Wednesday, September 13, 2006

Efasemdir

Nú allt í einu efast ég. Var að fletta Séð og heyrt og las þar, á bls. 15, í "heyrt" borðanum, að á Cafe Kidda Rót í Hveragerði hefði "verið allt vitlaust að gera í sumar". Svo las ég stutta upptalningu á því sem má finna á matseðlinum, svolítið þungbærar lýsingar; brjálaðar pizzur, geggjaðar steikur og rómantískir hamborgarar. (já, hinir frægu rómantísku hamborgarar!). En róðurinn þyngdist fyrst þegar ég las um fórnarlund Kidda sjálfs, hafandi "eytt lunganum úr sumrinu" á Arnarvatnsheiði. "Þar dró hann á land 350 bleikjur ásamt félaga sínum á einum sólarhring".
Ekki veit ég hver hann er, þessi félagi bleikjanna sem þarna var dreginn á land og heldur þykir mér stutt sumarið hans Kidda ef lunginn úr því er einn sólarhringur. Sennilega á þessi klausa að segja okkur að Kiddi hafi eitt lunganum úr sumrinu á Arnarvatnsheiði og hafi þar, ásamt félaga sínum, dregið á einum sólarhring 350 bleikjur á land. Smá munur eftir því hvernig raðað er í setningar, svolítið mikilvægt þegar skrifað er á Íslensku.
En það var ekki það sem vakti efasemdir mínar heldur hitt að afgreiðslustúlkan sem þjónaði mér (þjónaði?) til borðs, þegar ég ætlaði að fá mér að borða á Cafe Kidda Rót í sumar, stóð á því fastar en fótunum að Kiddi væri "alltaf" sjálfur á staðnum, jaa... nema bara ekki akkúrat þarna þegar ég spurði, þá var hann í "fyrsta fríinu" frá því opnað var.
Svo nú hlýt ég að spyrja; hver er að ljúga?

Sjá einnig hér neðar á síðunni:Cafe Kidda Rót, Hveragerði. Part Two, eða “þetta kemur þegar það kemur”!!!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home