Tuesday, October 03, 2006

Batnandi mönnum...

Það sem ég get endalaust pirrað mig á fólki sem kann ekki Íslensku. Þegar á virkilega að slá um sig notar þetta fólk, sem ég læt fara svona í taugarnar á mér, málshætti og orðatiltæki. Þá fyrst tekur steininn úr.

Að segja að "batnandi mönnum sé best að lifa" er útúrsnúningur af lakasta tagi, svona Bibbu-á-Brávallagötu heilkenni. Það er nefnilega fleirum en þeim sem eru "batnandi" best að lifa.

Ég hef oft gert að umræðu hér á síðunni hve mikilvægt það sé að tungumálið okkar sé "rétt" notað, að maður segi það sem maður meinar og meini það sem maður segir. Ég hef ekkert á móti skemmtilegum slettum og undarlegum tilvísunum frekar en ég hef á móti tilraunakenndri notkun krydds í framsækinni matargerð. Og alltaf gladdi mig að eiga samtal við vin minn, Pétur heitinn Kristjánsson poppara, og njóta þeirrar sköpunargleði sem einkenndi hans málnotkun alla.

Þegar ég rekst ítrekað á setninguna "batnandi mönnum er best að lifa" fæ ég á tilfinninguna að ég hafi misst af einhverju "djóki" sem allir hinir eru að hlæja að. Hverjir eru þeir, þessir "batnandi menn"? Og er þetta þá sagt um menn frekar en um lífið sem þeir lifa? Leitt að uppgötva að maður tilheyrir ekki hópnum "batnandi menn", dálítið einsog að upplifa sig útskúfaðan og ósamþykktan. En þó maður sé ekki í söfnuði þeirra sem stöðugt er að "batna" getur maður gert ýmislegt til að auðvelda sér og samfylgdarmönnum sínum tilveruna hér á jörðinni.
Ég held það hljóti nefnilega að vera markmið allra þenkjandi manna að lifa sínu lífi stöðugt batnandi fremur en versnandi.
Því hlýtur þetta máltæki að vera;

"Batnandi ER mönnum best að lifa"

fremur en; "batnandi MÖNNUM er best að lifa"!!!

Og hana nú !

6 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Og er ekki rétt mynd ,,Batnandi er ENGLUM best að lifa?" hvort sem er?

Það er sú útgáfa sem mér var kennt sem krakki af aldraðri ömmu minni.

10/03/2006 8:58 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Man ekki eftir að hafa heyrt þá útgáfu, en get vel séð hana ömmu mína heitina fyrir mér segjandi þetta.

10/03/2006 9:49 AM  
Blogger Hildigunnur said...

stangast þetta ekki líka á við máltækið Sígandi lukka er best?

10/03/2006 1:50 PM  
Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir fróðleikinn, ég vissi þetta ekki :(

10/03/2006 3:32 PM  
Anonymous Anonymous said...

Tjah, það er a.m.k. vísað í máltækið sem Bastarður minnist á, í Lukku-Láka bókinni "Batnandi Englar", ef það er nokkur hjálp?

Núeh, sú bók fjallar um Daldóna og þeirra tilraunir til að verða góðir og gegnir borgarar, minnir að það hafi samt verið yfirvarp.

Langt síðan ég las þessa bók.

10/04/2006 9:34 AM  
Blogger Carmen Johannsdottir said...

En enginn er fullkominn sem þýðir að við getum bara farið batnandi, hinsvegar er fullt af fólki sem finnst það vera fullkomið og þurfi ekkert að batna......þannig að er þá ekki batnandi mönnum best að lifa???

6/07/2007 4:02 PM  

Post a Comment

<< Home