Tuesday, May 06, 2008

Hugtakið "hear-say" !

Í mörgum ágætum réttarsala-og lögfræðinga þáttum í sjónvarpinu er notað hugtakið "hear-say", um það sem haft er eftir þriðja aðila. Slíkt telst alla jafna ekki góður vitnisburður þar sem sá sem segir frá var ekki viðstaddur, og sá því ekki með eigin augum það sem gerðist, heldur hefur eftir frásögn einhvers annars.

Í okkar brokkgenga réttarfari hafa menn verið dæmdir sekir eftir slíkum "hear-say" vitnisburði. Nýlegt dæmi; táningur fór í leyfisleysi inná einkalóð (trespassing) og kastaði af sér vatni (meig) yfir eigur þess sem á lóðina. Sá brást við og rak boðflennuna burt. Þegar viðkomandi neitaði að fara stuggaði eigandinn við honum. Hland-unglingurinn hrökk þá í kút, sjálfsagt óvanur því að vera sagt fyrir verkum, og hljóp hljóðandi út í náttmyrkrið. Félagarnir, sem biðu í bílnum á meðan kippkorn frá, tóku á móti stráknum sem andstuttur og skjálfandi sagði þeim frá því að þar sem hann stóð og meig í rólegheitum kom snarbrjálaður maður og hóf að berja á honum með kústskafti. Engu tauti var við þann geðsjúkling komandi og eina ráðið að forða sér á hlaupum, í taugasjokki.

Vitni að þessum atburði voru eigandi eignanna sem mígið var á og sá sem meig.... engir aðrir.

Eigandinn var dæmdur fyrir líkamsárás og gert að greiða hlandhausnum bætur fyrir ónæðið sem hann varð fyrir á meðan hann meig á heimili og eigur þess fyrrnefnda.

Fyrir rétti var vitnisburður mannanna, sem sátu í bíl hálfan kílómetra í burtu og hlustuðu á tónlist, tekinn gildur sem frásögn af atburðinum. Í flestum ríkjum hins siðmenntaða heims hefði slíkur vitnisburður verið kallaður "hear-say" (snjöll þýðing óskast) og ekki talinn trúverðug heimild um hvað gerðist eða gerðist ekki.

Á Íslandi líðst mönnum hinsvegar að gaspra án ábyrgðar um hvaðeina sem í umræðunni kann að vera þann daginn og skiptir þá engu hvað er rétt eða rangt, hvað er satt eða logið, hvað er grunur og hvað telst sannað. Mannorð má fótum troða alveg sama hver á í hlut og sá telst sekur sem ásakaður er ef hann sjálfur getur ekki án tafar sannað sakleysi sitt.

Og "vitnin" spretta út úr tréverkinu eins og veggjatítlur, blaðrandi og þvaðrandi, gerandi sjálfa sig merkilega vegna einhvers sem "þeir heyrðu" eða "upplifðu eftir á", líkt og mennirnir sem biðu í bílnum meðan hlandhausinn meig á einkaeignirnar.

Svo er gjarnar bætt við, neðst í frásögnina; "reyndar sá ég þetta ekki með eigin augum" - en þá er skaðinn skeður og "sökudólgurinn" orðinn sekur í hugum allra sem lásu "vitnisburðinn".

Datt þetta svona í hug þegar ég las þettta á visir.is

0 Comments:

Post a Comment

<< Home