2006 9:04 PM  
Blogger Hildigunnur said...

er þetta ekki spurning um yfirvald frekar en þá einstöku lögregluþjóna? Sama hefur verið sagt um Kópavogslögguna.

góður pistill, annars!

8/10/2006 12:41 AM  
Blogger Drífa Hrönn said...

Heimabær konu þinnar hefur ávallt verið þekktur fyrir að eiga landsins leiðinlegustu lögreglumenn.

Maður fær stingi í magann 50km áður en maður kemur að holunni og þeir vara allt þangað til 50km eftir að maður keyrir uppúr henni aftur.

kyss og kram til fjölskyldunnar.

8/10/2006 9:50 AM  
Anonymous Anonymous said...

Sæll Hjörtur. Siggeir heiti ég og þekki þig svo sem ekki neitt en ég rakst inná síðuna þína í gegnum síðuna hans Simma (sem ég þekki heldur ekkert en les síðuna sökum þess hve mikill snilldar penni hann er). Ég sá mig hins vegar knúinn til að kommenta á þennan pistil því svo "skemmtilega" vill til að ég hef verið tekinn fyrir hraðakstur bæði af lögreglunni á Blönduósi og á Akureyri.

Á Blönduósi var ég einmitt tekinn á 107! Ég hélt fyrst að það væri verið að stoppa einhvern annan og hugsaði með mér þegar ég sá bláu ljósin: "Haha! Verið að stoppa einhvern óheppinn!" Það var ekki fyrr en lögreglan beygði í veg fyrir mig að ég áttaði mig á því að það væri verið að stoppa mig. Það er skemmst frá því að segja að lögreglumennirnir voru mjög dónalegir og hrokafullir og mér leið eins og ég væri í yfirheyrslu vegna þess að ég væri sakaður um morð eða eitthvað þaðan af verra.

Síðar var ég stöðvaður á Akureyri. Þá var ég á 158 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn var 50. Hefði mér þótt það fyllilega eðlilegt að lögreglan hefði sýnt mér hroka og dónaskap, og hefði ég sennilega ekki gert athugasemd við að vera færður í járn fyrir þennan asnaskap. Þeir voru hins vegar mjög rólegir og almennilegir allan tíman, töluðu við mig maður við mann og sem jafningja en ekki sem einhverjir hrottar og fautar á power trippi. Sá eini sem var eitthvað hranalegur var fulltrúi sýslumanns sem þurfti að ræsa út klukkan 3 að nóttu til að klippa á ökuskýrteinið mitt :)

Þessi litla dæmisaga ætti að sýna það vel á hversu miklum villigötum lögreglan á Blönduósi er. Lögreglan á Akureyri hefur sömuleiðis stoppað mig þegar ég var að keyra eilítið of hratt og spjallað við mig á léttu nótunum og bent mér á að hægja aðeins mér. Þannig á það líka að vera!

8/10/2006 10:00 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég legg til að við svörun í sömu mynt. Verslum ekki í bænum. Keyrum bara framhjá og kaupum pylsur og bensín í staða-hreðavatns eða einhverjum skálanum. Þá kannski breytist viðmótið.

Logi

8/17/2006 12:05 AM  

Post a Comment

<< Home