Friday, September 15, 2006

Indian Mango (öll rýnin)

Loksins komst ég til að prófa þennan umtalaða stað eftir að hafa gert 4 tilraunir áður. Ég kom tvisvar að lokuðum dyrum, þarna er víst ekki opið á sunnudögum, og svo var lokað í lengri tíma í byrjun ársins af ástæðum sem mér eru ekki kunnar. Tvisvar var svo fullt útúr dyrum að ekki var hægt að fá borð en í þetta sinn var aðeins setið við tvö borð. Gestum átti reyndar eftir að fjölga þegar leið á kvöldið. Niðurstaða heimsóknarinnar er í sem stystu máli; “I don´t get it !!”.

Maturinn sem við fengum var ekki það góður að hann standi undir orðsporinu, reyndar voru allir réttirnir fimm nánast eins útlítandi og keimlíkir á bragðið. Svona sósujukk er hægt að kaupa í flestum betri matvöruverslunum á landinu og bæta svo sjálfur kjötinu útí, fyrir miklu minni pening. Fátt sem minnir á hefðbundið Indverskt eldhús í matargerðinni enda var Goa portúgölsk nýlenda til lengri tíma og flest sem þaðan kemur undir sterkum áhrifum af fyrrum herraþjóðinni. Ágæt heimasíða ferðamálaráðs héraðsins, www.goatourism.org, er upplýsandi og fróðleg um menninguna og matinn eins og hann er þar ...

Inngangur veitingahússins er þannig staðsettur að gestir ganga eiginlega ofaní og yfir þá sem fyrir eru og þjónninn þarf að fara allan salinn á enda til að veita móttöku. Þjónustan var tvískipt, ung stúlka sem virtist ekki skilja neitt tungumál en skrifaði þó í gríð og erg niður allt sem við sögðum og eldri maður, afar kurteis, sem greip inní þegar virtist stefna í óefni. Allt of mörgum borðum hefur verið komið fyrir í þessum litla kjallara svo þeir sem ganga um beina eiga fullt í fangi með að troðast hjá, virkar klaufskt og skapar óþarfa spennu. Grjóthrúgan í miðjum salnum hefði kannski getað róað stemmninguna eitthvað niður en það var því miður skrúfað fyrir hið fengsjúíska vatnsgutl á meðan við vorum á staðnum ef þetta er þá yfirhöfuð gosbrunnur.

Stundum gerist það að veitingastaður verður vinsæll bara afþví bara. Svo eru aðrir staðir sem slá í gegn vegna þess að maturinn þar er góður, þjónustan elskuleg, umhverfið þægilegt og verðið hóflegt. Á Indian mangó er maturinn ekki vondur, þjónustan ekki fráhrindandi, umhverfið ekki beint óþægilegt þó það sé svolítið ofhlaðið húsgögnum og verðið á viðurgjörningnum er ekki óhóflega uppsprengt en einhvernveginn langar mig samt ekki þangað aftur ...

Rýni þessi birtist í Mannlífi, september ´06

0 Comments:

Post a Comment

<< Home