Thursday, November 09, 2006

Fagmaðurinn og sérfræðingurinn

Enn ritar fagmaðurinn og sérfræðingurinn Stefán Guðjónsson um veitingarýni. Hann vill að allir þeir sem voga sér að gagnrýna veitingahús, bíómyndir, tónlist og hvaðeina séu sérfræðingar í viðkomandi fagi og helst með margra ára reynslu. Enginn, aðeins með áhuga á umfjöllunarefninu, ætti að leyfa sér að gagnrýna þar sem fjöldi manns getur átt afkomu sína undir því að skrifað sé af fagmennsku um það. Svo mörg voru þau orð.

Stefán þessi hunsar tvær mikilvægar staðreyndir í greinarskrifum sínum. Í fyrsta lagi þá staðreynd að langflestir veitingahúsagestir eru hvorki fagmenn né sérfræðingar í matreiðslu, framreiðslu eða veitingahúsarekstri. Þessir gestir eru þeir sömu og lesa veitingarýni og ábyggilega vilja velflestir þeirra lesa rýni sem skrifuð er á mannamáli af fólki sem sjálft er neytendur án sérfræðiþekkingar. Það að viðkomandi rýnir er tónlistarmaður eða blaðamaður kemur málinu hreint ekkert við. Hvernig rýnirinn upplifði staðinn, sem neytandi, og hvernig hann skrifar um hann hlýtur að vera það sem skilur á milli hverra greinar eru lesnar og mark tekið á og hverra greinar vekja ekki athygli. Bókmenntafræðingur skrifar ekki endilega bestu skáldsöguna og framreiðslu-eða matreiðslumaður skrifar ekki endilega bestu veitingarýnina, dæmin sanna það. Hinsvegar getur maður sem ekki spilar á hljóðfæri og er ekki músikant skrifað hinar ágætustu greinar um tónlist og tónlistarmenn, enda skrifar viðkomandi þá sem neytandi. Tvö dæmi um frábæra slíka penna eru Vernharður Linnet og Jónatan Garðarson.

Í annan stað hunsar Stefán algerlega verðgildi reynslu þess sem ekki hefur stundað nám í viðkomandi fagi. Þar til fyrir skemmstu gátu iðnaðarmenn fengið svokölluð ráðherrabréf, til faggildingar, útá reynslu. Mér skilst að það sé ekki lengur hægt og má vera að afstaða ráðuneytisins, og Stefáns, sé til marks um ákveðna þróun til hins verra, að reynsla sé ekki lengur metin sem fyrr. Það hlýtur þó að vera reynsla sem skilur að þá sem kunna og þá sem bara vita. Nám er til flestra hluta gagnlegt en nám án reynslu er gagnslaust. Skrif þess sem hefur keypt þjónustu áratugum saman eru kannski, að því leiti, marktækari en skrif "fagmannsins með sérfræðiþekkinguna" að sá með reynsluna hefur allan samanburðinn og þróun veitingageirans í þrjá áratugi í farteskinu. Það ætti að gera viðkomandi færan um að gagnrýna veitingar og þjónustu.

Að rakka niður reynslu manna og greinarskrif þeirra með orðum eins og "hlægileg", "fáránleg" og "dapurleg" og að halda því fram að viðkomandi séu að skrifa um "hluti sem þau þekkja lítið sem ekkert" er ekki gagnrýni heldur hroki þess sem lítur stórt á sig vegna menntunar sinnar og skírteina. Að ætla að gera lítið úr viðkomandi fyrir "að segjast vera að vernda hagsmuni almúgans" og bíta svo höfuðið af skömminni með því að gera mönnum upp þá skoðun að þeir "haldi að almúginn sé svo vitlaus að gleypa allt sem sagt er" gjaldfellir endanlega skrif Stefáns Guðjónssonar.

Að lokum þetta: "þeir sem gagnrýna verða að vera tilbúnir að taka sjálfir gagnrýni", er einhver mesta rökvilla sem gagnrýnandi þarf að standa frammi fyrir. Það getur ekki verið skilyrði fyrir skoðunum og umfjöllun að viðkomandi lendi sjálfur undir smásjá fyrir orð sín. Þegar gagnrýnandinn bendir á tunglið eru það bara asnarnir sem horfa á puttann, hinir horfa á tunglið og skoða það útfrá gagnrýninni.

Ég gæti sagt miklu meira um þetta mál og mun trúlega gera það á næstu dögum og vikum.

14 Comments:

Blogger Hnakkus said...

Gagnrýnendur vinna sér inn kredit eins og aðrir. Menn taka mark á mönnum sem hafa unnið sér inn kredit og fara mögulega eftir því sem þeir segja þegar velja á matsölustað. Óreyndur rýnir sem augljóslega veit ekki neitt skemmir ekkert fyrir neinum virðulegum veitingamanni svo þeir þurfa ekkert að óttast. Góður rýnir rökstyður líka sína rýni með dæmum og ítarlegum frásögnum svo þetta er ekki bara spurning um einhver óljós smekkatriði oft á tíðum. Það sem veitingamenn þurfa helst að óttast er eigin vanhæfni. Ég hef aldrei heyrt um að frábær veitingastaður hafi verið jarðaður af lélegum gagnrýnanda.

Þetta minnir mig svo á kvikmyndaauglýsingar fyrir myndir sem eru svo slæmar að það þarf að leita uppi rýni eftir sjálfsskipaðan 16 ára rýni á kvikmyndir.is bara til að finna einhvern sem er tilbúinn að klína 3 stjörnum á myndina. Þá til dæmis virkar þetta öfugt og maður veit að myndin hlýtur að vera viðbjóður fyrst svona langt er seilst.

11/09/2006 4:59 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þetta eru ostar, Guðjón....

11/09/2006 10:14 PM  
Anonymous Anonymous said...

Það er ekki það sama gagnrýni og gagnrýni. Þegar er verið að gagnrýna bækur og bíomyndir er ekki sama hvernig farið er að, frekar en þegar um er að ræða veitingahús. Ég vil nefrna Ólaf H Torfason sem dæmi. Hann rýnir í bíómyndir á rás 2. Hann er vel menntaður í kvikmynda- og bókmenntafræðum. Hann gerir það sem gagnrýnandi á að gera. Kynnir sér alla fleti málsins og rýnir í gegnum þá og eftir að hafa gert áheyranda grein fyrir þeim öllum á faglegum nótum lætur hann sína skoðun í lljós með faglegum rökstuðningi. Á X-inu er líka "kvíkmyndagagnrýni". Þar er náungi sem því miður ég veit ekki hvað heitir sem segir fólki hvað honum finnst um þá mynd sem hann fór að sjá. Án þess að kafa neitt djúpt í nokkurn skapaðann hlut. Á þessu er nokkur munur.
Það er rétt hjá þér Hjörtur að neytendur séu fullfærir um að hafa skoðanir á því sem þeir neyta. Það borða allir mat og það er tiltölulega einfalt að ákveða hvort manni finnist maturinn annað hvort góður eða vondur. Það er huglægt mat hvers og eins, á sama hátt og manni finnst eitthvað lag annað hvort skemmtilegt eða leiðinlegt. Þetta geta allir og á svosem rétt á sér, svo langt sem það nær. Mín skoðun er sú að það vanti faglega umfjöllun um veitingahús í íslenska fjölmiðla. Sannnkallaða gagnrýni. Það er ekki sama hvernig vínseðill er samsettur. Það er ekki víst, til dæmis, að vínseðill sé góður eða vel samsettur þótt "gagnrýnanda" finnist öll vínin sem þar er að finna góð. Það er líka kúnst að setja saman matseðla og til allskonar kreðsur í kringum það sem neytendum eru kannski ekkert endilega ljósar. Að láta veitingahús ganga upp á vitrænan hátt er ekkert smámál og það er að mjög mörgu að hyggja sem hinum almenna gesti er ekki alltaf ljóst því oft er um hárfín blæbrigði að ræða.

Ég hygg að það sé þetta sem Stefán eigi við þó hann virðist eiga erfitt með að koma orðum að því vitrænt

11/10/2006 12:54 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Vel mælt. Þorri Hringsson er sennilega sá sem uppfyllir hvað best nefnd skilyrði um fagmennsku, enda gerir hann út á það í sínum skrifum. Mín skrif hafa frá upphafi verið um upplifun hins venjulega manns sem fer út að borða til að vera kóngur um stund, vera borinn í gullstól og borða góðan mat í smekklegu umhverfi.

11/10/2006 8:49 AM  
Anonymous Anonymous said...

Það að vera ágætur penni gerir þig ekki að góðum gagnrýnanda. Það að taka það fram að þú hafir borðar oft og mörgum sinnum á Austur India Fjelaginu og dæmir staðinn út frá því er svo sem ágætt, en hversu oft hafðir þú borða á Indian Mango, Salt og eða öðrum stöðu áður en þú lést ljós þitt skína?

Og jú, gangrýnandi verður að geta tekið gangýni fyrir skrif sín. Hann verður að geta rökstutt það sem hann hefur fram að færa - en ekki bara skellt fram fullyrðingum og látið svo allt annað sem vind um eyru þjóta.

11/10/2006 9:22 AM  
Anonymous Anonymous said...

"Að lokum þetta: "þeir sem gagnrýna verða að vera tilbúnir að taka sjálfir gagnrýni", er einhver mesta rökvilla sem gagnrýnandi þarf að standa frammi fyrir. Það getur ekki verið skilyrði fyrir skoðunum og umfjöllun að viðkomandi lendi sjálfur undir smásjá fyrir orð sín. Þegar gagnrýnandinn bendir á tunglið eru það bara asnarnir sem horfa á puttann, hinir horfa á tunglið og skoða það útfrá gagnrýninni."

Orð í tíma töluð. Sagði einhver Sindri Eldon?

Kkv,

Einar

11/10/2006 12:08 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Takk fyrir þetta innlegg. Ef ég þyki þolanlegur penni þakka ég fyrir það. Ég er sammála því að það eitt gerir mig þó ekki að góðum gagnrýnanda, hjálpar kannski örlítið við að koma hugsunum á blað. Þriggja áratuga reynsla er öðru fremur það sem ég byggi á þegar ég mynda mér skoðun á veitingahúsi. Gagnrýnandi á að sjálfsögðu að geta rökstutt mál sitt þegar svo ber undir, en hann á ekki sjálfur að þurfa að sæta persónulegri gagnrýni (og jafnvel árásum) fyrir það eitt að hafa haft skoðun og tjáð hana.
Ég þarf ekki að fara mörgum sinnum á veitingahús sem valtar svo gjörsamlega yfir kúnnann í fyrstu heimsókn, með óætum mat, arfalélegri þjónustu eða fáránlegri verðlagningu að fleiri heimsóknir eru ekki líklegar til annars en gera stöðuna enn verri. Engum er greiði gerður með því. Þeir veitingastaðir sem hæst væla undan slæmri gagnrýni ættu kannski að líta í eigin barm áður en vaðið er í fjölmiðla til að rakka niður þann sem fékk ömurlega þjónustu eða misheppnaðan mat og sagði frá því.
Og ég læt ekki það sem hraunað er yfir mig sem vind um eyru þjóta, þvert á móti. Ég tek málefnanlega gagnrýni mjög alvarlega og skítkastið jafnvel enn nærri mér. Hinsvegar vissi ég fyrirfram að sá er til vamms segir gerir sjálfan sig gjarnan að skotmarki...
Kv.
HH..

11/10/2006 12:11 PM  
Anonymous Anonymous said...

Það má jafnvel líta á þetta frá öðru sjónarhorni. Ég held að það þætti ekki góður gagnrýnandi sem hlustar einu sinni á disk og dæmir hann út frá því. Það myndi kallast að kasta til hendinni.

Klukkutíma stopp, eða svo, á veitingahúsi, svona rétt á meðan einn til tveir réttir eru gúffaðir í sig, getur varla talist nægur tími til að dæma staðinn. Ekki frekar en ein hlustun á geisladisk, sama hversu margra áratuga reynsla býr að baki.

Það sem ég skrifaði hér að ofan máttu ekki taka sem ég sé að hrauna yfir þig, slíkt kæmi mér ekki til hugar, mig langaði frekar til að koma þessari skemmtilegu umræðu á meira flug.

Kv. HBK

11/10/2006 4:01 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þetta var góður pistill hjá þér Hjörtur. Reynsla er of lítið metin, að mínu mati, í samfélagi okkar í dag en prófgráða metin í sumum tilvikum of mikið. Reynsla er gríðarlega dýrmæt. Svo önnur skoðun hjá mér: Of mikið er fjallað um vín í tengslum við heimsóknir á veitingahús. Ég drekk vín til að finna á mér og vil auðvitað hafa það gott á bragðið en djúpar pælingar um vín eru lítt áhugaverðar. En sitt sýnist hverjum. En að lokum segi ég að dómar þínir um veitingahús, Hjörtur, eru á mannamáli og finnst mér skrifin ná vel til hins almenna veitingahúsagests eins og mín. Kv, Svanur.

11/10/2006 5:50 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Þakka hlý orð í minn garð.
Greinar mínar munu birtast í hinu nýja tímariti Ísafold og svo hér á síðunni þegar eðlilegur hillutími er liðinn.
Ég fagna umræðunni um þessi mál og hvet ykkur til að viðra skoðanir ykkar á skrifum mínum.

11/10/2006 9:19 PM  
Anonymous Anonymous said...

Þorri Hringsson veit ýmislegt um vín og getur því vel fjallað um víseðla á faglegum nótum. Hann hefur samt lítið vit á veitingamennsku sem slíkri. Dómar hanns síðutu ár hafa einkennsst af sleggjudómum og lítið eða ekkert rökdstuddum alhæfingum. Sá eini sem hefur fjallað um veitingahús á íslandi á sanngjarnan og djúpvitran hátt er Steingrímur Sigurgeirsson. Hanns rýni hefur yfirleitt verið á þá lund að það virðist vera heildarhugsun á bakvið hana, þó hann hafi vissulega líka dottið í þá gryfju að kasta til höndum.

Veitingarýnar þyrftu að koma sér saman um það hvernig stjörnugjöf er háttað. Eins og frægt er orðið gaf Jónas Kristjánsson alltaf tveim stöðum fjórar stjörnur. Þeir voru Hótel Holt og Lauga ás. Það þarf nú engan snilling til þess að átta sig á að þar er um tvennskonar gerólíka veitingastaði að ræða og hæpið, í besta falli, að setja þá undir sama hatt. Þetta hefur þú líka gert Hjörtur og vil ég nota þetta tækifæri til þess að gagnrýna þennan hluta þinna skrifa. Það eru til nokkrir klassar af stöðum og ættu rýnar að taka tillit til þess. Stefán Guðjónsson er svosem líka sleggjudómari í sínum skrifum og setur alla rýna undir sama hatt. vegna þess að líkt og með veitingastaði eru til fleiri en einn klassi af gagnrýnendum.

11/11/2006 1:13 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Nohh ! Ég hef að vísu hvorki skrifað um Hótel Holt né Laugaás en ég held ég skilji hvað bréfritari er að fara. Ég hefði kosið nákvæmari skala t.d. 1 til 10 en þar sem fjögurra eða fimm stjarna viðmiðið er svo algengt og fólk áttar sig auðveldlega á því, nota ég það. En ég er sammála því að ekki er hægt að leggja að jöfnu staði sem kosta miklu til og hafa á að skipa fagfólki í fremstu röð og staði sem eru borderline skyndibitastaðir.

11/11/2006 1:35 AM  
Anonymous Anonymous said...

Nei nú má ekki miskilja og halda að ég sé að ía (er það skrifað svona?) að því að um sé að ræða há- eða lágklassa rýna, neitt frekar en hægt sé að tala um há- eða lágklassa veitingastaði, nú eða æðri eða óæðri list. Hér er ég einungis að hada áfram með þann punkt minn bað um sé að ræða fleiri en eina tegund. Líklega væri einmitt farsælla að tala um tegund en klassa.

Biðst ég afsökunnar ef þetta klassatal hefur valdið misskilningi.

11/11/2006 2:17 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég held að oftar en ekki geti verið til bóta að láta ósérfræðimenntaða (úff, orðskrípi) rýna hitt og þetta, einmitt fyrir hinn almenna lesanda. Bókarýni eftir bókmenntafræðinga getur í versta falli farið út í of fræðilegar pælingar sem hinn almennilesandi getur illa glöggvað sig á, og það sama á við um allar rýnir. Auðvitað eru til sérfræðingar sem geta hæglega skrifað texta sem miðar við hinn almenna lesanda, en hitt er alltaf hættan. Sérfræðingurinn hefur stærri og meiri viðmiðun en innbyggði lesandinn í textanum, og því er kannski (takið eftir: kannski) betra oft á tíðum að leikmaður skrifi rýni. En hann þarf að sjálfsögðu að vera faglegur. Sjálfur hef ég bæði gagnrýnt tónlist og leikhús, þótt ég hafi litla sem enga menntun á þeim sviðum (hef að vísu stúderað leikrit í bókmenntafræði við Háskólann, en bara í mýflugumynd). Ég lagði bara upp með það að skoða þau verk sem ég rýndi út frá hlutleysisgrundvelli, meta heildarreynsluna sem neytandi og skrifa um upplifunina. Þetta gafst vel, og mér bárust engar kvartanir. Þó veit ég ekki nema menntað tónlistar- og leikhúsfólk hafi bölvað mér í hljóði, en það verður að hafa það. Mér finnst fagmennska og reynsla skipta öllu, mun frekar en prófskírteini.

Ég hef að vísu aldrei lesið veitingahúsarýni eftir þig, Hjörtur, og ætla ekkert að tjá mig um þær.

11/12/2006 9:54 PM  

Post a Comment

<< Home