Monday, September 04, 2006

Fleiri orð


Sá skondið viðtal á NFS við Balta. Balti alltaf flottur og með mörg járn í eldinum eins og Heimir sagði réttilega frá. Eitthvað hafa félagarnir verið léttstressaðir í spjallinu því orðin og setningarnar áttu til að bögglast uppí þeim svo úr varð hin besta skemmtun, fyrir mig allavega. Náði ekki að punkta hjá mér allt sem þeim fór á milli en hér fylgja nokkur dæmi: um Ibsen og hátíðina sem Balti var nýkominn heim frá; þeir voru að halda uppá afmæli dauða Ibsens, já dauðaafmæli skáldsins. (sem er venjulega kallað dánardægur því menn eru þegar afmældir við dauða sinn og eiga þar eftir ekki fleiri afmælisdaga), um móttökur leikhúsgesta; við fengum standing óveisjon, fólk stóð og klappaði, (leikhúsrottan Baltasar Kormákur veit vel að talað er um að áhorfendur "risu úr sætum" þegar sagt er á íslensku frá stórkostlegum móttökum eins og þeim sem hópurinn fékk í Noregi), þá sagði Heimir "finnst þér ÞÚ hafa tekist það sem þú ætlaðir þér"??? Áfram héldu þeir. Um lögregluna og þeirra framlag til Mýrarinnar sem Balti er að ljúka við þessa dagana; lögreglan var okkur hli.. uhm, uhm, hjálpaði okkur mjög mikið, (þarna hefði mátt nota orðið "hjálpsöm" sem er gott og gilt. Og að lokum; "hvað er framundan hjá þér Balti minn"? "Framtíðin verður að sjá hvað ber í skauti sér"!
Íslenskan er fegursta tungumál í heimi, vöndum okkur þegar við tölum hana.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ég var að lesa ansi skemmtilega bók sem heitir "Í fréttum er þetta helst." Í þeirri bók eru ýmsar skemmtisögur af fjölmiðlafólki og svo nokkrir sprettir þar sem vitnað er í blessaða íþróttafréttamennina okkar. Verulega skondið þar margt, mæli með þessari lesningu.
Eitt dæmi: "Þetta er kókapuffs-kynslóðin. Hún hefur ekki stigið hendi í kalt vatn."

9/04/2006 9:39 PM  
Anonymous Anonymous said...

Og í þessum töluðu orðum klauf "Balti" atómið!!!!!

9/14/2006 3:21 AM  

Post a Comment

<< Home