Saturday, September 30, 2006

Ár hinna glötuðu tækifæra

Enn og aftur rennur okkur úr greipum tækifæri til að gera okkur gildandi meðal þjóða.
Við klúðruðum málum þegar umboðslausir sérhagsmunaseggir seldu þjóðina í ánauð í stríðsrekstri í austurlöndum nær. Við misstum algerlega tökin á skrímslinu Landsvirkjun, ríkinu í ríkinu. Og nú, þegar við gátum komið með jákvætt innlegg í umræðuna, vakið athygli á landi og þjóð fyrir eitthvað skemmtilegt og gott, eyðilögðum við það algerlega af því einhverjir þrjóskupúkar vildu ekki "vera memm".

"Black-out" heillar höfuðborgar og nærliggjandi bæja og þorpa er allt að því óhugsandi nokkurstaðar í veröldinni annarstaðar en hér á Fróni. Myrkvunin hefði, og átti, að vekja athygli heimsins á okkur sem menningarþjóð. Þjóð sem getur, þrátt fyrir ágreining um flestöll mál, sameinast um jafn jákvætt og fyndið moment eins og að slökkva öll rafljós til að fagna opnun kvikmyndahátíðar.

Mikið var ég stoltur þegar ég gekk upp Áshlíðina, ofan kirkjugarðs, með börnunum til að þau gætu vitnað þennan merkilega atburð. Og þeim mun meiri voru vonbrigði mín þegar ég áttaði mig á því að myrkvuninni var gjörsamlega klúðrað af kjánum sem ekki gátu séð sér fært að slökkva í stigagöngum blokkanna sinna og snobbdýru útiljósin upp með hellulögðum heimreiðunum.

Ég er orðinn það gamall að ég man þegar, hver einustu jól í uppvextinum, að rafmagnið fór af rétt fyrir kl. 6 á aðfangadag. Ýmist vegna óveðurs, sem reyndar eru alveg hætt að ganga yfir landið, eða vegna "álags", en sú afsökun er löngu orðin ógild. Þá kom raunverulegt "black-out" og stjörnurnar lýstu eins og þær gerðu í fyrndinni.

Þessi tilraun nú var misheppnuð og engu um að kenna nema okkur sjálfum fyrir að þekkja ekki okkar vitjunartíma og stökkva ekki á einstakt tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt.

Á myndunum sést hve glöggt að munurinn fyrir og eftir slökk er nánast enginn.

Þvílík vonbrigði.


2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Það er mikil sorg í þessu bloggi, hjörtur. Ég vona að þú finnir einhverstaðar huggun á þessum erfiðu tímum. Guð blessi þig.

10/01/2006 1:02 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Takk Simmi minn, fyrir hluttekninguna.
Kv.
HH..

10/01/2006 3:41 AM  

Post a Comment

<< Home