Wednesday, November 01, 2006

Meðalhóf og lagning bifreiða

Ég leyfi mér, að gefnu tilefni, að birta aftur brot úr pistli sem ég skrifaði fyrir nokkru síðan.

Umræðan snérist um meðalhófsreglu þá sem löggæslumenn gjarna bera fyrir sig þegar störf þeirra sæta gagnrýni.

"Sýslumaðurinn í minni sýslu gætir meðalhófs, reyndar svo vandlega að erfitt getur reynst að fá viðbrögð hans við tilkynningum um afbrot. Í mínu hverfi eru einstefnugötur og eru skýrar reglur, boð og bönn, um að bílum skuli ekki lagt vinstra megin við þær. Sé það gert þrengir mjög að eðlilegri umferð um hverfið og neyðarbílar eiga erfitt um vik. Dæmi eru um sjúkraflutningabíla sem komust ekki að húsi í tvígang með skömmu millibili vegna ólöglega staðsettra bíla. Í öðru tilfellinu var um að ræða bráða lífshættu vegna veikinda.

Ítrekaðar tilkynningar til lögreglu hafa engan árangur borið þrátt fyrir að um augljós umferðarlagarbrot sé að ræða. Til samanburðar mætti benda á að ef menn leggja við brunahana eða þannig að skyggir á umferðarmerki við gatnamót eru þeir umsvifalaust áminntir eða sektaðir. En á meðan sýslumaður, sem yfirmaður lögreglunnar, kýs að setja kíkinn fyrir blinda augað halda menn uppteknum hætti og leggja báðum megin gatnanna. Spurningunni um hvort ekki eigi alltaf, í öllum tilvikum , að fara eftir reglunum er svarað með umræðu um skort á bílastæðum í íbúðarhverfum.

Þegar einhver brennur inni vegna þess að slökkviliðið komst ekki inn götuna kemst væntanlega hreyfing á málið. Heilahimnubólga tveggja ára barns nægði ekki til að hrista slenið af mönnum. Þarna er meðalhófið kannski komið í einhverjar ógöngur."

Enn leggja menn bílum sínum ólöglega og þannig að truflar eðlilega umferð um hverfið þar sem ég bý.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home