Monday, November 13, 2006

Enn um rýni

Einhver sem kallar sig "nemi" spyr, á freisting.is, hve oft ég hafi farið á Indian Mango áður en ég ritaði rýni um þann stað. Einfaldasta svar við þeirri spurningu er: lestu pistilinn (hann er að finna hér neðar á síðunni) og þá muntu sjá að ég gerði fjórar árangurslausar tilraunir og þegar mér loks tókst að komast þarna inn tók ég fólk með mér svo fá mætti betri yfirsýn yfir fjölbreytileikann. Pistillinn er ritaður eftir þennan dinner og aldrei er gefið í skyn að um heildar úttekt á veitinghúsinu sé að ræða. Aðeins er fjallað um upplifunina af þessari einu heimsókn (vonbrigðin væri kannski réttara) og bera skrifin það glögglega með sér. Svo er í greininni spurt hvort þessi staður taki það vel á móti manni að mann langi að koma aftur. Niðurstaðan er að svo var ekki, í mínu tilfelli, og reyni ég að draga fram hvað það er helst sem veldur því.
Nokkrir staðir hafa, því miður, haft viðlíka áhrif á mig og mitt föruneyti, þ.e. okkur hefur einfaldlega ekki langað að koma aftur. Það er ekki gleðileg niðurstaða, hvorki fyrir mig né viðkomandi veitingastað.
Það, að ég kem ekki nokkrum sinnum og skrifa síðan tæmandi úttekt, segir meira um staðinn en mig. Ef hlutirnir eru ekki í betra lagi en svo að kúnnann langar ekki í aðra heimsókn þarf að líta í eigin barm, ekki skamma sendiboðann.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Varstu kannski búinn að sjá þetta á baggalutur.is???

Liðsmaður GusGus fer óvarlegum orðum um Káta pilta

Herr Doktor Banani, sem um árabil hefur leikið á ávexti og rúmfatnað með fjöllistahópnum GusGus fór óvarlegum orðum um hafnfirsku hljómsveitina Káta pilta í þætti á þýskri naumhyggjuútvarpsstöð fyrr í vikunni.

Sagði Herr Doktor Banani að liðsmenn Kátra pilta væru fordekraðar puntudúkkur sem hefðu fengið allt upp í hendurnar, ótakmarkaðan aðgang að opinberum hafnfirskum sjóðum og að lengri tíma hefði tekið að finna rétta trommukjuða fyrir lagið Feitar konur en fyrir Pink Floyd að taka upp hljómskífuna Dark side of the moon.

Til allrar lukku urðu þó fáir varir við niðrandi ummælin, því útvarpsstöðin telur það ósamboðið listrænum metnaði sínum að senda þætti sína út til almennings.

Engu að síður hefur Herr Doktor Banana verið vikið úr GusGus, enda stríðir það berlega gegn stefnu hópsins að tjá sig.

11/13/2006 9:01 AM  

Post a Comment

<< Home