Tuesday, October 31, 2006

Vegna fréttar í Fréttablaðinu

Umræðan um brottrekstur minn frá Rás 2 þyrfti að snúast um annað en mína persónu og einhvern slappan, súran brandara sem mislukkaðist í lok þáttar okkar Magnúsar Einarssonar.

Skoða þarf málið í heild og í hinu stóra samhengi allra hluta.

Það, að þessi tiltekni þáttur verður ekki á dagskrá í vetur í því formi sem við M. hefðum kosið er ekki upphaf og endir alls. Maður kemur í manns stað og eflaust verður úr hin ágætasta dagskrá.

Ekki koma allir dagar í einu og vonandi eigum við félagarnir eftir að stýra einhverjum öðrum þætti saman, þó síðar verði.

Og svo er líka hægt að skoða málið með þessum gleraugum: http://www.baggalutur.is

12 Comments:

Blogger Drífa Hrönn said...

Ég gat ekki annað en hlegið þegar félagarnir í þættinum Capone á Xfm tóku brottrekstur þinn frá Rás2 fyrir í morgun.

Þeir reyndu að hringja í þig um 8 leitið og ætluðu að bjóða þér pláss í sínum þætti, en ég þóttist viss um að Howser gæti ekki svarað í símann svona snemma.

Þú yrðir annars skemmtileg viðbót við þeirra ágæta þátt.

10/31/2006 1:09 PM  
Blogger Davíð Þór said...

Guði sé lof að þessi Sigrún var ekki yfir útvarpi þegar ég var dagskrárgerðarmaður! Ég hefði ekki verið langlífur í starfi. Ef málið gekk ekki út á annað en það sem stendur í Fréttablaðinu í dag er þetta nú sú mesta viðkvæmni sem ég hef heyrt um. Eru allir úr feneyskum kristal eða hvað? Fara allir í mask ef í þá er hnippt núorðið? Og það Purrkur Pilnikk af öllum mönnum? Öðruvísi mér áður brá. Sorglegt þegar gamlir pönkarar gerast hörundsárar teprur. Ég hélt að þróunin væri í átt til meira frjálsræðis - minni yfirritstjórnar, en ég sé nú að útvarp var miklu frjálsara fyrir fimmtán árum en það er í dag. Hver dó og gerði þessa Sigrúnu að dagskrárlöggu ríkisins?

10/31/2006 1:31 PM  
Anonymous Anonymous said...

Baggalútur er með frétt sem tengist málinu.
Annars eru viðbrögð dr. Sigrúnar þannig að halda mætti að hún hefði stýrt Kínverska ríkisútvarpinu í miðri menningarbyltingunni.

10/31/2006 2:30 PM  
Anonymous Anonymous said...

er alveg bit á þessum brottrekstri, fyrr má nú vera viðkvæmnin.

baggalútur góður að vanda!

10/31/2006 2:45 PM  
Anonymous Anonymous said...

Er þetta rétt með trommukjuðann??

10/31/2006 4:38 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þetta mál er skondið. Hversvegna rjúka þessir “listamenn” upp í bræðiskasti þótt á það sé minnst að þeim sé úthlutað fé úr opinberum sjóðum? Er það eitthvað til að skammast sín fyrir? Þessir ágætu fjöllistamenn sem hafa með tjáningu sinni gert líf okkar hinna ríkara, hlaupa klagandi til yfirmanna RUV afþví að kollegi þeirra tjáði sín viðhorf í útvarpsþætti sínum. “Rekið manninn – áminnið manninn, hann sagði að við værum á styrkjum”.

Yfirmaður Rásar 2, með puttana á púlsinum á Agureyri, höfuðstað Norðurlands, bregst skótt við og rekur dagskrárgerðarmanninn. “Þú fórst langt yfir stirkið, svona segir maður ekki í útvarpi allra landsmanna.” Styrkmenn, framverðir tjáningarfrelsisins, hafa sigrað.
Sumt má segja og annað má ekki segja.

Og nú er komið fordæmi. Ef einhver segir eitthvað í ríkisfjölmiðlana sem manni er ekki þóknanlegt, þá klagar maður norður og viðkomandi er rekinn. Sem stuðningsmaður RUV og afnotagjaldanna er mér brugðið, sérstaklega nú þegar nýtt frumvarp um stofnunina liggur á borðum alþingsmanna þar sem undirstrika á sjálfstæði hennar. Hvaða stjórnunarhættir eru þetta og hverra hagsmuna er verið að vernda með svona uppákomum. Er þetta sú framtíð sem við sjáum fyrir okkur að þrýstihópar margskonar leggi línurnar um hvað má segja og hvað má ekki segja. Ef svo er verður þessi stofnun fljótt sjálfdauð, kannski er hún það nú þegar.

10/31/2006 5:54 PM  
Anonymous Anonymous said...

Nú er ég búinn að hlusta á hljóðdæmi, þar sem fram eru mælt af munnum tveim, orð sem ég get ómögulega fundið nokkra meinbugi á.
Þarna á ég að sjálfsögðu við ummæli um Gus Gus, svo það fari nú ekki á milli mála.

Af viðbrögðum Dr. Sigrúnar dreg ég svo þá ályktun að ef hún væri búsett í BNA, ætti hún lögheimili í biblíubeltinu og styddi George Bush.

Nudge, nudge, know what I mean? Ay?

10/31/2006 8:49 PM  
Anonymous Anonymous said...

Góðan og blessaðan...

Þetta mál er vitanlega hið athyglisverðasta og á því ýmsar hliðar sem vert er að ræða. Ekki síst neyðarlegan vandræðagang sem stofnunin þarf við að eiga. Ég fannt til grein sem ég reit fyrir einhverjum sex árum fyrir hann Egil Helgason sem var að reka einskonar netmiðil á Vísi þá. (Og er enn.) Ég fæ ekki betur séð en þessi orð eigi enn við. (Djös, hvað það er gaman að vitna í sjálfan sig!)

Kveðja,
Jakob


Hver er höfuðstaður Norðurlands?

Fyrir nokkru kom Björn Bjarnason fram með hugmynd sem laut að því að flytja starfsemi Rásar 2, eða hluta hennar, til Akureyrar. Björn sló þessu fram einsog þetta væri skyndihugdetta, einhver fluga sem flaug í koll hans þar og þá líkt og hugur hans væri sístarfandi og frjór. En Björn er einhvern veginn ekki maður sem slær einhverju fram svona "from the top of his head". Sjálfsagt hefur hann legið yfir þessu lengi og þótt þetta býsna snjöll og úthugsuð flétta af sinni hálfu. Enda leið lygilega skammur tími þar til Útvarpsráð var búið að afgreiða málið og ýmsir pótintátar á Björns vegum voru komir í fullt starf við að útfæra hugmyndina og koma henni til framkvæmdar.

Í raun er hér alls ekki um eins ómerkilegt mál að ræða og Egill Helgason gefur í skyn þegar hann segir á heimasíðu sinni: "Öruggt má svo telja að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi enn eftir að hefja upp mikla kveinstafi yfir slæmri meðferð á sér." Egill telur í góðu lagi að starfsemin flytjist norður en hinsvegar vandséð að þessi ráðstöfun hafi mikinn sparnað í för með sér!

Varasamt er að rugla þessari umræðu sem slíkri saman við það hvort rétt sé að selja Rás 2 eða ekki. Hvort sem þær hugmyndir koma til framkvæmda eða ekki þá hlýtur í það minnsta að vera allra hagur að Rás 2 sé rekin að viti, eða hvað?

Þegar allt kemur til alls hefur í gegnum tíðina verið grátbroslegt að fylgjast með vandræðagangi Sjálfstæðisflokksins þegar Ríkisútvarpið er annars vegar. RÚV er nefnilega fyrirbæri sem opinberar glögglega hentistefnuna og þá tvíhyggju sem ræður för þegar flokkurinn er annars vegar. Man einhver þá tíma þegar Sjálfstæðismenn kvörtuðu sáran undan "kommunum" á RÚV og hversu grátt þeir voru leiknir af þeim í áróðurskrytum ýmsum? Hefur einhver tölu á því hversu oft hafa verið samþykktar ályktanir á landsfundi þess efnis að selja beri RÚV, í það minnsta Rás 2? Þegar svo Sjálfstæðismenn náðu völdum í menntamálaráðuneytinu réru þeir að því öllum árum að koma "sínum" mönnum þar að. Sjálfsagt hefur þeim í Valhöll þótt gott að vita af mönnum með rétt flokksskírteini við stjórnvöl og á gólfi hins sterka ríkisfjölmiðils einkum þegar Jón Ólafsson, af öllum mönnum, þótti orðinn ógnvænlegur með sínu blöðru og bolaútvarpi. Þá máttu þessar ótal ályktanir landsfunda kyrrar liggja og prinsippin orðin of dýr. Meðan ekki voru "réttir" menn sterkir á hinum frjálsa útvarpsmarkaði var skömminni skárra að hafa ríkisútvarp. Réttur flokkur réði í það minnsta þar á bæ og aukageta að gera argað fyrirbærinu stjórnlaust á auglýsingamarkaðinn og koma þannig höggi á hinn stórhættulega Jón.

Engan kalkúleraðan samsæriskenningasmið þarf til að benda á þessar staðreyndir og hversu kjánalega sem það hljómar þá hljóta þær að renna stoðum undir þær furðulegu hugmyndir að í vandræðagangi sínum sé Sjálfstæðisflokkurinn að veikja RÚV sem stofnum. Hvernig gengur þetta upp? Hver er tilgangurinn? Jú, að geta staðið við áðurnefndar ályktanir en tímasetningin verður þá að vera rétt og stofnunin að hafna í réttum höndum fyrir "sanngjarnt" verð. Hagsmunir almennings skipta hér engu fremur en fyrri daginn hvernig sem á það er litið. Þetta er auðvitað einsog lélegur reifari.

Hver sá sem lítur á þennan flutning Rásar 2 til Akureyrar hlutlausum augum hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu að hugmyndin sé heimskuleg í besta falli. Henni fylgir ærinn kostnaður og þrátt fyrir margumtalaða möguleika sem felast í nýrri tækni þá nærist fjölmiðill á mannlífi í sínu nánasta umhverfi. Sumir minnast reyndar með hlýju atriðis úr myndinni "Where art thou brother?" þegar flutt er lagið "Man of constant sorrow" í útvarpsstöð sem fjarri er alfaraleið. En ég leyfi mér að fullyrða að fáir entust til að hlusta lengi á þá útvarpsstöð. Rétt er að spyrja Björn, sem í orði kveðnu trúir á markaðinn: Ef þetta er svona frábær hugmynd af hverju hefur þá engum þeim sem stendur í rekstri fjölmiðla séð sér gróðavon í að reka útvarpsstöð á landsvísu frá Akureyri?

Líklega reyna menn, þegar ljóst má vera að engin rök þegar flutningur Rásar 2 norður er annars vegar halda vatni, að fela sig bak við hina fáránlegu byggðastefnu ríkisstjórnarinnar. Segja má að byggðir landsins hafi tórað þrátt fyrir byggðastefnuna, en það er auðvitað efni í annað vers. Pétur Halldórsson á Akureyri telur sér skylt að verja hugmyndina, sig og sína í pistli á vefsetri Egils, pistli sem gæti heitið: Víst er gaman á Akureyri! Hann segir að þó einhver framleiði efni á Akureyri þurfi það ekki endilega að vera Akureyrskt efni. Það getur verið landsmál og jafnvel ekki síður heimsmál. Má heita furðulegt að maður sem starfar við fjölmiðla átti sig ekki á mikilvægi þess að fjölmiðill sé í návígi við þá atburði sem fjallað er um hverju sinni. Hér að endingu er gáta fyrir Pétur: Hver er höfuðstaður Norðurlands? ... Nei, það er ekki rétt, Pétur minn. Rétt svar er Reykjavík.

Jakob Bjarnar Grétarsson

11/01/2006 11:23 AM  
Anonymous Anonymous said...

Æi þetta var rosalega klaufalegur „brandari“ hjá ykkur. Svona á ekkert heima í útvarpi allra landsmanna.

11/06/2006 12:34 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Einhverjir hafa svo aftur þá skoðun að það megi líka segja "vonda" eða "klaufalega" brandara í útvarpi "ALLRA" landsmanna, ella væri það útvarp "SUMRA" landsmanna. Ekki eru allir brandarar í þessu tiltekna útvarpi fyndnir og algerlega heppnaðir, sem betur fer þá er enn rúm til að gera betur. Hitt væri áhyggjuefni ef allt sem fram fer í Efstaleiti væri orðið fullkomið og hafið yfir gagnrýni.

11/06/2006 3:52 PM  
Blogger Hnakkus said...

Ég þarf að gera þér Greiða Hjörtur. Þú hefur alltaf verið duglegur að linka á mig.

Ég ætla að éta Gus Gus og gera orð þín þar með að veitingarýni. Varla hægt að bölsótast út í þig fyrir að vinna þína vinnu!

11/06/2006 4:29 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Einmitt, hér eftir heitir cous cous, Gus Gus á mínu heimili, þökk sé þér.

Kv.
HH..

11/07/2006 12:57 AM  

Post a Comment

<< Home