Monday, November 20, 2006

Tony Cook

Um þessar mundir er staddur á Íslandi upptökumeistarinn Sir Anthony Malcolm Cook, betur þekktur sem Tony Cook. Fáir, ef nokkrir, hafa haft jafn afgerandi áhrif á hljóðupptökutækni hér á landi sem Sir Anthony. Hann var upptökumeistari Hljóðrita sáluga í Hafnarfirði á árunum 1975 til 82 og á þeim miklu umbrotatímum kom hann að upptökum á flestum þeim hljómplötum sem gerðar voru.
Sir Anthony vann náið með þeim tónlistarmönnum sem hann hljóðritaði, nánast sem co-producer, og hafði sem slíkur mikil áhrif á stefnur og strauma jafnframt því að innleiða nýja hugsun í stúdíóvinnu allri. Þeyr, Eik og Bo eru meðal fjölmargra sem Sir Anthony lagði lið. Fram að komu hans til landsins höfðu hljómplötur flestar verið unnar við afar frumstæð skilyrði og af takmarkaðri þekkingu og reynslu. Sir Anthony kenndi heilli kynslóð tónlistarmanna rétt vinnubrögð og nýja tækni fjölrásanna. Ekki er að efa að sú kynslóð sem nú tekur upp tónlist í þvottahúsum og bakherbergjum um allan bæ á margt að þakka þessum brautryðjanda, þó fæstir þeir yngri þekki nafn hans.
Upptökumeistarar íslenskir, sem síðar urðu nafntogaðir sumir, lærðu fræðin hjá Tony svo áhrifanna gætir enn í íslenskri tónlist.
Eitt af síðustu verkum Sir Anthony með íslenskum tónlistarmönnum var langur og strangur túr um Sovétríkin sálugu í boði commissar Leonyds. Fram að þeirri tónleikaferð höfðu engir vestrænir popptónlistarmenn fengið að ferðast um ráðstjórnarríkin, reyndar afar fáir almennir ferðmenn yfir höfuð, svo enn var Tony þátttakandi í brautruðningi. Hinn rómaði spennusagnahöfundur Arnaldur Indriðason var einnig með í för sem skrásetjari atburða svo ekki er öll von úti að einhverntíma birtist ferðasagan á prenti.
Sir Anthony vann hljóð í myndirnar Punktur punktur komma strik (árið 1980) og Atómstöðina (1984) og hefur ekki setið auðum höndum síðan. Hér má sjá má lista yfir kvikmyndir sem hann hefur unnið að eftir að hann snéri heim til Englands en þar eru meðal annarra Trainspotting, Shallow grave og The Crying game.
Sir Anthony Malcolm Cook gerir stuttan stans á Íslandi að þessu sinni en unnið er að því að næsta heimsókn hans verði lengri.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home