Wednesday, December 27, 2006

Alúminíum !

Fékk geisladisk í jólagjöf...frá Alcan. Fyrirtæki sem hét alltaf ÍSAL-"íslenska álfélagið" meðan ég var að vaxa úr grasi. Þá var borin virðing fyrir þessu apparati og það þótti vera góður vinnustaður sem bjó vel að sínu fólki. En tímarnir breytast og mennirnir með. Nú er mönnum sagt upp með litlum eða engum fyrirvara eftir allt að þriggja áratuga starf og smásmugulegar, ómerkilegar ástæður notaðar til að losna við starfsmenn þegar hyllir undir starfslok þeirra með öllum áunnum réttindum. Svo eru einhverjir nýbúar (fólk af erlendu bergi brotið, farandverkamenn frá Evrópu, efnahagslegir flóttamenn frá fyrrum ráðstjórnarríkjum, pólitískir flóttamenn frá fyrrum einræðisríkjum... lesarinn athugi að hér má setja inn hvaða þá skilgreiningu sem hver og einn vill hafa um verkafólk sem ekki er fætt hér og/eða uppalið) ráðnir í staðinn, fólk sem er tilbúið að vinna sóðadjobb fyrir minni pening en Íslendingar láta bjóða sér. Og vera réttindalaust í verkalýðsfélagslegum skilningi.

(Og hér skulum við aðeins staldra við og kalla skóflu - skóflu. Hættum öllu kjánalegu argaþrasi um hvaðan fólk er og hvaða rétt hver hefur til að setjast hér að og stunda vinnu. Drögum umræðuna ekki niður á svo rasískt og ómerkilegt plan. Umræðan ætti fremur að snúast um framkomu álrisans við sína verkamenn og það fullkomna virðingarleysi sem áratugalangri baráttu verkalýðsins á Íslandi, fyrir bættri stöðu, er sýnd. Þegar þremur áratugum úr lífi manna er sturtað niður eins og hverjum öðrum úrgangi og þeim sagt að éta það sem úti frýs, hlýtur hver sá sem hefur sjálfur verið á vinnumarkaði eða þekkir stöðu mála af afspurn að hafa á því skoðanir.)

OG HANA NÚ !!!

Örvænting Alcan skín í gegn, nú á að tryggja nokkur þúsund atkvæði í komandi kosningu um stækkun verksmiðjunnar með gjöfum og skjalli. Ekki var þetta alveg nógu augljóst þegar fyrirtækið bauð Hafnfirðingum á tónleika Bo í höllinni eða á Haukar/FH kappleikinn en nú hefur gríman verið felld og á jólakorti sem fylgdi geisladisknum (upptaka af sömu tónleikum) biðlar Rannveig Rist til bæjarbúa um "málefnaleg skoðanaskipti til að mynda heilbrigðan grunn að vel ígrundaðri afstöðu bæjarbúa".









Svo mörg voru þau orð.


En Lúðvík..... HALLÓ !!!! --- Hvað er í gangi á þessari mynd af ykkur Rannveigu ???

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Mér finnst það í hæsta máta ósmekklegt og jafnvel nálgast það að vera óhugnanlegt hvernig proba ganda (ekki hljjómsveitin hanns Mána) maskína Alkan fær að vaða uppi þarna í Hafnarfirðinum, ausa yfir fólk gjöfum og sponsera allt mögulegt eins og fótboltaleiki og listviðburði. Verst er að það heyrast ekki nándar nærri nógu háværar mótmælaraddir gegn þessu.

Cant buy me love, sungu Bítlarnir einu sinnni en eins og Alcan veður áfram, ekki bara í Hafnarfirði heldur líka á Reyðarfirði, er engu líkara en að það hafi breyst síðan það góða kvæði var ort. Nú vil ég hvetja fólk til þess að Láta í sér heyra og mótmæla kröftuglega þessari vitleysu.

Annað mál minn kæri Hjörtur.

"Svo eru einhverjir Nýbúar ráðnir í staðinn..."

Vorum við ekki búnir að fara í gegnum rasistaumræðuna, þar sem meðal annars nöfn af erlendu bergi brotin komu við sögu?

Ég legg til að þessi setning verði ritskoðuð og henni breytt í þessum annars þarfa og ágæta pistli þínum, því svona tal gerir ekki annað en að ýta undir fordóma gegn útlendingum.

12/28/2006 12:20 AM  
Anonymous Anonymous said...

P.s.

Sendu diskinn til baka!

12/28/2006 12:25 AM  
Anonymous Anonymous said...

Propaganda var að mig minnir svissneskt poppband sem var vinsælt á níunda áratug síðustu aldar og hefur aldrei (að ég held)tengst neinum Mána (þú ert líklega að tala um Mána Svavars og hljómsveitina Pís Of Keik sem hann hélt úti á sama áratug með Ingibjörgu Stefánsdóttur og Júlíusi Kemp). En áróðurinn hjá ÍSAL er skelfilegur en ég trúi ekki öðru en að við Hafnfirðingar gleypum ekki við þessu. Bestu kveðjur.

12/28/2006 2:34 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Já, enn og aftur þarf að stinga niður penna (pikka á lyklaborð) til að minna suma á að "nýbúi" er ekki skammaryrði. Eitthvað þurfa allir hlutir að heita og á meðan ekki er stungið uppá betra orði nota ég "nýbúi" yfir útlendinga sem flytja hingað til lands. Gildir einu í mínum huga hvaðan það fólk er, hverju það trúir eða hvernig húð þess er á litinn. Ef það er "nýtt" hér á landi og ætlar að "búa" hér er "nýbúi" ágætis samheiti. Frændur okkar á Norðurlöndum nota ýmis önnur orð, svíar segja t.a.m. "svartskalle" þegar þeir vilja niðra suðræna menn (sem reyndar eru oftar en ekki svarthærðir einhverra hluta vegna). Flestar þessar nafngiftir skandinava eiga það sameiginlegt að vera ruddalegar og niðurlægjandi fyrir viðkomandi, svona svipað og ef við segðum "niggari" um hörundsdökkan mann.

"Nýbúi" er að því leiti betra orð að það er meira lýsandi fyrir stöðu viðkomandi en þjóðerni, útlit eða trú. Þannig getur t.d. Þjóðverji, Frakki, Ítali, Spánverji eða Pólverji hæglega verið "nýbúi" jafnt og hörundsdekkra fólk frá fjarlægari heimshlutum.

Að ætla stöðugt að ómerkja umræðuna með kjánalegu þvaðri um uppruna fólks er eingöngu til þess fallið að drepa á dreif aðalatriðum málsins. Sem upplýstur borgari þessa lands tel ég mig hafa fullan rétt á að hafa skoðun og deila henni án þess að þurfa stöðugt að skilgreina hugtök sem allur almenningur skilur og notar án fordóma.

"Nýbúi" er eitt slíkra hugtaka og áskil ég mér fullan rétt til að nota það í greinum mínum þegar ég ræði um innflutt fólk af erlendu bergi brotið. Og það þó faðir minn heitinn hafi flutt hingað rúmlega þrítugur að aldri og hafi búið hér þar til hann lést á sextugsaldri. Sjálfur er ég fæddur í Hafnarfirði og hef búið í þeim bæ allt mitt líf, utan nokkura ára sem ég var "nýbúi" í Californíu og Svíþjóð.

Rasískum kjánakommentum og dylgjum um fordóma mun eftirleiðis verða eytt úr kommentakerfinu þar sem slíkt þvaður er sjaldnast umræðunni til framdráttar.

Þeir sem ala á slíkum ranghugmyndum eru beðnir að fara annað með sína þröngsýni

Gleðilegt nýtt ár
HH..

12/29/2006 6:11 AM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Propaganda var germanskt syntapoppband, væntanlega verið að rugla því saman við Cosa Nostra, eitís-sveit Mána metsöluhöfundar.
Unnu með Trevor Horn og fleiri góðum mönnum.

En elsku "nafnlaus", ekki get ég fyrir mitt litla líf skilið hvað þú sérð neikvætt við notkun pistlahöfundarins við orðið "nýbúi". Mér finnst "nafnlaus" miklu ljótara orð.

12/29/2006 10:37 AM  

Post a Comment

<< Home