Tuesday, November 28, 2006

Latibær

Mér þótti fróðlegt að lesa krítík á Latabæ og svo svarið við svarinu.
Að ætla að dæma konsept og sjónvarpsefni fyrir börn, þar sem hreyfing og hollusta eru í fyrirrúmi, eftir spjallrásarausi internetsjúkra burger-unglinga í Ameríku, er svona álíka gáfulegt eins og að ætla að meta þáttaröð um mat og veitingahús af internetþrugli anorexíusjúklinga.

Og fyrst við erum komin út í þetta: Magnús, ég óska þér innilega til hamingju með Bafta verðlaunin, hinn breska Oscar, þau voru fyllilega verðskulduð.

13 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

Ósammála. Sjá hér. Einnig komment við færsluna.

Hún benti nú bara á þessi netsamtöl, máli sínu til stuðnings, dæmdi ekki út frá því.

11/29/2006 7:49 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Hún bendir á umræðuna á netinu máli sínu til stuðnings ! Einmitt.

Við höfum keypt Latabæjarmerkta vörur og ég get ekki tekið undir það að hún sé dýrari en sambærileg vara frá öðrum. Latabæjar skór eru t.a.m. betri og ódýrari en skór, svipaðrar gerðar, í Hagkaupum. Börnin okkar, 3-7-10 og 13 ára eru svosem engir aðdáendur Íþróttaálfsins en sú næstyngsta hefur tvisvar fyllt út neysludagbókina góðu þar sem hollur matur og vatnsdrykkja eru aðaláherslurnar.

Það sem pirraði mig við gagnrýni bókmenntaprófessorsins var yfirlætistónninn og hrokatilburðirnir, að geta ekki unnt Magnúsi þess að 12 ára þráhyggja hans með þessa hugmynd skuli loks vera farin að bera ríklulegan ávöxt.

En ætli maður verði ekki að kyngja því að í okkar samfélagi vaða uppi meðalmennskuminnipokamenn sem stöðugt öfundast út í þá sem ná árangri. Hugmyndasnauðir prófessorar og doktorar sem kjósa miðstýringu og dróma í stað framsækni og áræðni.
Og fara fyrst á límingunum þegar einhver skarar framúr og kýs að fylgja sannfæringu sinni, að vera öðruvísi en allir hinir. Magnús Scheving fer örugglega rosalega í taugarnar á þessari tegund fólks.

11/29/2006 10:35 AM  
Blogger Hildigunnur said...

veistu, ég vona að ég teljist ekki til öfundarmanna. Mér finnast bara þættirnir hundleiðinlegir (já, ég reyndi að horfa á þá, hélt út þrjá heila þætti áður en ég gafst upp). Ég las reyndar ekki upprunalegu gagnrýni prófessorsins þannig að ég ætla ekki að tjá mig um hana (minntist prófessorinn þar á þessar netumræður eða var það fyrst í Fréttablaðsgreininni?)

Ég er þeirrar bjargföstu skoðunar að gott barnaefni eigi að vera þannig úr garði gert að fullorðnir geti haft gaman af því líka. Annars er alltaf verið að tala niður til barnanna.

11/29/2006 11:10 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Ekki ætlaði ég að flokka þig í þeim hópi.
Öfundarmennirnir, sem ég nefni svo, hvort heldur professorar eða doktorar, hafa haft nægan tíma til að viðra skoðanir sínar á konseptinu Latabæ en kjósa að gera það nú þegar þættirnir slá í gegn út um heim og varningurinn fer að seljast. Þá er allt í einu allt glatað og Magnús orðinn holdgerfingur kapítalismanns.
Var þá allt í góðu með þetta á meðan Magnús barðist í bökkum og borgaði úr eigin vasa laun síns samstarfsfólks ? Má alls ekki hagnast á eigin hugmynd, einkum þegar meir en áratugur er lagður í grunnvinnu og undirbúning ?

En að þessum professor í íslenskum bókmentum, hvar eru hennar afrek ? Hvað hefur frá henni komið sem toppar Latabæ ? Mér þótti málatilbúnaðurinn einkennast af afbrýðissemi og pirringi útí velgengni frekar en málefnanlegri umræðu um innihald. Þó brá henni fyrir sem betur fer. En internetraus á spjallrásum er sjálfsagt hægt að nota til að styðja hvaða álit sem er, hvort heldur jákvætt eða neikvætt.

Og af því þú nefndir Stundina Okkar í blogginu þínu þá er ég sammála þér um þáttargerðina nú í vetur. Það sem kom frá Ástu og Kela þarna í restina hjá þeim var ekki uppá marga fiska og sannarlega talað niður til barnanna, svona "jæja börnin góð, hvernig hafið þið það í dag" bull.

Hvernig var það: "þeir sem geta ekki, kenna og þeir sem geta ekki kennt verða professorar, (doktorar, skólastjórar osfr.)"?

Kv.
HH..

11/29/2006 2:20 PM  
Blogger Hildigunnur said...

já, mér fannst reyndar líka pínulítið fyndið þegar hún tók fram að hún hefði ekkert á móti peningum og að fólk fengi vel borgað fyrir vinnuna en var síðan greinilega eiturpirruð á því samt :-D En mín gagnrýni er ss alls ekki þar (þó ég sáröfundi Mána náttúrlega, hann er orðinn langtekjuhæsti höfundur innan STEFs) heldur bara sú að ég er ekkert hrifin af þáttunum. Var heldur ekki hrifin af leikritinu og bókunum á sínum tíma (og gott ef ég skrifaði ekki um það þá líka)

11/29/2006 4:25 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Já hann Máni minn..... hann er sannarlega öfundsverður af þessari öndvegis ráðningu.
Ég hef samt aldrei verið spenntur fyrir þessu Ibiza-disco-spinoffi hans.
En hann hlær alla leið í bankann..
Kv.
HH..

11/29/2006 5:55 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ibiza-disco-spinoff! He, he, frábært orðskrípi hjá þér þarna. Lýsir ansi vel tónlistinni í þáttunum sem ég persónulega er ekki að fíla en börnin mín tvö, 7 og 3 ára, elska þetta stöff útaf lífinu. Kv.

11/30/2006 3:47 PM  
Anonymous Anonymous said...

Máni skáni skellihlær
skemmtarinn hans er öllum kær
líflegur er Latibær
leiðar eru menntaklær

Svaaakalega var þetta nú lélegur kveðskapur, ég skora á ykkur að koma með eitthvað skárra, svona bara gengur ekki!

11/30/2006 4:02 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég er ekki sammála því að latabæjarvörurnar séu sambærilegar við aðrar vörur. Við höfum lagt í fjárfestingu á þeim handa 7 ára skvísu heimilisins og mér finnast þessar vörur (skórnir þ.e.a.s.) bara hreint drasl.
Hins vegar er Magnús mikill athafnamaður og vel að sínu kominn, þó mér persónulega finnist Íþróttaálfurinn orðinn soltið ammrískur fyrir minn smekk.

11/30/2006 6:29 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Betri kveðskap á ég ekki í handraðanum svona úforvarende en skó hef ég keypt og hjólaskauta, skólatöskur og peysur merkt Latabæ, allt verið í stakasta lagi með það. Kuldagallarnir ollu einhverjum vonbrigðum hjá leikskólafóstrum sem töldu þá ekki endast nógu vel og var því ekki "fjárfest" í þeim að sinni. Fyrir Mána ber ég ekkert annað en virðingu, en þetta búmpf-búmpf-búmpf-búmpf-póstmóderníska-discopopp, sem-gjarnan-heyrist-spilað-á-11-í-alltof-kraftmiklum-hljómtækjum-16ventlatöffara- með-tveggjavikna-gamalt-ökuskírteini-stopp-á-rauðu-ljósi, er bara ekki að höfða til mín persónulega.

12/01/2006 2:11 AM  
Blogger Egill Ó said...

Ég er leiðbeinandi á leikskóla og hef þar af leiðandi ágætis reynslu af þessum Latabæjarvarningi. Kuldagallarnir eru fínir sem og skófatnaðurinn allur. Stígvélin eru reyndar frekar mis en það sama er almennt hægt að segja um stígvél í dag. Eina Latabæjarvaran sem ég hef komist í kynni við sem ég myndi ekki mæla með, óháð verði, eru pollagallarnir. Þeir uppfylla ekki þau meginskilyrði slíks fatnaðar sem er að halda vatni af einhverju ráði.

Ég hef oft heyrt fólk tala illa um Latabæ og þá allt frá pirringi útaf þáttunum og útvarpstöðinni til óánægju útaf fatnaðinum og þvílíku en ég held að það geti engin verið ósammála konseptinu sem er það að stuðla að heilbrigðu mataræði og líferni!

Og hverjum finnst nú Bubbi Byggir skemmtilegt sjónvarpsefni?

12/05/2006 12:58 AM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Takk fyrir þetta innlegg. Það er rétt, það voru polla- en ekki kuldagallarnir sem þóttu ekki vera nógu góðir.

Minn þriggja ára fílar Bubba Byggi, eða hefur gert það, eitthvað er að draga úr spenningnum með aldrinum. En í þau fáu skipti sem ég horfði á þá þætti fannst mér þeir snöggtum skárri en heiladauðinn í Nana-Pó-Itsí-Gúgú, geimverunum sem búa í hólnum, og barnsandlitið í sólinni. Og talandi um söluvarning tengdan sjónvarpsþáttum þá held ég að það lið toppi allt. Maggi karlinn stendur þó allavega fast á því að hafa vörurnar sem, bera nafn Latabæjar í eins góðu lagi og hægt er, án þess að sprengja upp verðið.

12/05/2006 3:06 AM  
Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir góða skemmtun í gær!! Sviðin Jörð er plata til að skjóta sig við..

12/06/2006 7:24 PM  

Post a Comment

<< Home