Wednesday, October 04, 2006

Gúrka

Misjafnt fréttamat fjölmiðla birtist okkur stundum í líki gúrkunnar frægu. Þó ýmislegt hafi átt sér stað undanfarna daga sem full ástæða er til að segja frá, getur fréttanef viðkomandi miðils verið svo stíflað af kvefi að engin fréttaþefur finnist. Þannig hefur Blaðið birst mér nú um nokkurt skeið.

Blogg er, eðli málsins samkvæmt, vettvangur hugsana viðkomandi bloggara. Þar geta menn skrifað sig frá áleitnum þönkum og komið skoðunum sínum á framfæri án ritskoðunar. Margir blogga um sitt daglega líf, einskonar dagbókarfærslur "svo kom Binna til mín og hún og Gummi eru að spá í að hætta saman ....o.s.fr.". En svo eru sumir sem nota þetta fyrirbæri sem gagnabanka fyrir greinaskrif. Í þeim hópi er Davíð Þór sem, eftir talsverðan þrýsting frá velvildarmönnum, setti loks upp bloggsvæði. Þar birtir hann greinar sínar allar á einum stað og skráir að auki hugsanir um lífið og tilveruna eftir föngum. Blogg Davíðs er nú orðið eins árs og ber að fagna því.

Blaðið í dag gerir hinsvegar blogg Sigmars Kastljóssmanns að frétt og engri smá. Sigmar mun hafa keypt sér reiðhjól og forláta hjálm og greindi hann frá því, í dagbókarstíl, á bloggsvæði sínu. Einhver blýantsnagarinn á Blaðinu hélt að hér væri stórskúbb á ferðinni og er lögð rúm hálf síða undir þessa frétt á bls. 28 og þessi merkisatburður í sögu lands og þjóðar ítrekaður í grein á bls. 38, þar sem venjulega er umfjöllun um dagskrá sjónvarpanna.

Sigmar er mætur maður og blogg hans eru skemmtileg, þó í dagbókarstíl séu. En er ekki full lítið við að vera hjá blaðamönnum Blaðsins ef stór hluti þess er lagður undir frásögn af hjálmakaupum sjónvarpsmannsins, sem þegar hefur sagt öllum sínum vinum og vandamönnum frá atburðinum á þeim vettvangi sem líklegast er að áhugasamir lesi fyrst?

Ef skrifarar Blaðsins hafa svo lítið að gera að þeir geta hangið inná bloggum manna daginn út og inn er virkilega þörf á sparki í rassinn. Það er nefnilega fullt að gerast í samfélaginu sem vert er að segja frá.
Og það er ekki allt GÚRKA !

5 Comments:

Blogger Sprettur said...

Góðar fréttir þykja ekki fréttnæmar hér á Fróni þar sem enginn nennir að skrifa jákvæðar fréttir af öllu því góða sem fólk er að gera, svo það er kannski bara ágætt þegar gúrkutíð er í frétttabransanum. Það þýðir þá yfirleitt að enginn hefur verið laminn eða myrtur, engum nauðgað og engin að svíkja undan skatti ;)

10/04/2006 12:25 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ef til vill tókstu ekki eftir því og þar af leiðandi er þér bent á það að greinin um Sigmar var ekki á fréttasíðu, heldur í innblaðinu þar sem að efnistökin eru yfirleitt önnur en tíðkast á fyrstu síðum blaðsins. Ef til vill má búast við reiðilestri frá þér um það að dagblöð dirfist að eyða plássi í sjónvarpsdagskrá, veitingarýni eða álíka fánýti meðan að merkari og mikilvægari hlutum er ekki sinnt - tam ömurlegur aðbúnaður öryrkja og aldraðra!

En að þessu sleppt: við búum á landi þar sem að hjálmakaup stjarna eru fréttnæm því að forvarnargildið er ótvírætt og þar af leiðandi er það til marks um óvönduð vinnubrögð að umfjöllunin var ekki á fréttasíðu.

10/04/2006 10:26 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Alltaf gott þegar manni er bent á það sem maður í einfeldni sinni eða heimsku ímyndar sér á einn veg eða annan. Hinsvegar hef ég alltaf tilhneigingu til að taka minna mark á frussi úr pennum (eða lyklaborðum) þeirra sem ekki hafa manndóm í sér til að koma fram undir nafni.

Sjálfur vann ég um langt skeið að þætti sem hét því ágæta nafni "dagskrá næstu viku" svo allar dylgjur í minn garð um að ég líti á dagskrárkynningar sem fánýti eru úr lausu lofti gripnar. Öryrkjar og aldraðir eru reyndar sá þjóðfélagshópur sem alltaf liggur vel við höggi þegar menn rata í rökþrot.

Forvarnargildi þess að tíunda eitthvert lókalgrín starfsmanna sjónvarpsins, þar sem þeir gera góðlátlegt gys hver að öðrum, ætla ég mér ekki að meta enda aðrir hæfari til þeirra verka, t.a.m. þú, hver sem þú ert. Þú fullyrðir í.þ.m. að það sé "ótvírætt" og svo gengur þú skrefi lengra og fullyrðir að Sigmar sé "stjarna", eða hafa aðrar "stjörnur" keypt sér hjálm og um það verið fjallað? Það hefur kannski farið fram hjá mér meðan ég sat og las eitthvert fánýtið.

En það var heldur ekki innihald fréttarinnar sem ég vildi gera að umtalsefni heldur hitt að hún hafði þegar birst í miðli Sigmars sjálfs, og hann er með fleiri hundruð heimsóknir á bloggið sitt hvern dag. Þeir sem vinna við fréttablað eiga að setja mark sitt hærra en að éta stöðugt upp eftir öðrum. Vera svolítið "orginal"!

Svo er mér slétt sama hvort einhverjum ónefningi finnist þessi eða hin síðan vera í "innblaði" eða ekki, þessi ritlingur kemur í heild sinni inn um lúguna hjá mér í dulbúningi fréttamiðils og því eru allar síður í honum fréttasíður, hvað mig varðar.

Það er hinsvegar þefskynslausu nefi blaðamanna um að kenna að það sem þar gefur að lesa er alls ekki alltaf fréttnæmt.

10/04/2006 11:06 PM  
Blogger Davíð Þór said...

Er hann bara með 100 heimsóknir? Iss, piss. Ég fékk 800 inn á mitt fyrsta sólarhringinn eftir að ég setti upp teljarann. En ég svindlaði kannski smá, ég var með beitu fyrir bloggóða ...

10/05/2006 12:07 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

"Fleiri hundruð"!!!

Og fullt af commentum !!

Enda með þekktari og vinsælli bloggurum þessarar þjóðar. Og stjarna að auki.

Kv.
HH..

10/05/2006 4:01 PM  

Post a Comment

<< Home