Sunday, October 15, 2006

Mér er misboðið


Margt er það sem fer í taugarnar á mér og misbýður réttlætiskennd minni og sumt svo gróflega að ég finn mig knúinn til að segja frá því.

Álagning smásala á hinar ýmsu vörutegundir er oft með ólíkindum og hafa margir tjáð sig um hana í ræðu og riti undanfarið, sérstaklega í ljósi kosningarbrellu saumaklúbbsins í stjórnarráðinu með virðisaukann. En enginn hefur enn sagt orð um þá hrikalegu staðreynd að ef maður kaupir sér vínflösku með mat á veitingahúsi getur maður hæglega gert ráð fyrir 200% álagningu á það verð sem viðkomandi vín kostar í ríkinu og er þá búið að smyrja vel á innkaupsverðið. Vínflaska (í þessu dæmi Malbec frá Argentínu) kostar kr.1,390 í einokunarsjoppunni en er seld á kr.4,190 á ágætu veitingahúsi í Reykjavík. Lái mér hver sem vill að ég sé fúll yfir þessu en þarna er um þreföldun á verðinu (1390 x 3 = 4170) að ræða. Hvaða monkey business er þetta ?

Ég er ekkert að hafa á móti því að menn fái eitthvað fyrir snúð sinn, að veitingamenn sjái gróða af starfseminni, en þreföldun á verði vínflösku kallar á einhverjar útskýringar. Hvert fara þessir peningar, þ.e.a.s. eftir að "eðlileg" álagning veitingamannsins hefur verið dregin frá ? Er það virkilega svo að mönnum finnist þeir ekki "græða" neitt á þessu nema þeir nái inn tvöföldum útlögðum kostnaði á hverri einustu sölu ?

Ef ekki eru til á þessu okri einhverjar skýringar, sem hægt er að kyngja sem eðlilegum, skora ég hér með á veitingamenn að lækka verð á vínum þeim sem þeir bjóða til sölu í sínum húsum. Það skilar sér örugglega fljótt í aukinni traffík á staðina þeirra og aukinni sölu, sem aftur þýðir meiri veltu og betri afkomu fyrir viðkomandi. Og betri þjónustu fyrir viðskiptavininn þannig að allir "græða".

Og er það ekki markmið í sjálfu sér ?

11 Comments:

Blogger Bastarður Víkinga said...

Þær ástæður sem ég hef heyrt fleygt eru að áfengið er ofrukkað til að koma á móts við þeim háa kostnaði sem fylgir vínveitingaleyfinu.

(Sem mér finnst veik afsökun.)

10/16/2006 10:43 AM  
Anonymous Anonymous said...

Án þess að vita það nákvæmlega held ég að þessi háa álagning á víni sé ein helsta tekjulind veitingahúsa, þ.e. álagning á matinn sjálfan sé ,,lítil" og rekstur veitingahúsa sé hífð upp með áfenginu. Ég þekki þetta þó ekki nákvæmlega en fannst eins og þessi punktur hefði komið í umræðunni fyrir mörgum árum síðan.

10/17/2006 9:22 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Jú rétt er það, þetta hefur borið á góma áður. En það skilaði engu, hvorki upplýsingum né árangri. Eftir sitjum við neytendurnir og greiðum þrefalt verð fyrir vín og 2400 krónur fyrir eina kjúklingabringu með smá sveppasósu og grjónum. Ekki er mér kunnugt um heildsöluverð á kjöti til veitingamanna en ég veit hvað pakki með 4-5 bringum kostar út úr búð.
Þegar svo við bætist að vera afgreiddur af viðvaningi en þurfa samt að greiða þjónustugjald fara að renna á mann tvær grímur.

Sem betur fer eru þó til veitingahús sem bjóða góðan mat og góða þjónustu á skaplegu verði. Þau falla samt flest í vínálagningargryfjuna og það bitnar á kúnnanum.

10/18/2006 9:58 AM  
Blogger Bastarður Víkinga said...

Ég hef fasta trú á því að eina leiðin til þess að kenna frónbúum betri drykkjuhætti er að lækka vínverð.

Maður þarf nú ekki nema að sjá muninn á bjór- og vodkakynslóðunum til að sjá hvað betra aðgengi að veikvökvum bætir fylleríssiði fólks.

Heyr! Heyr!

10/18/2006 10:34 AM  
Anonymous Anonymous said...

Það sem er vitlausast í þessu er að það er sama álag á víni á öllum týpum veitingahúsa. Það er skiljanlegt að hús eins og Grillið, VOX, Sjávarkjallarinn, Silfur eða Holtið svo einhver séu nefnd (þetta er ekki tæmandi listi) leggi mikið á sína vöru, bæði vín og mat, enda er sú starfsemi sem þar fer fram kostaðarsöm. Þar eru til dæmis áhöld eins og glös og diskar og hnífapör yfirleitt dýr vara. Þar er það fagfólk sem gengur um beina sem kostar líka sitt . Mér finnst semsagt fullkomlega eðlilegtsitt líka að Veitingahús í þessum hæsta klassa leggi allt upp í 250-300% ofan á innkaupsverð á víni.

þarf nú líka að horfa í fleiri áttir áður en það er farið að úthrópa veitingamenn sem okrara. Ríkið leggur sitt á vín í formi skatta og gjalda. Eins leggur heildsalinn líka sitt á flöskuna áður en hún er keypt en ekki sé ég heildsala kallaða okrara eða illmenni hér á þessari síðu. ÁTVR leggur líka gjald á hverja flösku, líklega til þess að maka sinn krók....

Ég verð að segja það hjörtur að hér mfinnst mér talað af vankunnáttu og veitingamenn settir undir sama hatt. Ég get í sjálfu sér verið sammála þér í því að það sé óeðlilegt að borga það sama fyrir vínflösku á Vitabar og VOX. enda kostnaður við hvern gest ekki nálægt því sá sami. En sums staðar á þetta fullan rétt á sér og er beinlínis nauðsynlegt fyrir veitingamenn til að halda velli.

Ég hvet þig til þess að skoða álagningu á mat og vín á hinum norðurlöndunum, jafnvel meira að segja í BNA og þá áttu eftir að komast að því að Íslensk háklassa veitingahús standast fyllilega þann samanburð.

Vinnu minnar vegna treysti ég mér ekki til þess að koma hér fram undir nafni, enda á ég hagsmuna að gæta og nafnabirting gæti komið í veg fyrir hlutlausa umfjöllun um mig og mína ef að því kemur einhverntíma

10/18/2006 2:30 PM  
Anonymous Anonymous said...

Er þetta ritskoðað kommentakerfi?

10/18/2006 2:34 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Takk fyrir þetta innlegg.
Ég játa fúslega vanþekkingu á frumskógi tolla og álagninga og ekki var ætlun mín að úthrópa veitingamenn almennt sem okrara. Bið ég þig að lesa aftur setninguna og sjá að það var okrið sjálft sem ég vildi fókusa á, ekki hverjir standa helst að því. Hinsvegar birtist okrið okkur neytendunum sem uppsprengt verð komið út yfir öll mörk velsæmis. Og okur er það sannarlega þegar eitthvað sem kostar hlægilega lágar upphæðir í nágrannalöndunum kostar hjá okkur tvö og jafnvel þrefalt það sem maturinn á viðkomandi veitingastað kostar. Ég gaf mér það í greininni að útsöluverð í Ríkinu væri með tollum, gjöldum og álagningu heildsalans, verðið eftir það tæki þá bara á sig álagningu veitingahússins. En sennilega bætast líka tollar og gjöld á í því þrepi. Hvað sem því líður hljótum við að vera sammála um það að verð á vínu er allt of hátt á veitingahúsum landsins og þeim mun hærra sem umhverfi, þjónusta og matur er lakara á viðkomandi stað.

Svo vil ég, að gefnu tilefni, fullvissa þig um að ég læt aldrei skoðanir og álit manna hafa áhrif á umfjallanir og dóma mína um veitingastaði. Ég tek ábendingum fúslega og þú mátt hafa og segja þína skoðun óhræddur, í.þ.m. við mig.

Kv.
HH

10/18/2006 2:49 PM  
Blogger þórhallur said...

Þakka þér fyrir linkinn Hjörtur minn, ég veit alveg að þú vel hvað ég heiti ;)

10/23/2006 11:08 AM  
Blogger Davíð Þór said...

Sæll og blessaður, Hjörtur minn.

10/24/2006 12:49 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég get bent á bissness þar sem viðgengst ennþá meira okur: Geisladiskar! Þeir kosta um tíkall stykkið í framleiðslu og kanski um fimmtíukall komnir til landsins og búið að greiða keisaranum það sem honum ber.
Svo eru herlegheitin seld á tvöþúsundkall plús útí sjoppu (50*40+ = 2000+). Fertugföldun!!!
Er þetta hægt?
Já og þú af öllum ættir að vita að hlutirnir eru þess virði sem menn eru tilbúnir að greiða fyrir þá. Þú ert ekki bara að kaupa hlutinn sjálfan (vínflöskuna eða geisladiskinn) heldur upplifunina (umhverfið, stemningin/lögin á diskinum)...
og hafðu það... HAHH!

10/25/2006 11:25 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Já, einmitt það. Og svo er ég þá væntanlega að borga fyrir tjúnerana og wahwahpedalana líka, og pepsíið sem drukkið var í stúdúóinu á meðan lögin voru spiluð inn. Eins er ég þá að borga fyrir olíuna á traktorinn hjá bóndanum sem á akurinn sem þrúgurnar vaxa á, þegar ég kaupi mér vínflösku. Þetta er jú allt hluti af tilurð þess sem ég er að kaupa, og partur af þeirri stemmningu sem fólgin er í vörunni (víninu, tónlistinni etc.)
Ég get sannarlega tekið undir það að verð á geisladiskum er fáránlega hátt en ég er ekki tilbúinn að samþykkja þau rök að verð á vöru yfirleitt sé hátt vegna þess að neytendur séu svo tilbúnir að greiða hátt verð fyrir.
Álagningarprósenta hinna ýmsu afæta "along the way" á leið vörunnar frá framleiðanda til neytanda hefur lítið með vilja neytendanna sjálfra að gera að mínu viti. Eins er ég á því að þegar ég kaupi vínflösku eða geisladisk þá er ég að kaupa nákvæmlega það; vínflösku eða geisladisk. Verðið ætti að fara eftir gæðum innihaldsins (og gerir það reyndar í víninu í flestum tilfellum) en ekki eftir álagningu ríkisins eða kaupmannsins. Það fer svo eftir minni persónulegu afstöðu hvort "upplifunin" er einhver eða ekki. Fyrir hana sem slíka er ég ekki tilbúinn að greiða uppsprengt verð.
Og hananú!
HH..

10/25/2006 2:36 PM  

Post a Comment

<< Home