Friday, November 03, 2006

En ekki hvað ?

Það hljómar alltaf undarlega í mínum eyrum þegar sagt er að símtölum verði svarað í "réttri röð" eða í "þeirri röð sem þau berast". En ekki hvað ? Má maður eiga von á því að einhverntíma verði sagt "símtölum verður svarað hipsum-haps, eftir geðþótta !" Selvfölgeligheder ætti að vera óþarft að tíunda.

Ég þurfti að ná í BT í morgun og símtalið hófst einmitt á "þú ert kominn í samband við BT, símtölum verður svarað í réttri röð". Og ég sem hélt að símtalinu hefði þegar verið svarað. Svo hófst biðin, eflaust hafa einhverjir verið framar í hinni réttu röð. Nokkrum sinnum heyrðist rödd, önnur en sú sem hafði svarað fyrst, segja "því miður eru þjónustufulltrúar okkar enn uppteknir, en við vonumst til að geta afgreitt þig eins fljótt og auðið er". Hvaða nýútskrifaði markaðsfræðingur samdi þennan texta ? Þjónustufulltrúar !! Er BT orðið banki eða stofnun ? Er þetta ekki bara verslun ? Heitir starfið ekki ennþá afgreiðsla og fólkið sem vinnur það, afgreiðslufólk ? Og svo þetta "vonumst til" - "eins fljótt og auðið er" ? Er ekki víst að hægt verði að "þjónusta" mig ? Og þá kannski ekki fyrr en seint og um síðir. Hvaða skrúðmælgi er þetta eiginlega ?

Dugar ekki að segja á Íslensku; "þú hefur náð sambandi við BT, við erum upptekin við afgreiðslu en munum sinna þér strax og við getum". Nei, kannski hljómar það ekki nógu sannfærandi. "Þjónustufulltrúar enn uppteknir" hljómar auðvitað miklu meira "important" og "busy". Og "vonumst til, - eins fljótt og auðið er" gefur til kynna að mannskapurinn sé hreinlega upp um alla veggi og súlur að reyna að hespa af þá kúnna sem tróðust fram fyrir í röðinni svo hægt verði að þjónusta mig.

Reyndar sagði stúlkan, sem loks kom í símann eftir drykklanga stund, "bíddu andartak" eftir að ég hafði stunið upp erindinu. "Andartak !!" Einmitt það. En það voru þegar liðnar um 10 mínútur frá því ég valdi númerið á takkaborðinu, ansi mörg andartök það.
Svo kom hún aftur í símann smástund síðar til að segja mér að verslunin tiltekna, í Smáralind, opnaði ekki fyrr en klukkan ellefu.

Takk kærlega fyrir mig.

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ég get tekið undir að það verður sífellt algengara að menn fari Krýsuvíkurleiðina í orðavali. Gott dæmi er nýleg auglýsing frá verslun sem selur rúm. Í staðinn fyrir að auglýsa einfaldlega rúm þá var boðið upp á svefnlausnir.

11/03/2006 10:51 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Svefnlausnir !! Frábært, hvaða fræðingar leika lausum hala í textagerð og frasasmíðum nú í seinni tíð ?
Minni á pistilinn "ákvarðanataka" hér neðar á síðunni um leið og ég fagna því að menn séu að standa vaktina.

Kv.
HH..

11/04/2006 2:25 AM  
Anonymous Anonymous said...

bt.is hefði sparað þér alla þessa bið :) Svo er BT í Skeifunni auðvitað eina alvöru BT búðin.

11/04/2006 12:00 PM  
Anonymous Anonymous said...

Tjah....
Býður ekki Davíð Þór upp á veggja- og súlulausnir við texagerð?

11/04/2006 3:13 PM  
Anonymous Anonymous said...

Enn leiðinlegra þykir mér þegar simsvararnir ljúga upp í opið geðið á mér, líkt og gert er í stofnuninni sem eitt sinn hét Búnaðarbankinn. Þar hef ég margoft heyrt ómþýða röddina mala "Þú hefur náð sambandi við þjónustufulltrúa KB banka." Þetta er augljóslega helber lygi, þar sem ég er ekkert búin að ná sambandi við neinn þjónustufulltrúa, heldur símsvaramaskínu. Nær sannleikanum væri að segja "Þú ert hér með komin í símabið eftir ákveðnum þjónustufulltrúa"

11/09/2006 10:57 AM  

Post a Comment

<< Home