Friday, August 18, 2006

Umferðin

Enn berast sorgarfregnir úr umferðinni. Ungt fólk með allt lífið framundan, fólk á besta aldri hrifið burt frá mökum og börnum og eldri borgarar sem hefðu átt að njóta ævikvöldsins, enginn er óhultur. Aðferðir lögreglunnar, að liggja í leyni og nappa menn, hafa engan árangur borið. Í blöðunum er nær daglega sagt frá að svo og svo margir hafi verið teknir, metið að venju í umdæmi "Blöndóslöggunnar", 50 minnir mig að talan hafi verið sem þeir nýlegast hreyktu sér af. En samt virðist ekkert slá á hraðann. Varla er hægt að opna dagblað eða fréttaútsendingu án þess að enn og aftur hafi einhver látist í bílslysi. Skyldi maður kannast við þennan mann eða þekkja þessa konu. Varla erum við orðin svo mikil stórþjóð og fjölmenn að ekki komi lengur við okkur að sjá myndir og lesa nöfn þeirra sem síðast létust í umferðinni.
Hugarfarsbreytingar er þörf sem aldrei fyrr. Það er tímabært að við vegfarendur áttum okkur á að við erum umferðin. Það er ekki á valdi annarra en okkar sjálfra að breyta gangi mála. Engin boð og bönn munu duga ef ekki er vilji til úrbóta. Þetta þarf ekki að vera svona.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Stulli Bö samgönguráðherra hefur þá einu lausn að herða viðurlög. Refsigleðin er háttur þeirra sem engin ráð hafa.

Í Fbl. í dag er hin ötula umferðalögga á Blönduósi lofuð og prísuð en um síðustu Verslunarmannahelgi stöðvuðu hinir stoltu sjeriffar 170 ökumenn fyrir of hraðan akstur. Ekki nokkrum einasta manni dettur í hug að spyrja: Er hugsanlegt að það sér eitthvað að því að 90 km hámarkshraði sé í gildi á vegum úti?

Þessi hámarkshraði er hálfrar aldar gamall. Síðan hafa vegir og bílar batnað.

Milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur er enn 70 km hámarkshraði. Ekki einu sinni 70 ára kona á sunnudegi ekur á 70 km hraða þarna á milli. Einhverjir ættu að taka sig saman og aka samhliða á 70 km hraða þarna á milli að morgni dags. Það myndi kosta að þúsundir manna kæmu of seint til vinnu þann daginn með tilheyrandi kostnaði.

Löggan er með veiðileyfi á hinn almenna borgara. Hún getur hirt hvern sem er og rukkað um tugi þúsunda. Bjóði henni svo við að horfa. Eða í umferðarátaki sem desperasjón kallar á eftir umferðarslys.

Væri ekki nær, áður en refsigleðin tekur yfir, að laga bjánalegar reglur sem ala á óvirðingu fyrir þeim lögum sem þó eiga rétt á sér?

Kveðja,
Jakob Bjarnar

8/21/2006 11:39 AM  
Blogger Lavi said...

Sæll Hjörtur.
Hugarfarsbreytingin hlýtur að felast í því að við áttum okkur á því að reglurnar og boð og bönn eru ekki til þess að brjóta heldur fara eftir þeim alltaf en ekki í meðalhófi eins og sumir vilja meina að sé í lagi. Að minnsta kosti er langt síðan ég hef heyrt af banaslysi í nágrenni Blönduóslögreglunnar.

8/21/2006 1:01 PM  

Post a Comment

<< Home