Monday, November 13, 2006

Tapasbarinn, taka þrjú

Mér vitanlega er Tapasbarinn með opið eldhús lengst frameftir af veitingahúsum borgarinnar. Má vera að einhverjir hafi opið jafnlengi eða lengur og þigg ég ábendingar um þá staði, en þangað til ég veit betur hefur Tapasbarinn vinninginn. Afgreitt er eftir matseðli og full þjónusta er veitt þó komið sé fast að miðnætti. Hentar vel svona B fólki eins og mér. (A fólk fer í gang fyrir allar aldir og er komið í ró fljótlega eftir fréttir sjónvarpsins, B fólk sefur frameftir en er í stuði langt fram á kvöld).
Heimsóknin að þessu sinni var ekki síðri en sú næsta á undan, jafnvel betur heppnuð. Sami þjónn sinnti okkur mestanpart og hann sýndi enn að honum leiðist ekki í vinnunni. Stúlkurnar eru ekki eins ákveðnar en eru staðnum til sóma og prýði. Sú sem kom með fyrsta réttinn á borðið, kengúrukjöt, hefði þó að ósekju mátt presentera það af meiri spennu, eins framandi og það er. Þess í stað smellti hún diskunum á borðið og sagði lágt, um leið og hún snérist á hæl; "kengúra" ! Og þegar ég kváði sagði hún aðeins hærra "KENGÚRA" ! Ekki orð um eldunaraðferð eða meðlæti. Engin mystík.
Þetta var eina atriði kvöldsins sem hægt er að gagnrýna með þykkju, allt annað var frábært og þjónninn góði kom strax oní kengúruna með annan rétt sem hann fylgdi úr hlaði með lýsingum sem gerðu hann freistandi og spennandi (þ.e. réttinn). Sama vín var drukkið og í síðustu heimsókn og fer það vel með fjölbreyttum réttunum. Við völdum samsettan seðil þar sem ákveðnir eru tveir réttir en kokkarnir ráða þremur. Allir réttirnir voru bragðgóðir og vandaðir og við fengum að vita um innihald og aðferðir. Kengúran, sem kom fyrst, var frábær og eins var humarinn góður. Sístur var nýr hörpudisksréttur en trúlega var hráefninu um að kenna því sultaðir tómatarnir sem fiskurinn hvíldi á voru bragðgóðir.

Fyrir utan opnunartímann þá hefur tapasbarinn margt annað sem freistar endurkomu. Góður, fjölbreyttur matur, hlýleg og persónuleg þjónusta og skemmtilega "útlenskt" umhverfi, svolítið hávært og greinilega gaman á öllum borðum.

9 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Málvöndur eins og þú á að vita að freistandi er ekki með ypsiloni.

11/13/2006 4:36 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Shit ! Enn ein rýnin gjaldfallin vegna stafsetningarvillu. Athuga ber þó að Tapasbarinn er samt góður staður og freistandi.
Þakka ábendinguna.
Kv.
HH..

11/13/2006 7:22 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þess má til gamans geta að ég fékk mér eitt sinn kengúruborgara, þá staddur á flugsýningu á Farnborough.

Um var að ræða kjötsneið í hamborgarabrauði, ákaflega fíngert og meyrt kjöt.

Há abát ðett?

11/14/2006 8:32 AM  
Anonymous Anonymous said...

Það ber líka að hafa í huga að góður matsölustaður er staður sem að stendur undir því sem að hann gefur sig út fyrir að vera. Þar að leiðandi er Bæjarins bestu góður staður í þeirri merkingu og ætti því skilið að fá 3-5 stjörnur fyrir það. Hamborgarabúllan hjá Tómasi er stöðug og góð. Plokkfiskur á cafe Rosenberg er helmingi ódýrari en hjá Úlfari á þremur frökkum, en er hann helmingi betri þar? Vondur staður er hins vegar staður sem að stendur ekki við loforðin,sem mætti lesa í sem; verðlag, tegund matar og þjónustustigið á staðnum sjálfum. Í mínum huga eru gæðin á matreiðslunni hér á landi nokkuð góð, og fáir staðir sem að verðskulda að sé talað niður til þeirra. þó þeir séu vissulega til.

11/16/2006 2:35 PM  
Anonymous Anonymous said...

Það ber líka að hafa í huga að góður matsölustaður er staður sem að stendur undir því sem að hann gefur sig út fyrir að vera. Þar að leiðandi er Bæjarins bestu góður staður í þeirri merkingu og ætti því skilið að fá 3-5 stjörnur fyrir það. Hamborgarabúllan hjá Tómasi er stöðug og góð. Plokkfiskur á cafe Rosenberg er helmingi ódýrari en hjá Úlfari á þremur frökkum, en er hann helmingi betri þar? Vondur staður er hins vegar staður sem að stendur ekki við loforðin,sem mætti lesa í sem; verðlag, tegund matar og þjónustustigið á staðnum sjálfum. Í mínum huga eru gæðin á matreiðslunni hér á landi nokkuð góð, og fáir staðir sem að verðskulda að sé talað niður til þeirra. þó þeir séu vissulega til.

11/16/2006 2:39 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Þessu get ég verið sammála.
Má vera að Jónas hafi haft einmitt þetta í huga þegar hann gaf stöðum, með ólík markmið og þjónustustig, báðum fjórar stjörnur. Hvor um sig uppfyllti það sem lofað hafði verið.
Líka er ég sammála því að flestir staðir eru að gera vel og standa undir væntingum. Eldhúsin eru góð og kokkarnir okkar á heimsmælikvarða. Stundum er eins og menn átti sig illa á því að það er fyrst og fremst maturinn sem verið er að sækja, í því umhverfi og andrúmi sem viðkomandi staður skartar. Því er þeim mun leiðara þegar þjónustan, tengiliðirnir við matreiðslumennina, er ekki í sama "klassa" og þeir sjálfir. Þau tilvik, eða öllu heldur frásagnir af þeim, verða því meira áberandi sem slugsararnir eru færri.

11/16/2006 3:19 PM  
Anonymous Anonymous said...

Svo því sé haldið til haga þá snýst starf þjónsins um margt fleira en að "vera tengiliður við matreiðsluumanninn" Ef þjónastarfið snerist einungis um að bera fram diska úr eldhúsinu hugsunnarlaust þá skipti varla miklu máli fyrir gestinn ef menn væru eitthvað fúlir og/eða útlenskir. Vissulega þarf þjónn að geta komið þeim skilaboðum frá gestinum sem hann vill koma í eldhúsið og hann þarf að geta komið skilaboðum til baka úr eldhúsi til gests án þess að gesturinn móðgist mikið. En hvað með allt hitt? hvað með þessa heildarupplifun sem þér er svo tíðrætt um? Heldurðu að hún komi af sjálfu sér? Ónei, á bakvið "heildarupplifun" fólks á veitingahúsi liggja ótal vinnustundir þjóna. Yþfirleitt eru það líka þjónar sem setja saman vnílista á veitingahúsum og hjálpa fólki í gegnum þann frumskóg sem það getur verið að velja sér vín.

Auðvitað er margt fleira fólgið í þjónsstarfinu en það sem hér er talið...

Kv,
Nafnlaus

11/27/2006 11:05 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Þegar ég segi "tengiliður" er það af fullri virðingu við hið vandasama og oft vanþakkaða starf þjónsins. Þjónn þarf sannarlega að gera meira en bara bera diska frá og til eldhúss, matarupplifunin er ábyggilega til helminga maturinn og svo þjónustan. Góður matur einn og sér laðar mig ekki aftur á viðkomandi veitingahús ef þjónustan var slæm en góð þjónusta getur hinsvegar gert staðinn aðlaðandi og aukið líkurnar á endurkomu. Burður "skilaboða" frá gestum til eldhúss og svo tilbaka aftur er talsverð minnkun á því mikilvæga hlutverki þjónsins að koma óskum gesta til þeirra sem eru að fara að matreiða oní þá og svo athugasemdum meistaranna tilbaka, ef einhverjar eru. "Tengiliður" var skýrasta lýsingin, á þessum hluta starfsins, sem mér kom til hugar þá stundina, betra orð er örugglega til. Ég hef starfað á veitingahúsum af og til í gegnum tíðina (þó hvorki sem þjónn né kokkur) og geri mér fulla grein fyrir þeim fjölmörgu vinnustundum og verkum þjónsins sem ekki blasa við gestunum þá tvo til þrjá tíma sem þeir hafa viðdvöl. Og fyrir vínþekkingu þeirra þjóna sem hafa ráðlagt mér undanfarið ber ég mikla virðingu.
Kv.
HH..

11/27/2006 2:53 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sko bara kallin

11/28/2006 10:44 PM  

Post a Comment

<< Home