Tuesday, August 15, 2006

Bautinn, Akureyri

Ekki hef ég tölu á því hve oft ég hef borðað á Bautanum á Akureyri í gegnum tíðina en á 30 árum eru skiptin ófá. Ég borðaði þar á 17. júni, hrefnukjöt, og félaginn fékk sér hamborgara. Reyndar engan venjulegan hamborgara því þeir eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir á matseðlinum, háskólaborgarinn með beikoni og eggi, sá mexikóski með chilihjúp, franski borgarinn með camembert og texas BBQ sá sem pantaður var. Hann var stórfínn og hrefnukjötið mitt var algjört lostæti, sannarlega heimsóknarinnar virði. Villibráðarósan var blönduð gráðaosti og vínberjum og spilaði dásamlegan dúett með sjávarspendýrinu. Svo fylgdi þessu týttiberjasulta sem kórónaði máltíðina. Súpan á undan var rjómalöguð, bragðgóð og lystug og salatbarinn er flottur. Ég dáist að kokkum sem geta haldið ró sinni eins og Bautamenn gerðu þó biðröðin næði langt yfir á göngugötuna, ekkert óðagot hér og allir fengu góðan mat og þurftu ekki að bíða óeðlilega lengi eftir honum. Stúlkurnar sem framreiddu voru elskulegar og brosmildar, þeim leiddist ekki í vinnunni og þá leiðist kúnnanum ekki heldur ...

4 Comments:

Blogger Hnakkus said...

Heyrðu það er gaman frá því að segja að ég lenti í aðeins öðruvísi reynslu þarna um verslunarmannahelgina.

Það var hálftómt þarna inni þegar við komum en samt tókst kokkinum að gleyma tómötunum á tvær BLT samlokur (Bacon, Lettuce, TOMATO). Samlokurnar voru undarlegar með beikoni og káli einu saman svo ég spurði hvort það ættu ekki að vera tómatar á BLT samlokum. Stelpan sem var að þjóna kvaðst ekki vita það en sagðist alveg geta gefið mér tómata ef ég vildi og ég þáði það og raðaði þeim á sjálfur.

Mér fannst verðið þarna svo vera fjallhátt miðað við stað sem er með menntaskólakrakka í vinnu og rukkar við dyrnar. Borgararnir kostuðu upp í 1750 kall sýndist mér sem er mun hærra en á Grillhúsinu hérna í Reykjvík t.d. sem mér finnst vera staður í svipuðum klassa.

Hef samt alltaf fílað Bautann en varð fyrir smá vonbrigðum í þetta skiptið.

8/16/2006 1:46 AM  
Blogger Hildigunnur said...

þú ert mun betri við Bautann en hann Þorri á Gestgjafanum um daginn.

8/16/2006 4:10 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Sæl
Hef ekki lesið Bautann hans Þorra ennþá, les þó yfirleitt allt sem hann skrifar. Hann fer í þessi mál á pínulítið öðrum forsendum en ég. Ég reyni að nálgast þetta meira eins og hinn venjulegi neytandi. Þannig datt ég inná Bautann þarna á þjóðhátíðardaginn. Svo má vera að Bautamenn hafi þekkt kallinn að þessu sinni. Það skýrir þó ekki hvers vegna stelpurnar voru svona næs !!

8/16/2006 5:53 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þær eru bara svona vel innrættar þessar elskur!

8/16/2006 11:33 PM  

Post a Comment

<< Home